Að sparka eins og stelpa

Hversu oft hefur viðlíkingin ,,þú sparkar eins og stelpa” verið notuð til að lýsa lélegri hæfni einhvers til að sparka í bolta? Eru stelpur svona lélegar í knattspyrnu, kvennaboltinn leiðinlegur og fótbolti bara fyrir kallana?

Hversu oft hefur viðlíkingin ,,þú sparkar eins og stelpa” verið notuð til að lýsa lélegri hæfni einhvers til að sparka í bolta? Eru stelpur svona lélegar í knattspyrnu, kvennaboltinn leiðinlegur og fótbolti bara fyrir kallana?

Á undanförnum árum hefur átt sér stað gríðarleg uppbygging innan kvennaknattspyrnunar. Lagður er meiri metnaður í þjálfun og umgjörð hennar en áður, stelpur hvattar til að ná langt og þeim sýnt þeir ótal möguleikar sem færni í knattspyrnu opnar fyrir þeim og árangur uppbyggingarinnar leynir sér ekki.

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu er komið í 18.sæti heimslistans og á mjög góða möguleika á því að komast á EM 2009 í Finnlandi. Einn leikur gegn Frökkum, sem fram fer í haust, ræður úrslitum og stelpunum okkar nægir jafntefli til að vinna riðilinn og jafnvel þó sá leikur tapist komast þær í umspil sem liðið með flest stig í 2.sæti.

Íslenska deildin er orðin betri, hraðari og jafnari, þrátt fyrir það gerði RÚV þau mistök að sína ekki frá neinum einasta leik í allt sumar. Einstaklega leiðinleg afturför því að nokkrir leikir höfðu verið sýndir sumarið áður. Liðin hafa líka náð markverðum árangri erlendis, 2 ár í röð komst íslenskt lið í áttaliða úrslit Evrópukeppni félagsliða og eru þau að stimpla sig almennilega inn erlendis.

Íslenskir leikmenn eru einnig að gera það gott hvort sem er hér eða erlendis, Margrét Lára Viðarsdóttir varð fyrsta knattspyrnukonan til að hljóta nafnbótina íþróttamaður ársins, fyrir árið 2007. Ásthildur Helgadóttir, Erla Steina Árnadóttir og Dóra Stefánsdóttir hafa fengið mikla og góða umfjöllun í Svíþjóð og þá hefur fjöldi íslenskra stúlkna farið til náms í Bandaríkjunum á háskólastyrk og vakið mikla athygli fyrir frammistöðu á knattspyrnuvellinum.

Íslendingar standa mjög framarlega hvað varðar jafnrétti innan knattspyrnunnar. Verðlaunafé er mjög svipað í karla- og kvennaknattspyrnunni, fjölmiðlar eru duglegir að fjalla um íslenska kvennknattspyrnu (þó að alltaf megi gott bæta), stelpurnar eru duglegar að vekja athygli á íþróttinni og frábær árangur skemmir ekki fyrir.

Það er því ekkert að því að sparka eins og stelpa, ef eitthvað er þá er það bara töff.

Latest posts by María Guðjónsdóttir (see all)

María Guðjónsdóttir skrifar

María hóf að skrifa í Deigluna í júlí 2008.