Stefnuleysi í heilbrigðismálum

Einhver mestu lífsgæði í heimi er ennþá að finna á Íslandi. Á síðasta ári lýsti Forbes tímaritið því til dæmis yfir að Ísland væri heilbrigðasta land í heimi . Á meðal vestrænna þjóða eru lífslíkur hér hvað hæstar (81 ár), og það sem meira er, lifir fólk hér við góða heilsu lengst af (Healthy life expectancy) eða til 73 ára aldurs að meðaltali. Þó er víða pottur brotinn í heilbrigðismálum.

Einhver mestu lífsgæði í heimi er ennþá að finna á Íslandi. Á síðasta ári lýsti Forbes tímaritið því til dæmis yfir að Ísland væri heilbrigðasta land í heimi(1). Á meðal vestrænna þjóða eru lífslíkur hér hvað hæstar (81 ár), og það sem meira er, lifir fólk hér við góða heilsu lengst af (Healthy life expectancy) eða til 73 ára aldurs að meðaltali. Ungbarnadauði mælist nær hvergi minni í heiminum(2). Íslendingar standa framar jafnvel nágrönnum sínum í Skandinavíu varðandi ákveðnar tegundir sykursýki(3).

Þetta er jákvæða hliðin á peningnum. Þegar krónunni er snúið við, sérstaklega í fjölmiðlum, þá virðast allir óánægðir. Starfsmenn segjast vinna of mikið og fá of lág laun. Sjúklingar segjast þurfa að bíða of lengi eftir meðferð og skattgreiðendur borga meira fyrir heilbrigðisþjónustu en þekkist á nær nokkru byggðu bóli í heiminum. Samkvæmt tölum frá OECD þá fer næstum 10% af vergri landsframleiðslu Íslands í rekstur heilbrigðiskerfisins(4). Sú tala er sérlega há í ljósi þess að Íslendingar eru mjög ung þjóð í samanburði við aðrar þjóðir sem eru á svipuðum slóðum.

Ísland steig á undanfarinni öld hvert skrefið á fætur öðru í átt til velsældar og hagsældar. Flest skrefin fólust í því að ganga í burtu frá höftum og miðstýringu í átt að frelsi og einstaklingsframtaki. Það eru ekki stjórnmálamenn heldur fólkið í landinu sem hafa aukið velferð á landinu. Stjórnmálamennirnir gáfu fólkinu athafnafrelsið sem það svo nýtti til góðra verka. Þetta hefur ekki breyst. Það verður áfram fólkið í landinu sem skapar verðmæti og velsæld. Ekki stjórnmálamenn.

Það er gríðarleg gróska í heilbrigðisvísindum. Samkvæmt Rannís þá fór þriðjungur af útgjöldum til rannsókna og þróunar á Íslandi árið 2005 til rannsókna á heilbrigðissviði(5). Í nýlegu viðtali við forstöðumann frumkvöðlaseturs Impru þá kom í ljós að þau telja mikinn vöxt á tveimur sviðum: „ nýsköpun tengd orkuiðnaðinum og einnig nýsköpun tengd heilbrigðissviði “ (6).

Íslenska heilbrigðiskerfið er mannað af gríðarlega hæfileikaríku og duglegu fólki. Vandamál heilbrigðiskerfisins er ekki fólkið heldur það kerfi sem það vinnur í. Kerfi sem vinnur gegn framtakssemi og letur fólk til að koma með tillögur að breytingum á kerfinu. Leiðin fram á við til þess að nýta þennan gríðarlega mannauð þjóðarinnar felst í því að draga úr miðstýringu og auka sjálfstæði stofnanna og opna fyrir einkarekstur á ákveðnum afmörkuðum sviðum.

Það er ekki endalaust hægt að loka best menntuðustu stétt landsins, heilbrigðisstéttina, inni í fangaklefa miðstýringar og forsjáhyggjur. Sú fjárfesting sem hefur verið lögð í þessa þekkingu er allt of mikil til þess að réttlæta slíka sóun. Hæfileikar og kraftar fólks sem vinnur að heilbrigðismálum þurfa að vera betur nýttir, ekki einungis fyrir betri heilsu landsmanna, heldur einnig sem drifkraftur græns hagvaxtar í framtíðinni.

1. Forbes, 2008 http://www.forbes.com/opinions/2008/04/07/health-world-countries-forbeslife-cx_avd_0408health.html
2. World Health Statistics, WHO 2008, bls 38-39
3. T. Helgason, R. Danielsen and A. V. Thorsson „Incidence and prevalence of Type 1 (insulin-dependent) diabetes mellitus in Icelandic children 1970–1989“, Diabetologia, Volume 35, Number 9 / September, 1992, Berlin
4. http://www.hagstofa.is/Pages/421?itemid=c4f55adc-72a3-4318-9885-a660fc2fd4e9
5. http://www.rannis.is/files/Vogin%20-%20%C3%9Atg%C3%A1fa%202007_1481060027.pdf (bls 10)
6. http://www.vf.is/Frettir/38531/default.aspx

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.