Hvernig á Samfylkingin að koma Íslandi inn í ESB?

Í stað þess að svekkja sig endalaust út af því að aðrir séu þeim ekki sammála í Evrópumálum ætti Samfylkingin að safna í fingurbjörg af pólitísku þreki og sýna frumkvæði. Hvenær í ósköpunum ætlar Samfylkingin að fara að tala um Evrópumál?

Í stað þess að svekkja sig endalaust út af því að aðrir séu þeim ekki sammála í Evrópumálum ætti Samfylkingin að safna í fingurbjörg af pólitísku þreki og sýna frumkvæði. Hvenær í ósköpunum ætlar Samfylkingin að fara að tala um Evrópumál?

Núverandi áætlun Samfylkingarinnar í Evrópumálum virðist vera eftirfarandi

1. Geir H. Haarde heldur ræðu á Landsfundi þar sem hann lýsir því yfir að Íslendingar munu sækja um aðild að ESB.

2. Sjálfstæðismenn standa fyrir fundaröð þar sem kostum ESB-aðildar er lýst og helstu leiðtogar flokksins fylla miðopnur moggans með rökstuðningi sínum

3. Eftir nokkrar Alþingiskosningar og afar spennandi kosninganótt á þjóðaratkvæðagreiðsludaginn tekst já mönnum, undir forustu Sjálfstæðisflokksins að merja nauman sigur og Ísland gengur í Evrópusambandið.

Í raun er það alveg ótrúlegt hve mikið Samfylkingunni er í mun að Sjálfstæðismenn létti þeim róðurinn í Evrópuumræðunni. Flokkurinn sem sakar aðra um að þegja um Evrópumál er afar þögull um þau sjálfur. Hvar eru fundaraðirnar um Evrópusamvinnuna? Hvar eru greinarnar eftir framamenn innan flokksins þar sem þeir rökstyðja sínar ástæður þess að þeir telji Íslendinga eiga ganga þar inn? Hvergi, Samfylkingarforustar lætur fræðimönnum og Evrópuamatörum á hliðarlínu stjórnmálanna um að leiða baráttuna.

Ef Samfylkingin væri flokkur með snefil af trú á sjálfa sig mundi hún taka málin í sínar hendur og berjast sjálf fyrir inngöngu í ESB án stöðugrar þráhyggju um hvað fólki í öðrum flokkum finnst um málið. Áætlunin ætti auðvitað að vera eftirfarandi:

1. Samfylkingin gerir ESB aðild að stefnumáli númer eitt, tvö og þrjú í næstu kosningum. Frambjóðendur svara um Evrópumál þó Helgi Seljan spyrji þá um jarðgangnagerð eða aðbúnað aldraðra. Flokkurinn þynnir út önnur stefnumál sín til að ná til Evrópusinna innan annarra flokka.

2. Samfylkingin vinnur yfirburðasigur í kosningunum og er í lykilstöðu við myndun ríkisstjórnar. Í ljósi orðræðu kosningabaráttunnar er öllum ljóst að Samfylkingin muni ekki samþykkja ríkisstjórnarsáttmála sem ekki lofar aðildarumsókn. Mynduð er ríkisstjórn með VG eða Framsókn en samstarfsflokknum er gefið svigrúm til andstæðra skoðana í Evrópumálum að sænskri fyrirmynd.

3. Sótt er um aðild að Evrópusambandinu og farið af stað í aðildarviðræður. Þegar niðurstaða liggur fyrir mun líklegast þurfa að breyta stjórnarskránni og er þing þá rofið og boðað til nýrra kosninga.

4. Eftir sigur Samfylkingarinnar samþykkir þingið lög um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn og fer hún fram innan fárra mánaða.

5. Samfylkingin leiðir Já-fylkinguna til sigurs í þjóðaratkvæðagreiðslunni og Ísland gengur í ESB í upphafi næsta árs. Tveimur árum síðar er Evran tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi.

Á Möltu eru tveir flokkar. Hinn hægrisinnaði Þjóðarflokkur sem er fylgjandi aðild og hinn vinstrisinnaði Verkamannaflokkur sem er henni andvígur. Hægrimennirnir leiddu landið inn í ESB í kjölfar tveggja naumra kosningasigra. Þeir kosningasigrar voru nóg.

Það er heimskulegt að vonast eftir því að einhver annar muni birtast og vinna alla erfiðu vinnuna. Ef Samfylkingunni er alvara með Evrópustefnu sinni ætti hún að drullast til að taka af skarið og reyna af einhverri alvöru að koma landinu inn í ESB.

Sjálf.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.