You ain‘t seen nothing yet

Ein af hinum fjölmörgu og misgáfulegu ásökunum á hendur Sjálfstæðisflokknum í kjölfar bankahrunsins er sú að efnahagsstjórn hans hafi verið veik. Gott og vel. En þeir sem hæst kvörtuðu ættu fyrst að súpa hveljur nú þegar hyllir í áherslupunkta hinnar rauðgrænu ríkisstjórnar, sem hér eftir verður nefnd Brúnka. Baby, you ain‘t seen nothing yet.

Síðustu daga hafa uppgjafarkommúnistarnir í flokki Vinstri-grænna nánast titrað af spenningi yfir því að komast loks að í ríkisstjórn. Þessi mikli spenningur hefur fengið útrás í hreint út sagt ótrúlegum yfirlýsingum flokksmanna í fjölmiðlum, sem minna helst á einhverskonar misheppnað vinnustaðagrín þingflokksins; hver getur komið með vitleysislegustu uppástunguna áður en stjórnarsamstarfið hefst formlega? Álfheiður Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir eru sem stendur hnífjöfn með fullt hús stiga, en ekkert þeirra hefur lagt til lausn sem ekki hefur jafnharðan verið skotin niður af fræðimönnum. Vel gert.

Steingrímur J. reið á vaðið í viðtali í Kastljósinu með því að leggja það til að láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins yrði skilað. Gylfi Zoega hagfræðingur steig fram daginn eftir og kallaði það glapræði og heimskuleg skilaboð til umheimsins, auk þess sem Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, hefur þegar lýst því yfir að efnahagsáætlun AGS sé prýðileg eins og hún er. Þrátt fyrir það vill Steingrímur frekar að landið standi kviknakið án varagjaldeyrissjóðs, líkt og Davíð Guðjónsson hefur þegar fjallað um.

Katrín Jakobsdóttir lét það þó ekki aftra sér í að trompa ummæli Steingríms og lýsti sömu skoðun í alþjóðlega viðskiptablaðinu Financial Times. Hún tilkynnti jafnframt að hún teldi víst að vinstri stjórn væri komin til að vera í íslenskum stjórnmálum. Talið er líklegt að næsta útspil hennar verði að hengja stóran borða framan á Leifsstöð með áletruninni „Fjárfestar – FORÐIÐ YKKUR.“

Innlegg Álfheiðar Ingadóttur var síðan að gefa Fjármáleftirlitinu heimild til að frysta eignir „auðmanna“, hverjir sem það annars eru, án dóms og laga. Henni þótti ekki ástæða til að velta sér sérstaklega upp úr ákvæðum stjórnarskrár sem lögin þykja stangast á við og sagðist ekki gera ráð fyrir því að lögin myndu fæla erlenda fjárfesta frá landinu. Jahá. Jón Daníelsson, dósent við London School of Economics, sagði hugmyndina út í hött og að þær einkenndust af popúlisma. Enda myndu þessar kyrrsettu eignir hennar Álfheiðar fyrst og fremst nýtast til að greiða erlendum kröfuhöfum og kæmu íslenskum skattgreiðendum ekki að öðru gagni en gefa þeim ástæðu til að hlæja að óförum vondu ríku kallanna.

Að auki er talið líklegt að fari svo að Ögmundur Jónasson hreppi heilbrigðisráðuneytið komi hann til með að afturkalla þær hagræðingaraðgerðir sem Guðlaugur Þór hefur unnið að síðustu mánuði. Ögmundur tryggir þar með að útgjöld ríkisins vegna heilbrigðisþjónusu haldist áfram í hámarki, algjörlega að óþörfu.
Til að toppa allt sem á undan er nefnt berast nú fregnir af því að Vinstri-grænir vilji splundra þeirri sátt sem náðst hefur um tryggingar innistæðueigenda íslensku bankanna í Englandi og Hollandi, þrátt fyrir að ríkissjóður hafi þar sloppið með það allra minnsta sem EES samningurinn kveður á um. Öruggt má telja að trúverðugleiki íslenska ríkisins og fyrirtækja yrði endanlega ónýtur ef við göngum á bak orða okkar þar.

Og hver segir svo að Vinstri-grænir sýni ekki ábyrgð í efnahagsmálum?

Latest posts by Hafsteinn Gunnar Hauksson (see all)