Hvernig sker stjórnin sig úr Evrópusnörunni?

Þrátt fyrir að núverandi stjórnarsáttmáli sé aðeins þriggja mánaða gamall ætlar vinstristjórnin sér tvær vikur í stjórnarmyndunarviðræður. Ástæðan er augljós; vandræði með Evrópumálin. Engin lausn blasir við sem mun gera það að verkum að báðir flokkar geti vel við unað og markmiðið því fyrst og fremst að ná lendingu sem báðir flokkar geta lifað við. Þrjár mögulegar útfærslur eru fyrir hendi.

Stjórnarmyndunarviðræður VG og Samfylkingarinnar hafa staðið yfir í rúma viku og flokkarnir hafa gefið út að niðurstaða kunni að nást um helgina. Þessi ríflegi tími til að ræða áframhaldandi samstarf þegar fyrir liggur þriggja mánaða gamall stjórnarsáttmáli vekur furðu og ekki þarf mikla glöggskyggni til að átta sig á því að eitt mál umfram önnur veldur töfunum, þ.e. Evrópusambandið.

Kúnstin er að ná lendingu í Evrópumálum sem báðir flokkar geta lifað við. Það hefur líka áhrif á þessa skák að ríkisstjórnin dró til baka frumvarp um stjórnarskrárbreytingar fyrir kosningar. Því þyrfti að breyta stjórnarskránni við inngöngu í ESB þannig að þing yrði rofið og boðað til kosninga. Ef farið yrði strax í viðræður við Evrópusambandið gætu nýjar kosningar orðið eftir eitt og hálft til tvö ár. Það er ekki víst að sú tímasetning verði stjórnarflokkunum að skapi.

Mjög umdeilt innan flokkanna

Sjálf útfærslan á Evrópumálinu verður einnig snúin enda málið viðkvæmt innan beggja flokka. Í Samfylkingunni er nokkuð stór hópur sem lítur á ESB-umsókn og ESB-aðild sem algert forgangsmál og lítur á allt annað en aðildarumsókn strax sem eftirgjöf af hálfu flokksins. Flokkurinn setti þetta mál á oddinn í kosningunum núna og mun leggja allt í sölurnar að koma því áfram í stjórnarsamstarfinu.

Innan VG er að sama skapi hópur harðsnúinna Evrópuandstæðinga, t.d. Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherrar. Ragnar er formaður Heimssýnar, félags andstæðinga Evrópusambandsaðildar og vandséð er að þeir hafi mikinn áhuga á málamiðlunum gagnvart Evrópusambandsaðild.

Meðal yngri kynslóðarinnar í VG eru einnig efasemdir gagnvart Evrópusambandinu. Þar er hins vegar lögð áhersla á að málið verði útkljáð með lýðræðislegum hætti, til dæmis með því að fram fari tvöföld atkvæðagreiðsla eða vilji Alþingis verði fenginn fram með því að kjósa um málið þar.

Hvort sem horft er til eldri eða yngri kynslóðarinnar innan VG eru í öllu falli ekki margir í þeim flokki sem telja það brýnasta þjóðþrifamálið að sækja um ESB-aðild og flokkarnir eru því algerlega á öndverðum meiði í þessu stóra máli.

Þrjár leiðir koma helst til greina

Niðurstaðan í stjórnarsáttmálanum verður sjálfsagt á þá leið að flokkarnir sammælast um aðferðafræði en ekki markmiðið sjálft. Gera má ráð fyrir að þrjár leiðir séu á teikniborðinu í Norræna húsinu þar sem fulltrúar flokkanna sitja yfir þessu vandræðamáli.

Fyrsti möguleiki: Beint í viðræður

Augljósasta leiðin er að fara beint í viðræður og kjósa um niðurstöðuna. Ólíklegt er að VG fallist á þetta enda væri um að ræða mikla eftirgjöf af þeirra hálfu þar sem flokkurinn hefur beinlínis verið á móti aðild og það væri mikil kúvending að opna á að fara í viðræður. Kjörtímabilið myndi ennfremur styttast töluvert við þetta; líklega yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöðuna árið 2011 og nýjar þingkosningar í kjölfarið.

Samfylkingin mun þó eiga erfitt með að verja að þessi leið verði ekki farin. Aðeins eru fjórir mánuðir síðan að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi formaður flokksins lýsti því afdráttarlaust yfir að færi Sjálfstæðisflokkurinn ekki í aðildarviðræður væri samstarfi flokkanna lokið. Jafnafdráttarlausar hafa yfirlýsingar Jóhönnu Sigurðardóttur verið gegn því að fara í tvöfalda atkvæðagreiðslu. Samfylkingin mun því leggja mikið undir til að tryggja þessa niðurstöðu og hugsanlega gefa myndarlega eftir í öðrum málaflokkum, t.d. umhverfismálum.

Annar möguleiki: Lagt fram þingmál um viðræður

Önnur leið er sú að stjórnarflokkarnir ákveði að leita til þingsins varðandi umboð í málinu og að flutt verði þingmál strax á sumarþinginu um að fara í viðræður. Jafnvel yrði reynt að búa svo um hnútana að þetta yrði fyrsta þingmálið í sumar sem Samfylkingin gæti þá bent sínum flokksmönnum á sem dæmi um hve hratt flokkurinn væri að keyra málið í gegn. Samfylkingin gæti fallist á þessa leið í þeirri vissu að þingmeirihluti sé fyrir aðildarviðræðum með atkvæðum þingmanna Samfylkingarinnar, Borgarahreyfingarinnar og Framsóknarflokksins. Vinstri grænir myndu þá ekki kjósa með málinu á endanum en veita því framgang á þingi.

Þessi leið hefur þó ýmsa ókosti. Fyrir það fyrsta hefur Framsóknarflokkurinn einungis stutt aðildarviðræður gegn því að sett verði ströng skilyrði af hálfu Íslands, raunar svo ströng að margra mati, að vonlaust yrði fyrir ESB að fallast á þau. Framsókn myndi eflaust gera þá kröfu á þinginu að sett yrði í gang vinna við að móta þessi skilyrði sem tæki tíma og gæti leitt til þess að umsókn Íslands verði hvorki fugl né fiskur vegna óaðgengilegra skilyrða.

Annar ókostur er að með því að samþykkja slíkt þingmál væri komin upp sú staða að ráðherrar VG væru í andstöðu við meirihluta þingsins í þessu veigamikla máli. Ríkisstjórnin myndi engu að síður leiða viðræðurnar og ráðuneytin öll þurfa að koma að viðræðunum. Í hvers konar stöðu er sá flokkur sem er í grunninn á móti aðild en þarf að beita sér aktívt í viðræðunum? Hún yrði undarleg.

Þriðji ókosturinn við þessa leið er sú staðreynd sem Eiríkur Bergmann, Evrópusérfræðingur Samfylkingarinnar, hefur bent á, að óþekkt sé að þjóðir fari í viðræður við Evrópusambandið þegar ríkisstjórn sé klofin í afstöðu sinni til málsins. Óvíst er hvort Evrópusambandið væri yfirhöfuð reiðubúið til slíkra viðræðna.

Fjórði gallinn er hve naumur þingmeirihluti Samfylkingar, Borgarahreyfingar og Framsóknarflokksins yrði í málinu. Alls mynda þessir flokkar meirihluta upp á 33 þingmenn af 63 alls. Þá eru þingmenn Framsóknarflokksins langt frá því að vera allir áhugamenn um ESB-aðild. Oddvitar flokksins í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, þeir Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson, hafa t.d. báðir lýst yfir miklum efasemdum um aðild, m.a. vegna landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins og ljóst er að þeir verða beittir þrýstingi í sínum kjördæmum vegna málsins. Í ofanálag má telja ólíklegt að formaður Framsóknarflokksins hafi mikinn áhuga á að skera Samfylkinguna úr snörunni í þessu máli eftir þá útreið sem hann fékk af hálfu flokksins á sínum tíma og gekk svo langt að hann lýsti því yfir í fjölmiðlum að Samfylkingin væri í skipulagðri herferð gegn sér.

Þessi leið er því ansi vandasöm og hætt við að umsóknin sjálf yrði mikil hrákasmíð á endanum; hún kæmi frá ríkisstjórn sem er klofin í afstöðu sinni, byggði á naumum þingmeirihluta og væri í þokkabót með alls konar óaðgengilegum skilyrðum.

Þriðji möguleiki: Tvöföld atkvæðagreiðsla

Þriðja leiðin er tvöföld atkvæðagreiðsla um aðild. Þá yrði fyrst kosið um hvort fara ætti í aðildarviðræður og svo yrði kosið um niðurstöðuna að viðræðunum loknum. Ýmis rök mæla með þessari leið; þetta tryggir að ríkisstjórnin hefur skýrt umboð í þessu mikilvæga máli og kemur til móts við þann hóp sem er algerlega mótfallinn því að ræða við ESB yfirhöfuð. Nýlegar skoðanakannanir sýna að stuðningur við aðildarviðræður er ekki mikill um þessar mundir, en í könnunum Fréttablaðsins í mars og apríl voru um 54% á móti aðildarviðræðum.

Á móti er bent á að slík atkvæðagreiðsla væri ekki um neitt því niðurstaðan viðræðna sé það sem máli skiptir, en ekki viðræðurnar sjálfar. Auk þess er ljóst að þetta mun tefja ferlið töluvert og slík atkvæðagreiðsla leysir ekki spurninguna um hvaða skilyrði eða samningsmarkmið Íslendingar eigi að setja sér.

Vinstri græn myndu koma betur út úr þessari niðurstöðu en hún yrði vonbrigði fyrir Samfylkinguna og gengi þvert gegn yfirlýsingum forystumanna flokksins að undanförnu. Kosturinn fyrir ríkisstjórnina yrði hins vegar sá að þessi leið myndi lengja í kjörtímabilinu. Kosið yrði um viðræður seint á þessu ári, eða jafnvel ekki fyrr en næsta vor samhliða sveitarstjórnarkosningum. Viðræðurnar í kjölfarið tækju eitt og hálft til tvö ár og þá yrðu trúlega ekki þingkosningar fyrr en árið 2012.

Líklegasta niðurstaðan

Því verður spáð hér að niðurstaða stjórnarflokkanna verði sú að fara með málið fyrir þingið. Það er skásta útgönguleiðin fyrir báða flokka – Samfylkingin nær þá að koma málinu á dagskrá en Vinstri grænir geta þá viðhaft einhvers konar málamyndaandstöðu. Eins og rakið var hér að framan eru miklir ókostir við þessa leið, þingmeirihluti alls ekki tryggur og ósannfærandi út á við að ríkisstjórn sé klofin í sinni afstöðu.

Með þessari leið ná flokkarnir aftur á móti að kasta málinu frá sér og það sem meira er; þeir komast hjá því að gera út um það sín á milli.