Íslenska útrásin hættir aldrei!

Í kjölfar hruns íslensku bankanna hafa margir litið svo á að íslensku útrásinni sé lokið. Greinarhöfundur telur hana aldrei hætta. Hér er einfaldlega of mikið af hæfileikaríku fólki sem mun láta til sín taka innan lands sem utan og halda útrásinni áfram.

Í kjölfar hruns íslensku bankanna hafa margir litið svo á að íslensku útrásinni sé lokið. Greinarhöfundur telur hana aldrei hætta. Hér er einfaldlega of mikið af hæfileikaríku fólki sem mun láta til sín taka innan lands sem utan og halda útrásinni áfram.

Á milli kreppufrétta síðasta mánaðar mátti finna, ef vel var leitað, fréttir af frábærum árangri íslensks afreksfólks. Bar þar hæst góðar fréttir af íslensku tónlistar- og íþróttafólki.

Í kjölfar frábærs gengis íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta bárust fréttir af því að íslensku landsliðskonurnar væru hver af annarri að tínast út til félagsliða í Evrópu. Slíkur árangur er enn ein rósin í hnappagatið hjá íslensku stelpunum sem hafa greinilega vakið mikla athygli hjá evrópskum félagsliðum með árangri sínum.

Ekki má gleyma körlunum. Landsbankadeildinni (sáluga?) lauk nú fyrir nokkru og hefur hún sjaldan verið meira spennandi. Keppnistímabilið var lengt þetta árið og keppst var við að hafa umgjörðina alla eins og best var á kosið. Óhætt er þó að segja að það hafi verið ungu mennirnir sem stálu senunni og skutu þeim eldri ref fyrir rass. Þessir strákar hafa þó ekki lokið keppni þetta árið – hjá þeim mörgum tekur nú við val á bitastæðum tilboðum frá liðum í Evrópu.

Í síðasta mánuði lauk svo Iceland Airwaves hátíðinni. Hátíðin þótti einkar vel heppnuð þetta árið þrátt fyrir erfitt efnahagsástand. Erlendir ferðamenn og blaðamenn kvörtuðu þó ekki og keyptu bjór sem aldrei fyrr á afar hagstæðu verði. Nú berast stöðugt fréttir af íslenskum hljómsveitum sem ætla að reyna að nýta sér frammistöðu sína á hátíðinni til að koma sér á framfæri erlendis.

Krepputal með tilheyrandi bölsýni og depurð mun væntanlega dynja yfir okkur áfram. Við megum þó ekki missa sjónar á þeim miklu tækifærum sem okkur standa til boða. Hér á landi er þrátt fyrir allt góður efniviður til að gera frábæra hluti.