Að finna reset takkann og ýta á’ann

Bara ef stjórnsýslan væri jafn hugvitssamlega útbúin og einkatölvan. Með stórum og áberandi reset takka ef allt fer í vaskinn. Nú í vikunni gerði hópur fólks leit að slíkum takka utan á Alþingishúsinu en án árangurs. Enda einungis fárra útvaldra að ýta á slíkan. Þörfin fyrir það vex hratt, ekki síst ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera sér einhverjar vonir um að endurvekja traust meðal hins almenna kjósanda á ný.

Bara ef stjórnsýslan væri jafn hugvitssamlega útbúin og einkatölvan. Með stórum og áberandi reset takka ef allt fer í vaskinn. Nú eða power takkann sem yfirleitt gegnir sama hlutverki sé ýtt nógu djö… fast og lengi á hann.

Sjaldan hefur verið meiri þörf fyrir stórum og góðum reset takka á stjórnsýslunni og um þessar mundir. Sannkölluðum töfratakka sem ekki einungis slekkur á tölvunni og kerfinu sem var komið í fast, heldur losar okkur undan öllum kerfisvillunum og vírusunum sem voru farnir að vaða uppi.

Nú í vikunni kom saman hópur fólks fyrir framan Alþingishúsið og leitaði að stórum reset takka utan á því. En af því að íslensk stjórnsýsla hefur löngum ekki verið jafn sjálfsgagnrýnin, auðmúk og meðvituð um eigin brigðugleika og stórkompaníið Microsoft, þá fannst sá takki ekki. Og rétt eins og maður getur orðið brjálaður á að finna ekki reset takkann á tölvunni sinni varð þessi hópur eðlilega mjög pirraður. Og hann hafði fullan rétt á því.

Þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að afar djúpstæð kerfisvilla, samsett úr makalausri græðgi, siðblindu, egói, rangri peningamálastefnu, eftirlitsleysi og fáheyrðri vangetu á öllum stigum keyrði efnahag Íslands í rúst. Markaðskapítalisminn sýndi þjóðinni sitt innra sjálf enda gerir hann það betur en nokkuð annað kerfi. Og með óvenjuhörðum og ósanngjörnum afleiðingum. Alþjóðlega lausafjárkreppan atti reyndar vírusétnu hagkerfinu fram að bjargbrúninni, en það sá um það sjálft að stíga fram af henni. Og í dag efast enginn um að svo hefði á endanum farið.

Stjórnvöld virðast ætla að bíða með það þangað til í fulla hnefana að ýta á reset takkann. Og það má e.t.v. ekki gagnrýna þau um of með það. Eftir allt þá er mikill akkur að því að halda kerfinu gangandi til að vinna megi bug á meinsemdinni og loka tölvunni með eðlilegum hætti án þess að gögnin skemmist. Sýna verður því skilning. En eftir þrjá mánuði ætti að vera orðið ljóst að búið er að bjarga því sem bjargað verður úr hruninu sjálfu. Þörfin á að ýta á takkann vex með degi hverjum, ekki síst þar sem hluti af reset takkanum felst í því að endurvekja traust á kerfinu og skapa vinnufrið. Ekki bara innlendis, heldur erlendis líka. Þetta er jú engin venjuleg tölva.

Forystusveit Sjálfstæðisflokksins virðist ganga með ansi þykk eyrnaskjól þessa dagana, hlustandi hvorki á raddirnar í þjóðfélaginu né skilaboð úr baklandi sínu. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Nú er það svo að þótt kerfið verði endurræst er hætt við að lítt betra taki. Og vírusarnir verða áfram til staðar að einhverju og jafnvel miklu leyti. En því lengri tíma sem það tekur að leita að reset takkanum og ýta á hann, þeim mun lengri tíma mun það taka Sjálfstæðisflokkinn að endurvekja traust sitt meðal þjóðarinnar. Og þeim mun þyngra sem hún ýtir á takkann því fyrr mun þjóðin fyrirgefa flokknum ástandið. Hún mun seint gleyma þessum tímum. En það er skuggalega margt sem bendir til að skammtímahagsmunir séu látnir ganga fram yfir langtímahagsmuni um þessar mundir.

Hvar er reset takkinn? Finn og ýt.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.