Nýr Verkamannaflokkur með gamaldags kreddur

Flokksþing breska Verkamannaflokksins stendur nú yfir í Blackpool á Englandi. Tvö stór mál voru rædd á þinginu í gær: einkafjármögnun í velferðarkerfinu og stríð á hendur Írak. Þingið gaf grænt ljóst á hertar aðgerðir gegn Írak en flokksmenn voru ekki jafnhrifnir af hugmyndum Tony Blair um að láta einkaaðila um byggingu og rekstur skóla og sjúkrahúsa. Hefur Verkamannaflokkurinn með Tony Blair í brúnni virkilega færst nær nútímanum eða er hann jafnúldinn og hann hefur alltaf verið?

Í gær var mikilvægasti dagurinn á flokksþingi breska Verkamannaflokksins í Blackpool þegar flokkurinn tók afstöðu til stefnu ríkisstjórnarinnar um að auka hlutfall einkafjármögnunar í velferðarkerfinu. Blair beið hneykslanlegt afhroð í atkvæðagreiðslunni þegar 66% flokksins samþykkti að láta fara fram sérstaka rannsókn á kostum og göllum einkafjármögnunar í velferðarkerfinu. Með öðrum orðum vill meginþorrinn í flokknum, með verkalýðsforingjanna í broddi fylkingar, beita öllum ráðum til að taka málið af dagskrá. Þetta er aðeins í annað skipti síðan 1997 að Blair tapar í atkvæðagreiðslu á flokksþingi og þetta er því mikið áfall fyrir forsætisráðherrann.

Fyrir átján mánuðum síðan setti Verkamannaflokkurinn mennta- og heilbrigiðsmálin í fyrsta sæti og var endurkjörinn til stjórnarsetu í kjölfarið. Kosningaloforðin snérust um fleiri skóla og fleiri sjúkrahús. Nú vil flokksforustan standa við loforðin en það er ekki ókeypis og ekki er endalaust hægt að kafa í vasa skattgreiðenda án þess að þeir mótmæli. Nútímamaðurinn Tony Blair vill nýta fjármagn úr einkageiranum til að reisa sjúkrahús og skóla en flokksmenn hans eru langt því frá að vera ánægðir með þá stefnu.

Allar ríkisstjórnir standa frammi fyrir þeim grundvallarspurningum hvort peningarnir til reksturs velferðarkerfis eigi að koma af skatttekjum borgaranna, hvort treysta eigi einkaaðilum til að annast reksturinn eða þá byggja upp kerfi á einhvers konar blöndu af þessu tvennu. Sífellt fleiri hafa sannfærst að einaaðilum er betur treystandi en ríkinu til að annast samkeppnishæfan rekstur og Tony Blair er líklega einn þeirra (enda mjög hipp gæi). Hann hefur að minnsta kosti séð kosti þess að bjóða út uppbyggingu og rekstur ýmissa eininga í velferðarkerfinu. Hann skilur eins og flest okkar að það er mun skynsamlegra fyrir borgaranna að einkaaðilar beri áhættuna sem fólgin er í að reisa ný sjúkrahús og eina leiðin til að fá einkaaðila til að bera slíka áhættu eru væntingar um ágóða af starfseminni.

En það er einmitt þessi von um ágóða og að einhverjir geti grætt á starfsemi eins og skólarekstri sem breskum verkalýðsleiðtogum og meginparti Verkamannaflokksins svíður undan. Það er sama gamla kreddan og alltaf, það er svo ljótt að græða peninga.

Flokkurinn skilur ekki að með þessum aðgerðum græða allir. Hugmyndafræðin um miðstýringu og ríkisafskipti sem Verkamannaflokkurinn er best þekktur fyrir kom þarna gjörsamlega upp á yfirborðið og sýndi hans sanna eðli. Þetta fólk vill um fram allt tefja bráðnauðsynlega uppbyggingu mennta- og heilbrigðiskerfis en að gefa einkaaðilum tækifæri á að hagnast á hagkvæmum rekstri í velferðarkerfinu. Þrátt fyrir það að Tony Blair hafi hamrað á því að ekki sé um einavæðingu að ræða heldur muni ríkið bjóða út starfsemina og fá einkaaðila til að reisa hentugt húsnæði og annast hluta starfseminnar eins og td. þrif og mötuneyti þá vill flokkurinn frekar reisa enga skóla og enga spítala heldur en skóla og spítala byggða fyrir fjármagn úr einkageiranum.

Þrátt fyrir niðurstöðu fundarins og harðorð mótmæli þá ætla forysta flokksins sér að halda óhikað áfram með stefnu sína. Forystunni þykir mikilvægara að standa við kosningaloforðin heldur en að taka málið af dagskrá og láta breska kjósendur bíða aðra 18 mánuði eftir skólunum og spítölunum sínum. En það er nokkuð ljóst að Tony Blair þarf að taka til í flokknum sínum ef flokkurin ætlar að kalla sig „New Labour“ áfram.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.