Hver vann?

Í dag mættu 2000 manns á Austurvöll til að fagna sigri. Hvaða sigri?

Hörður Torfason og samtökin Raddir Fólksins hafa mótmælt á Austurvelli síðan að bankarnir hrundu. Framtak þeirra er gott og ber að virða. Að sama skapi ber að fordæma og ákæra það fólk sem réðst á lögregluna. Fjöldi fólks krafðist þess að stjórnmálamenn og embættismenn öxluðu ábyrgð á því hruni sem orðið hefur í efnahagslífi landans og virðist ætla að soga hluta þjóðlífsins með sér. Það er eðlileg krafa og ekki verður litið framhjá áhrifum mótmælanda á þróun mála hér á landi undanfarna daga.

Í dag var hins vegar haldin Sigurhátíð á Austurvelli. Nú skil ég ekki. Hvaða sigur vannst? Ef ég skildi mótmælendur rétt voru fjögur atriði á óskalistanum. 1) Ríkisstjórnin segði af sér. 2) Stjórn Fjármálaeftirlitsins segði af sér. 3) Stjórn Seðlabankans segði af sér og 4) Boðað yrði til kosninga.

1) Það er allt útlit fyrir það að hálf ríkisstjórnin sé farin frá völdum. Það eru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem hafa horfið á braut. Völd Samfylkingarinnar sem fóru með bankamál í síðustu ríkisstjórn hafa aukist. Er þá verið að fagna í hálfleik?

2) Fjármálaeftirlitið er óvirkt og stjórnlaust.

3) Stjórn Seðlabankans er hin sama og áður.

4) Geir H. Haarde vildi láta kjósa 9. maí n.k. Í stað þess á nú að kjósa í lok apríl. Ef að líkum lætur er það ætlun manna að drepa málum á dreif í næstu kosningum með því að kæfa nauðsynlegt uppgjör við stjórnmálamenn með „Evrópuumræðu“ eða stjórnlagaþing.

Ég óska mótmælendum sem telja sig hafa unnið til hamingju. Sjálfur er ég frekar ósáttur með: 1) Enga endurnýjun á Alþingi. 2) Stjórnlaust Fjármálaeftirlit og þar með töf á nauðsynlegum málum. 3) Deyjandi atvinnulíf sem þarf að búa við 18% vexti. 4) Vaxandi atvinnuleysi með ófyrirséðum afleiðingum fyrir almenning í landinu.

Ef Raddir fólksins unnu, hverjir töpuðu?

Góðar stundir.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)