Stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar

Auðlindir hafsins eru tilverugrundvöllur íslensku þjóðarinnar. Hvað gerist ef þessi auðlind verður skyndilega einskis virði? Í dægurþrasi stjórnmálanna, þar sem örfoka land í óbyggðum og tilvera Ríkisútvarpsins skipa stóran sess, fara menn gjarnan á mis við þau mál sem varða mesta hagsmuni okkar Íslendinga.

Á síðasta vorþingi voru samþykkt á Alþingi lög um eldi nytjastofna sjávar. Markmið laganna er að stuðla að ábyrgu eldi nytjastofna og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal í því skyni leitast við að tryggja gæði framleiðslunnar, koma í veg fyrir hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og lífríki þeirra og tryggja hagsmuni þeirra sem nýta slíka stofna.

Eldi nytjastofna sjávar er mál sem ekki hefur fengið mikla athygli í þjóðmálaumræðunni. Raunin er þó sú, að um gæti verið að ræða langsamlega stærsta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar til lengri tíma litið – og blikna þá öll stóriðjuáform, landvernd og líftækniuppbygging í samanburðinum. Málið varðar einfaldlega sjálfan tilverugrundvöll byggðar á Íslandi.

Íslendingar eru auðug þjóð vegna hinna gjöfulu fiskimiða umhverfis landið. Auðlindir hafsins hafa tryggt okkur lífsgæði langt umfram það sem flestar þjóðir mega sætta sig við. Þjóðarauðurinn er þannig grundvallaður á sérstæðri auðlind.

En hvað gerist þegar auðlind verður ekki svo sérstæð? Hvað gerist þegar fiskræktendur úti í heimi hafa náð slíkum tökum á eldi nytjastofna sjávar, að þeir geta boðið afurðir fyrir brot af því verði sem íslenskur sjávarútvegur þyrfti að fá til að standa undir sér?

Þótt eldi nytjastofna sjávar sé skammt á veg komið í samanburði við t.d. laxeldi, þá verður að hafa í huga í það er enn í frumbernsku og eftir aðeins nokkra áratugi gæti framleiðslugeta fiskræktenda numið – ekki hundruðum þúsunda tonna af bolfiski á ári, eins og heildarkvóti á Íslandsmiðum er – heldur milljónum, jafnvel tugmilljónum.

Þá verður heldur lítils virði hafa sjóinn fullan af fiski í kringum landið, það kostar jú sitt að veiða hann og engin leið yrði að keppa við jafnt og stöðugt framboð fiskræktenda. Þeir gætu boðið kaupendum staðlaða stærð í ákveðnu magni, dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð – á miklu, miklu lægra verði.

Það er því ekki tómstundagaman hjá stærstu útgerðum landsins að hefja nú tilraunir með eldi nytjastofna sjávar. Þvert á móti kann að vera um lífsspursmál þeirra og íslensku þjóðarinnar að ræða. Sem betur fer hafa stjórnvöld tekið þessi mál föstum tökum og áhugi sjávarútvegsins eldi nytjastofnanna bendir til þess, að við Íslendingar ættum að hafa alla möguleika á því að verða í fremstu röð fiskræktenda – þegar og ef sá tími kemur, að fiskræktin leysir hefðbundnar veiðar af hólmi.

Ef við bregðumst í þeirri viðleitni okkar, gæti það haft næstum óhugsandi afleiðingar fyrir tilverugrundvöll íslensku þjóðarinnar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.