Þurrkulegur Þráinn

Davíð Guðjónsson ritaði pistil sem birtist í gær á Deiglunni og kom m.a. inn á athæfi ofbeldissinnaðra óeirðaseggja (mótmælenda). Undirrituð getur tekið undir margt sem kom fram í umfjölluninni, en vill þó bæta ýmsu við.

Davíð Guðjónsson ritaði pistil sem birtist í gær á Deiglunni og kom m.a. inn á athæfi ofbeldissinnaðra óeirðaseggja (mótmælenda). Undirrituð getur tekið undir margt sem kom fram í umfjölluninni, en vill þó bæta ýmsu við.

Á meðan að á þessum áföllum og efnahagsþrengingum hefur staðið, hafa nokkrir óprúttnir menn svo sannarlega séð tækifæri til þess að sýna sitt skítlega eðli. Þetta eru algerlega blygðunarlausir einstaklingar sem ekkert er heilagt.

Fyrsta ber að nefna þá einstaklinga sem hafa safnast saman í miðbænum dag eftir dag til að fremja þar ofbeldisverk og eignaspjöll. Um er að ræða óþroskað fólk sökum æsku, vanheila menn, fíkla og afbrotamenn – enda verið réttnefndir góðkunningjar lögreglunnar af henni. Þessir einstaklingar verða vonandi dregnir til ábyrgðar frammi fyrir dómstólum, þó svo að örugglega mikill hluti þeirra sé ósakhæfur sökum greindra annmarka. Auk þess að hafa framið refsiverð athæfi, hafa þessir einstaklingar skemmt svo um munar fyrir friðsælum mótmælum sem höfðu staðið yfir vikum saman. Annar hópur tilheyrir ekki þeim fyrrnefnda, en ber þó ábyrgð. Það eru foreldrar unglinga og jafnvel krakka sem héngu utan í lögreglunni langt fram eftir nóttu og eftir útivistarbann og fóru fram með ofbeldi og óeirðum. Þessir foreldrar bera umönnunarskyldu sem er lögbundin. Einhverjir þessara foreldra hafa vísast skammast sín, en aðrir hafa komið fram i í fjölmiðlum, stórhissa á framferði lögreglunnar og stjórnvalda.

Næst eru það fjölmiðlamenn. Þeir hafa brugðist hlutverki sínu svo um munar og tekið þátt í að æsa upp óheilbrigt fólk svo skömm er að. Þeir hafa gengið á milli óeirðarmanna til þess að þeir geti úthrópað lögreglufólk við störf sín og veitt þeim viðtöl á besta tíma. Þeim væri nær að kanna bakgrunn þessara viðmælenda sinna, sem þeir mála sem fórnarlömb aðstæðna. Flestir óeirðarseggjanna sem þeir taka tali virðast hafa verið á skemmtigöngu í bænum með grímu fyrir andlitinu vopnaðir saur og öðru slíku þegar skyndilega er ráðist á þá af óprúttnum og ofbeldissjúkum lögreglumönnum, algjörlega af tilefnislausu. Ef þessi framganga „frétta“manna reynist síðan refsiverð ættu þeir þurfa að svara fyrir það fyrir dómstólum.

Þráinn Bertelsson fær sér kafla. Hann hefur farið mikinn á blogginu sínu og tekið undir það sjónarmið fjölmiðla að óeirðirnar sem hafa brotist út megi rekja til vopnklæddra lögreglumanna ,,sem mætir dulbúin með ógnandi fasi og beitir eiturvopnum og bareflum agalaust eftir geðþótta einstakra villidýra í þessum hópi.“ Og Þráinn lætur ekki þar við sitja. Eftir að Geir hafði sent út tilkynningu þess efnis að hann glímdi við alvarleg veikindi, kallar Þráinn hann getulausan á blogginu sínu. Lokaorðin í færslu dagsins eru þessi: ,,Bið ykkur svo lengstra orða að fá ekki stórmennskubrjálæði á sjúkrahúsum ykkar og heimta byggingar á hátæknisjúkrahúsum ef þið eigið afturkvæmt til vinnu.“ Þetta fer fram úr lýsingum á skítlegu eðli og mannvonsku.

Ekki er hægt að skrifa um eðlið sem birst hefur svo glöggt í nokkrum einstaklingum án þess að nefna stórskáldið Hallgrím Helgason. Hallgrímur, borgarfulltrúaherra, fór fyrir hópi unglinga sem réðist á forsætisráðherra er hann reyndi að komast frá stjórnarráðinu í vikunni. Hallgrímur hreykti sér af þessu í fjölmiðlum og sagði Geir ekki hafa verið í lífshættu. Hallgrímur stóð jafnframt fyrir utan Valhöll í dag á þeirri erfiðu stundu þegar Geir skýrði miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá veikindum sínum. Þar hafði Hallgrímur hátt, en ekki fer sögum af því hversu upplitsdjarfur hann var, fullorðinn maðurinn, eftir að hann heyrði af efni fundarins. E.t.v. hefur hann skammast sín, þótt ég efist stórlega um það.

Ágúst Ólafur, varaformannslufsa, kemur einnig upp í hugann. Ágúst notaði tækifærið meðan að Ingibjörg Sólrún formaður Samfylkingarinnar lá og glímdi við erfið veikindi til að reyna að hífa upp slakt persónufylgi. Hann gaf út yfirlýsingu fyrir hönd flokksins, þó svo að von væri á formanninum til landsins eftir tvo daga. Það er von mín að sem flestir hafi sér í gegnum athæfi Ágústs og óeinlægnina í því að keyra suður til Keflavíkur og taka á móti Ingibjörgu. Það er jafnframt von mín að Ingibjörg sé nógu hraust til að láta hann heyra það. Ágúst Ólafur kemst aldrei með tærnar þar sem Ingibjörg hefur hælana, ekki einu sinni þótt hún liggi bjargarlaus á sjúkrahúsi.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.