,,Ný glæpasagnadrottning”

Nú þegar mikil ringulreið ríkir í þjóðfélaginu og öll gildi virðast vera að breytast, er mikilvægt að gleyma sér ekki í svartnættinu og huga að því sem ennþá er gott og gilt í samfélaginu; stendur óhaggað af sér stormsveipinn. Margir eiga um sárt að binda og sjá ekki fyrir endann á vandræðum sínum.

Nú þegar mikil ringulreið ríkir í þjóðfélaginu og öll gildi virðast vera að breytast, er mikilvægt að gleyma sér ekki í svartnættinu og huga að því sem ennþá er gott og gilt í samfélaginu; stendur óhaggað af sér stormsveipinn. Margir eiga um sárt að binda og sjá ekki fyrir endann á vandræðum sínum.

Íslendingar eru ríkir að mörgu leyti. Eitt helsta ríkidæmi þeirra felst í ódauðlegum bókmenntaverkum íslenskra rithöfunda sem fræg eru um heim allan. Útrás (ef svo er enn óhætt að orði komast) íslenskra rithöfunda hefur staðið yfir í fjöldamörg ár og virðist aðeins sækja í sig veðrið ef eitthvað er.

(Vilborg) Yrsa Sigurðardóttir kom nýlega fram á sjónarsviðið sem höfundur ,,fullorðinsbóka“, en fyrsta sagan eftir hana sem ekki var barna-/unglingabók kom út árið 2005 og heitir Þriðja táknið. Yrsa er fædd árið 1963, er byggingarverkfræðingur að mennt og starfar sem slíkur auk þess sem hún stundar ritstörf. Áður en Þriðja táknið kom út á íslensku hafði útgáfurétturinn verið seldur víða erlendis. Bókin hefur nú verið gefin út á yfir 30 tungumálum í rúmlega 100 löndum.

Þriðja táknið er glæpasaga. Hún fjallar um þýskan sagnfræðinema sem finnst myrtur í Reykavík, nánar tiltekið í Háskóla Íslands. Fjölskylda drengsins er ósátt við rannsókn lögreglunnar og fær Þóru Guðmundsdóttur, ungan íslenskan lögmann, til að grafast fyrir um málið. Hinn látni reynist hafa verið að bera saman galdrafárið á Íslandi á 17. öld og hliðstæðu þess á meginlandi Evrópu, en utan fræðistarfanna virðist hann hafa lifað vægast sagt skrautlegu lífi. Inní þetta fléttast síðan fjölskyldu- og ástarlíf Þóru sem er einstæð móðir. Bókin er virkilega vel skrifuð og Yrsa hefur mjög góð tök á íslenskri tungu. Samtölin í bókinni eru trúverðug og persónurnar mjög vel gerðar og auðvelt fyrir íslenska lesendur að tengjast þeim veruleika sem birtist bókinni. Þriðja táknið er svo spennandi að erfitt er að leggja hana frá sér þegar maður er á annað borð byrjaður. Hún heldur athygli manns alveg frá byrjun til enda og er mjög ólík þeim spennusögum sem hafa komið út hérlendis síðustu ár. Þriðja táknið fékk frábæra dóma bæði hér og erlendis, en Yrsa var m.a. kölluð ,,ný glæpasagnadrottning“ af sænskum gagnrýnendum.

Önnur glæpasaga Yrsu, Sér grefur gröf, kom út árið 2006 og þá hafði útgáfurétturinn á henni þegar verið seldur um allan heim. Í bókinni er óhugnalegt morð framið á nýju heilsuhóteli á Snæfellsnesi. Bærinn þar sem hótelið stendur reynist vera þekktur fyrir reimleika og Þóra Guðmundsdóttir er réttargæslumaður eigandans sem liggur undir grun. Rannsókn Þóru leiðir síðan í ljós hörmulega atburði sem áttu sér stað fyrir mörgum áratugum. Bókin hlaut mjög góðar viðtökur og dómar voru lofsamlegir. Bókin höfðar e.t.v. meira til tilfinninga en Þriðja táknið, en er engu að síður frábær spennusaga. Húmorinn sem einkenndi Þriðja táknið að einhverju leyti nær nýjum hæðum í Sér grefur gröf, auk þess sem hún er mjög draugaleg. Yrsa er mjög lagin við að flétta saman sögu og skáldskap og lýsingar í bókunum hennar gera það að verkum að sögusviðið er ljóslifandi fyrir augunum á manni.

Árið 2007 kom síðan út bókin Aska. Í henni finnast líkamsleifar við uppgröft húss sem fór undir ösku í eldgosinu í Eyjum 1973. Á svipuðum tíma verður grunsamlegt andlát konu í Reykavík. Þóra Guðmundsdóttir kannar í þessari sögu það hvort og þá hvernig þessir atburðir tengjast. Að mínu mati er Aska sísta bókin af þessum þremur glæpasögum. Hún er engu að síður mjög góð, bara ekki eins spennandi og hinar tvær. Sögufléttan er góð, en aukapersónurnar fannst mér ekki jafn sannfærandi eins og áður. Yrsa skrifar áfram um fjölskyldulíf Þóru í þessari bók, sem er flókið sem aldrei fyrr og eru þær frásagnir stórskemmtilegar.

Fyrir nokkrum dögum kom út fjórða skáldsaga Yrsu, Auðnin. Bókin fjallar á ný um Þóru Guðmundsdóttur lögmann, en hún tekur þátt í leiðangri til að kanna aðstæður þar sem ekkert samband næst við tvo Íslendinga í rannsóknarbúðum á Grænlandi. Ég bind miklar vonir við bókina og get ekki beðið eftir að klára próflestur og hefja jólabókalesturinn. Lestur er jú jafn nauðsynlegur fyrir sálina og hreyfing er fyrir líkamann, einkum og sér í lagi þegar skammdegið er hvað svartast.

Latest posts by Diljá Mist Einarsdóttir (see all)

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Diljá hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2006.