Verstu ákvarðanirnar eru teknar í blindni reiðinnar

Það hefur ekki farið framhjá neinum Íslending að síðan íslensku bankarnir hrundu hafa öll spjót beinst að Sjálfstæðisflokknum og honum kennt alfarið um það ástand sem nú er við lýði í þessu landi. Það verður ekki framhjá því horft að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd síðustu 18 árin en það verður heldur ekki framhjá því horft að þessi síðustu 18 ár hafa verið bestu ár lands og þjóðar frá upphafi eða fram að deginum örlagaríka.

Það hefur ekki farið framhjá neinum íslending að síðan íslensku bankarnir hrundu hafa öll spjót beinst að Sjálfstæðisflokknum og honum kennt alfarið um það ástand sem nú er við lýði í þessu landi. Það verður ekki framhjá því horft að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd síðustu 18 árin en það verður heldur ekki framhjá því horft að þessi síðustu 18 ár hafa verið bestu ár lands og þjóðar frá upphafi eða fram að deginum örlagaríka.

Eins og fram hefur komið í mörgum greinum Sjálfstæðismanna og annarra sérfræðinga er það ástand sem við stöndum frammi fyrir ekki alfarið Sjálfstæðisflokknum að kenna. Fyrrverandi formaður flokksins, Geir H. Haarde, kom inn á það í ræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að okkar ábyrgð fælist í því að við beittum okkur ekki betur fyrir því að ná dreifðri eignaraðild að bönkunum. Einnig kom annar fyrrverandi formaður flokksins, Davíð Oddsson, inn á að þau skemmdarverk sem voru unnin með eyðileggingu fjölmiðlafrumvarpsins sem fjölluðu um dreifða eignaraðild. Það hefðu verið mestu pólitísku skemmdarverk á síðari tímum.

Þessum tveimur atriðum hefði Sjálfstæðisflokkurinn átt að berjast fyrir með kjafti og klóm. Hann gerði það ekki og þess vegna ber hann ábyrgð á því að afleiðingar hrunsins eru meiri en þær hefðu þurft að vera. Það má þó ekki gleyma því að ef sjálfstæðismenn hefðu haft hreinan meirihluta á þingi hefði þessi dreifða eignaraðild náð fram að ganga í báðum tilvikum og þannig hefðum við hugsanlega náð að minnka tjónið.

Almenningur hefur ekki áhuga á því í dag að hlusta á raddir Sjálfstæðismanna. Almenningur hefur án þess að kynna sér þær útskýringar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur borið á borð varðandi efnahagshrunið og þær lausnir sem flokkurinn hefur bent á sem leið út úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir, ákveðið að KJÓSA EKKI SJÁLFSTÆÐISFLOKKINN. Eins og sumir hafa orðað það; ,,ekki fyrir sitt litla líf.“

Heift og reiði almennings er vel skiljanleg en því miður er ekki hægt að fara aftur í tímann og laga þetta mikla tjón. Það eina sem hægt er að gera núna er að bjóða upp á raunhæfar lausnir til að vinna okkur út úr þeim vanda sem við sem þjóð glímum nú við.

Reynum að brjóta okkur leið, með fyrirgefningu, út úr þeirri heift og reiði sem ástandið hefur vakið upp og kynnum okkur hvað Sjálfstæðismenn standa fyrir og hvað þeir hafa fram að færa.

Það er vel þekkt að verstu ákvarðanirnar eru teknar í blindni reiðinnar og það eru ákvarðanir sem mikil eftirsjá er í þegar reiðin rennur af okkur. Vert þú ekki einn af þeim sem tekur þína ákvörðun í blindni reiðinnar. Látt þú ekki reiðina ráða þinni för þegar í kjörklefana er komið. Vinn þú bug á henni og mættu yfirvegaður í kjörklefann og kjóstu á þann hátt sem er landi og þjóð fyrir bestu til framtíðar.