Skríllinn í stofunni

Á meðan Alþingi hóf störf sín safnaðist stór hópur saman við Austurvöll til þess að mótmæla þessu sama Alþingi. Á dagskrá þingsins var að ræða um framboð áfengis í verslunum, skipafriðunarsjóð og eldflaugavarnir. Það sem enginn virtist sjá eða vilja tala um var fíllinn í stofunni.

Á meðan Alþingi hóf störf sín safnaðist stór hópur saman við Austurvöll til þess að mótmæla þessu sama Alþingi. Á dagskrá þingsins var að ræða um framboð áfengis í verslunum, skipafriðunarsjóð og eldflaugavarnir. Það sem enginn virtist sjá eða vilja tala um var fíllinn í stofunni.

Fyrir rúmlega 100 dögum þá sökk Ísland, eins og það var þá, ofan í sjó. Allt kerfið hrundi: gjaldmiðillinn, bankarnir, hlutabréfamarkaður og traust almennings á stjórnmálamönnum. Unnið er hörðum höndum að endurreisn gjaldmiðilsins, bankanna og hlutabréfamarkaðarins en stjórnmálamennirnir virðast ætla að sitja áfram í krafti valds sem þeim var úthlutað í „Gamla Íslandi“.

Samfélög mannanna eru byggð upp á mörgum mismunandi félagslegum kerfum*. Þessi kerfi eru misfljót að bregðast við breyttum aðstæðum. Valdakerfi landsins, sem byggist upp á flóknum vef stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka og ríkisvaldsins; er örugglega hægasta kerfið til breytinga.

Íslenska þjóðin hefur margsýnt það og sannað að hún hefur gríðarlega mikið þol og þolinmæði frammi fyrir harðæri. Hún er einnig mjög fljót að laga sig að breyttum aðstæðum og breyttu andrúmslofti. Þolinmæðinni fylgir þó krafa um almenna sanngirni.

Valdakerfi landsins er ekki jafn snöggt að átta sig á breyttum aðstæðum. Hvarvetna má sjá fólk sem hefur setið lengi við valdastóla ekki bara hugsa með sér, heldur einnig að lýsa yfir í fjölmiðlum að það beri enga ábyrgð, sæti því engri ábyrgð og ætli sér að sitja sem lengst.

Þarna er valdkerfið hratt farið að fjarlægjast almenning í landinu. Fólk út um allt land þarf að búa við það að missa störf, missa húsnæði og viðskiptahindranir. Allir þurfa að fórna. Nema þeir sem báru einhverja ábyrgð (!)

Til þess að hámarka andúð almennings á stjórnvöldum þá datt svo einhverjum sýslumanninum úti á landi í hug að fara í fjölmiðla og tilkynna það að hann ætlaði sér í fjöldahandtökur á smáskuldurum í sínu héraði.

Skilaboð: Stórir skuldarar sleppa, smáir skuldarar borga.

Það þarf að stokka upp sem fyrst. Uppstokkunin þarf að felast í því að nýtt fólk leiði uppbyggingu. Stærstu úrlausnarefnin í dag felast í þeirri gríðarlegu eigna- og skuldatilfærslu sem á sér stað núna og skiptir gríðarlega miklu máli að það verkefni takist án þess að bak við tjöldin séu íslenskir ólígarkar stofnaðir á grundvelli frændsemis við þá sem um valdataumana halda.

Á meðan allir stjórnmálamenn eru að hugsa um að vernda samtryggingarkerfið, þá róast ástandið ekkert.

* Kerfi er hér skilgreint sem ákveðnir aðilar hvers samband og samskipti fylgja ákveðnum reglum.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.