Áætlun sem vinnur gegn sjálfri sér

Fyrr í mánuðinum kynnti félagsmálaráðherra loksins aðgerðaáætlun gegn mansali á Íslandi. Aðgerðaáætlunin er tekin svo til beint upp eftir Norðmönnum, þar sem hún hefur gefið ákaflega góða raun. Heilt á litið er áætlunin mikið framfaraskref í þágu mannréttinda og –virðingar á Íslandi. Hún er þó langt því frá að vera hafin yfir gagnrýni.

Fyrr í mánuðinum kynnti félagsmálaráðherra loksins aðgerðaáætlun gegn mansali á Íslandi. Aðgerðaáætlunin er tekin svo til beint upp eftir Norðmönnum, þar sem hún hefur gefið ákaflega góða raun. Heilt á litið er áætlunin mikið framfaraskref í þágu mannréttinda og –virðingar á Íslandi. Hún er þó langt því frá að vera hafin yfir gagnrýni.

Grunnstefið í áætluninni er að búa fórnarlömbum mansals sem bestar aðstæður til að stíga fram, losna undan kúguninni og leita réttar síns. Þannig er fórnarlömbunum t.d. tryggð heilbrigðisþjónusta, lögregluaðstoð og ákveðinn umþóttunartími þar sem ekki er hægt að vísa þeim úr landi. Á umþóttunartímanum er þeim tryggt húsaskjól, félagsleg og fjárhagsleg aðstoð. Þetta eru miklar úrbætur, því hingað til hefur fórnarlömbum mansals ekki staðið nein séraðstoð til boða, og jafnvel verið vísað beint til heimalandsins.

Einnig er gert ráð fyrir ákveðinni vitundarvakningu meðal opinberra starfsmanna sem hafa hugsanlega með mál fórnarlamba mansals að gera. Þessi vakning nær ekki síst til lögreglu, og þó fyrr hefði verið, því hingað til hefur aldrei verið kært eða rannsakað mansalsmál á Íslandi. Það er því vonandi að lögregluyfirvöld horfist loks í augu við að hér, eins og annarstaðar, getur mansal þrifist.

Þessar aðgerðir eru sértækar og líklegar til að stórbæta aðstöðu þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á mansali. Það sama verður ekki sagt um þann hluta áætlunarinnar sem ætlað er að sporna gegn eftirspurn eftir vændi og klámi. Sá hluti gerir ráð fyrir því að kaup á vændi verði gerð refsiverð, nektardans sömuleiðis og að eftirlit með þeim sem hagnast á vændi (þar á meðal í formi húsaleigu og auglýsingasölu!) verði eflt.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann eru gömlu stuttbuxnarökin; að hér sé verið að skerða frelsi kvenna til að ráða yfir eigin líkama og afla tekna með þeim hætti sem þær sjálfar kjósa. Þessi rök finnst mörgum þó léttvæg ef litið er til þeirra glæpa sem framdir eru gegn konum sem starfa í kynlífsiðnaðinum, enda gera þær það oft úr sárri neyð. En er þeim einhver greiði gerður með því að glæpvæða starfsemi þeirra?

Lögbann við kaupum á kynlífsþjónustu mun ekki gera út af við iðnaðinn. Það sem mun hins vegar gerast er að hann færist undir yfirborðið í enn meira mæli. Slíkt er líklegt til að auka ofbeldi gagnvart vændiskonum og gera yfirvöldum erfiðara fyrir að hafa eftirlit með öryggi þeirra, eins og margoft hefur komið fram í áliti Allsherjarnefndar alþingis.

Þannig myndu yfirvöld jafnframt útiloka að kaupendur vændis sem gruna að um mansal sé að ræða leiti til lögreglu og vinna þar með gegn markmiðum áætlunarinnar. Í Hollandi, þar sem vændi er með öllu löglegt, hefur lögreglan til dæmis virkjað kaupendur kynlífsþjónustu til að koma upp um mansal með mjög góðum árangri. Það mun reynast ómögulegt verði kaupin gerð ólögleg.

Að auki er mjög ólíklegt að bannið hafi teljandi áhrif á eftirspurn eftir vændi, en samkvæmt rannsókn sem hagfræðingurinn Steven Levitt gerði í heimaborg sinni, Chicago, hefur lögregla afskipti af færri en einum af hverjum 500 kaupendum vændis. Þó má ætla að þar sé eftirlit með starfseminni öflugra en hér á landi.

Svipað er uppi á teningnum verði nektardans bannaður á Íslandi; bannið mun líklegast skaða þá sem því er ætlað að vernda. Einhver fjöldi dansmæra yrði samstundis atvinnulaus. Þeirra á meðal eru margar sem tala litla sem enga íslensku og ættu erfitt með að finna önnur störf. Óvíst er hvert þær myndu leita til að afla tekna, en það mun ekki verða skárra en nektardansinn. Það væri því til þess fallið að auka á eymd dansmæra að banna atvinnu þeirra. Þá eru ótaldar þær deilur sem myndu hljótast af skilgreiningunni á „nektardansi“, sem líklegast myndi aldrei ríkja sátt um.

Lög sem nú gilda í landinu gera ráð fyrir að þriðja aðila sé óheimilt að hagnast á vændi annars. Það er tilraun löggjafans til að koma í veg fyrir að rekstur myndist í kringum vændi, þ.e. að dólgar geti haft vændiskonur í sinni umsjá. Nú vill löggjafinn herða eftirlit með því að þriðji aðili geti hagnast á vændi, meira að segja í formi húsaleigu, væntanlega til að koma í veg fyrir að vændishús skjóti rótum. Þetta er gert þrátt fyrir að fjölmargar rannsóknir liggi fyrir um að öryggi og velferð vændiskvenna sem njóta umsjár þriðja aðila og starfa í sérstökum vændishúsum er mun betra en þeirra sem gera það ekki. Þeirra á meðal er rannsókn Steven Levitt.

Í huga pistlahöfundar er augljóst að þau atriði sem að ofan eru nefnd eru mikill ljóður á annars góðri áætlun félagsmálaráðherra. Þau virðast sprottin úr tepruskap og þörf til að stjórna siðferðismati og gildum náungans og eru líklegri til að þjóna höfundum sínum en þeim markmiðum sem áætluninni er sett. Vonandi verða þó hagsmunir vændiskvenna og fórnarlamba mansals sett ofar þessum hvötum siðapostulanna.

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)