Tár, bros og frjálshyggja

Það má með góðum vilja líkja frjálshyggjumönnum við fótboltaáhugamenn. Frjáls markaður er eins og fótboltavöllur þar sem jafnræði ríkir milli leikmanna, allir fylgja sömu reglum og dómgæslan er sanngjörn. Þannig, og aðeins þannig, er líklegast að betra liðið sigri, bestu leikmennirnir fái að njóta sannmælis og áhorfendur hafi gaman að leiknum. Undanfarið hefur „frjáls“ markaður þó átt fátt sameiginlegt með góðum fótboltaleik.

Það er alveg ljóst að almenningsálitið bæði hér á landi og erlendis er á þann veg að frjálshyggjan hafi brugðist– frelsi í viðskiptum hafi verið of mikið – og því hafi markaðshagkerfið á endanum fallið undan eigin þunga. Undirritaður hefur því, líkt og fleiri frjálshyggjumenn, átt í hugmyndafræðilegu uppgjöri við sjálfan sig síðan seint á síðasta ári og reynt að setja hlutina í nýtt samhengi.

Manni verður stundum hugsað til knattspyrnu í þessu sambandi. Það má nefnilega með góðum vilja líkja frjálshyggjumönnum við fótboltaáhugamenn. Frjáls markaður er eins og fótboltavöllur þar sem jafnræði ríkir milli leikmanna, allir fylgja sömu reglum og dómgæslan er sanngjörn. Þannig, og aðeins þannig, er líklegast að betra liðið sigri, bestu leikmennirnir fái að njóta sannmælis og áhorfendur hafi gaman að leiknum. Það sama gerist á frjálsum markaði; skilvirkustu fyrirtækin skara fram úr hæfni sinnar vegna, starfsmenn fá kaup í samræmi við framlag sitt og neytendur hagnast.

Undanfarið hefur „frjáls“ markaður þó átt fátt sameiginlegt með góðum fótboltaleik. Fjöldamörg fyrirtæki hafa getað starfað í fölsku skjóli ríkisins og tekið áhættu á kostnað almennings. Deiglupenninn Þórlindur Kjartansson líkti þessu við að annað fótboltaliðið spilaði með blý í skónum í pistli sínum í Fréttablaðinu í nóvember. Á meðan tryllist hitt liðið úr gleði í hvert skipti sem þeir lauma boltanum í mark andstæðingsins. Það er ljóst að fótboltaáhugamenn gætu ekki réttlætt að íþróttin væri leikin með þessum hætti, og hefðu líklegast fæstir áhuga á því. Það sama gildir um frjálshyggjumenn og ríkisábyrgðina.

Þetta er þó hvorki eini né stærsti gallinn á „fótboltaleiknum“ sem spilaður hefur verið á fjármálamörkuðum undanfarin ár. Annað sem lagt er til grundvallar því að niðurstaða markaðarins sé sem best er að hann sé skilvirkur og laus við bresti. Til að tryggja að svo sé er mikilvægt allir sitji við sama borð þannig að enginn hafi forskot í formi óeðlilegra upplýsinga eða með blekkingum.

Þegar fjármálafyrirtæki geta fegrað bókhald sitt þannig að það gefi óeðlilega mynd af rekstrinum, falsað lánshæfismat lántaka svo útlánasöfn þeirra virðast áhættulaus og falið eignarhald með flóknum krosseignatengslum er vegið að skilvirkni markaðarins. Það spila ekki allir eftir sömu leikreglum. Þessu má líkja við ef annað liðið í knattspyrnuleik tæki upp á því að taka stundum boltann með höndum og kýla andstæðinginn ef hann flæktist fyrir án þess að dómarinn aðhefðist neitt. Niðurstaðan yrði svipuð og nú er á fjármálamörkuðum heimsins; besta liðið myndi sjaldnast vinna, fótboltinn biði álitshnekki og myndi að lokum hrynja sem vinsælasta íþrótt heims.

Þess vegna finnst fótboltaáhangendum sjálfsagt að liðin fylgi skýrum leikreglum. Það skemmir ekki fyrir íþróttinni heldur tryggir þvert á móti að hún sé sanngjörn og skemmtileg. Það nákvæmlega sama gildir um frjálshyggjumenn. Enginn heilvita frjálshyggjumaður er á móti því að reglur gildi á markaði sem tryggja skilvirkni hans og því ömurlegt að heyra óvini frelsisins tala líkt og sú sé raunin. Skilvirkni markaða er ein af forsendum frjálshyggjunnar, hvað sem hver segir. Ófrjáls markaður er óskilvirkur – óskilvirkur markaður er ófrjáls.

Jafnvel þó fótboltalið tækju einn daginn upp á því að taka boltann með höndum í tíma og ótíma, neyða mótherja sína til að spila með blý í skónum og lemja andstæðinginn myndu fæstir íþróttaáhugamenn taka undir að fótbolti væri ömurleg íþrótt sem enginn ætti að spila, því þeir vita að þannig á fótbolti ekki að vera. Þeir myndu frekar áfellast leikreglurnar, fótboltaliðin og dómarana.

Hið sama má segja um frjálsan markað. Við skulum því hætta að leita sakarinnar þar sem hana er síst að finna og einblína frekar á það sem brást í raun; regluverkið, aðila markaðarins og eftirlitsstofnanir. Frelsið hefur ekki brugðist okkur og er ennþá heppilegasta þjóðfélagsskipulag sem þekkist.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)