Er Ísland að bráðna?

Vinnuhópur Umhverfisráðherra skilaði nú nýlega skýrslu um áhrif hlýnandi loftslags á Ísland. Snöggur yfirlestur skýrslunnar gefur til kynna að fyrir fólk á nyrstu hjörum veraldar, þá gætu verri hlutir gerst en að veðrið hlýnaði aðeins.

Samkvæmt skýrslu vinnuhóps umhverfisráðherra, þá mun gróður aukast á landinu. Uppskera á öllum fóður- og matjurtum mun aukast. Kornrækt, sem var stunduð á Íslandi fyrr á öldum, mun snúa aftur. Skógarmörk munu færast ofar og þarmeð verður víða skjólsælla.

Margir fiskistofnar við landið munu færast í aukana, helst má þar nefna: ýsu, lýsu, skötusel og ufsa. Í sumar hafa íslendingar getað veitt makríl sem er með verðmætari uppsjávarfiskum og Síld gæti farið að ganga á Íslandsmið eins og á gullaldarárum síldveiði við Íslands. Á hinn bóginn er talið að helst geti rækjan og þorskur átt undir högg að sækja í hlýrri sjó.

Stórkostlegir möguleikar munu verða til þegar íshellan á norðurheimskauti opnast fyrir skipaumferð á milli Asíu og Norður Atlantshafs. Það mun leiða til stóraukinnar skipaumferðar framhjá Íslandi og skapar mikil tækifæri fyrir landið til þess að verða umskipunarhöfn á milli þessara svæða. Slíkar hafnir (eins og t.d. Rotterdam) skapa mikil viðskipti og hafa mikil áhrif sem miðstöð flutninga.

Fyrir utan alla fræðilegar úttektir þá líður væntanlega hverjum landsmanni ljómandi vel með að geta verið meira úti við á sumrin. 20 stiga dagarnir hafa sjaldan verið fleiri en á síðustu tveimur sumrum.

Hér er ekki verið að gera lítið úr þeim vandamálum sem gætu skapast ef meðalhiti á jörðinni eykst mikið á komandi áratugum. Hér er bara verið að benda á þær köldu staðreyndir að hlýrra loftslag á norðurhveli jarðar gerir svæðið lífvænlegra. Þannig bjuggu norrænir menn á Grænlandi á síðasta hlýindaskeiði jarðar en fluttu þaðan þegar kólnaði á ný.

Það er full ástæða til þess að vinna að því hörðum höndum að draga úr mengun og leita leiða til þess að nýta græna orkugjafa eftir kostum. Þar liggja fyrir höndum mikil tækifæri fyrir íslendinga sem geta farið fram með góðu fordæmi.

Hinsvegar er verið að benda á að hér er ekki um ragnarök að ræða fyrir Ísland.

Heimildir:
How the world will change with Global warming eftir Trausta Valsson: http://www.boksala.is/DesktopDefault.aspx/tabid-8/prodid-40797/
Skýrsla umhverfisráðuneytisins:

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.