Illska og alræði

Sá sem þekkir ekki söguna, mun framkvæma sömu mistökin aftur. Það er engin ástæða til bjartsýni um að skipan mála í alræðisríkinu Kína sé að færast til betri vegar. Menn mega ekki láta glepjast af skrautsýningu ógnarstjórnarinnar sem nú stendur yfir undir merkjum ólympíuhugsjónarinnar, enda er það ekki fyrsta sinn sem Ólympíufáninn er misnotaður og svívirtur.

Í Kína býr fimmtungur mannkyns við ógnarstjórn, þar sem ofsóknir og kúgun þykja eðlilegur þáttur í stjórnsýslunni. Þessi staðreynd hafði raunar engin áhrif á þá ákvörðun alþjóðaólympíunefndarinnar að halda Ólympíuleikana í Peking á þessu ári. Vissulega eru fordæmi fyrir því að leikarnir séu gerðir að skrautsýningu alræðisstjórna. Skemmst er minnast ólympíuleikanna í Moskvu 1980 og enn betra dæmi eru leikarnir í Berlín 1936 sem voru glæsilegustu leikar sem þá höfðu verið haldnir. Það skyldi enginn láta sér detta neitt annað í hug en að þýðing leikanna fyrir ráðamenn í Kína nú sé nákvæmlega hin sama og fyrir nasistana í Þriðja ríkinu á sínum tíma.

Kastljósið er á Kína – þökk sé alþjóðaólympíunefndinni – og það er skylda þeirra sem fella sig ekki við alræði, ógnarstjórn og kúgun af hálfu yfirvalda að nýta tækifærið til gera atlögu að þeirri ógeðfelldu þjóðfélagsskipan sem við lýði er í þessu fjölmennasta ríki heims. Vitanlega óskar maður þess að leikarnir heppnist vel og að þar nái íþróttamenn frá öllum ríkjum, frjálsir jafnt sem kúgaðir, að sigrast á þeim takmörkunum sem mannslíkamanum og -huganum er sett. Það má hins vegar ekki gerast að menn láti glepjast af skrautsýningu kínverskra yfirvalda sem reyna að telja umheiminum trú um að Kína sé á réttri leið í átt að nútímalegu samfélagi. Það er einfaldlega lygi.

Sagan Kína frá því um miðja síðustu öld, er kommúnistar undir stjórn Maós náðu völdum í landinu, er blóði drifin. Grimmd Maós kostaði tugmilljónir Kínverja lífið og litlu færri líf glötuðust þegar hann í heimsku sinni reyndi að gera þjóð sinni gott. Stærsta hungursneyð sögunnar var þannig bein afleiðing af heimsku og alræði Maós. Menningarbyltingin er annar kapítuli en með bytingu ofan frá hertu einræðisherrarnir í Peking enn frekar tök sín á kínversku þjóðinni. Þeim sem efuðust um sósíalismann eða báru brigður á yfirvöld var hreinlega slátrað. Ekki var nóg að slátra fólkinu heldur þurfti líka að útrýma þekkingunni og viskunni úr samfélaginu, þvi hún var ógn við ríkjandi fyrirkomulag.

Á níunda áratug síðustu aldar óx lýðræðisöflum í Kína fiskur um hrygg og stúdentar kröfðust breytinga. Kröfur þeirra áttu ekkert skylt við byltingu heldur fóru þeir fram á hægfara umbætur í anda þess sem Mikhaíl Gorbaschev boðaði á þeim tíma í Sovétríkjunum með glasnost og perestrojku. Ekki stóð á svari frá alræðisstjórninni við andófi stúdentanna:

„Skyndilega varð miðborg Peking ljóslaus. Námsmennirnir á torginu ákváðu að fara hvergi og hófu að syngja „Internationalinn“, baráttusöng kommúnismans. Skömmu síðar þustu hermenn vopnaðir hríðskotabyssum út úr Alþýðuhöllinni miklu við Torg hins himneska friðar. Um leið birtust brynvarðir liðsflutninga bílar á torginu. Segja sjónarvottar að fjöldi manns hafi látist og særst er vagnarnir óku yfir tjöld námsmanna sem þeir höfðu komið þar upp … Sjónarvottar segja að hermennirnir hafi skotið á fólkið, sem var óvopnað, og lítt hirt um hvar byssukúlurnar lentu. Fólkið lagði á flótta í átt að götum í nágrenninu. Hermennirnir tóku einnig á rás og hleyptu af vopnum sínum á hlaupunum … Bryndrekarnir óku yfir allt það sem fyrir þeim varð og herma sjónarvottar að fjöldi manns hafi orðið undir þeim er þeir óku niður Changanbreiðgötuna framhjá Peking-hóteli og inn á torgið.“ (Morgunblaðið, 6. júní 1989).

Eftir þessum sömu götum og torgum spássera nú ráðamenn vestrænna ríkja í boði sömu kínversku stjórnvalda og murrkuðu lífið úr þúsundum andófsmanna aðfararnótt 4. júní 1989.

Því hefur verið haldið fram á síðustu árum að Kína sé opnast og breytast. Markaðsvæðing hagkerfisins (sem reyndar er gríðarleg oftúlkun) er talin til marks um að Kína sé að færast í átt að nútímalegu ríki. Vissulega hafa á síðustu árum skapast tækifæri fyrir vestræn fyrirtæki að eiga viðskipti í Kína og þannig má segja að ákveðin tilraun sé í gangi. Menn virðast hins vegar gleyma því að Þýskaland var háþróað iðnríki með rótgróið markaðshagkerfi á þeim tíma sem nasistar voru þar við völd. Markaðsfrelsi án réttarríkis, þar sem lýðræði og mannréttindi eru í forgrunni, er ekki markmiðið. Ef ekki fara saman aukin samskipti á viðskiptalegum og stjórnmálalegum forsendum við stjórnvöld í Peking og raunverulegar umbætur í átt að fullum mannréttindum og virðingu fyrir einstaklingnum þar í landi er betur heima setið en af stað farið.

Góður vinur minn heimsótti Peking nýlega og átti þess kost að ræða við kínverska stúdenta. Frásögn hans af þeim samskiptum hefur ekki vakið neina bjartsýni í mínu brjósti um að breytinga sé von í kínversku samfélagi. Í stuttu máli höfðu stúdentar enga hugmynd um hina blóði drifnu sögu alþýðulýðveldisins, höfðu aldrei heyrt minnst á atburðina á Torgi hins himneska friðar árið 1989 og það sem meira var þá var hugtakið pólitík þeim fullkomlega framandi. Þessi nýja kynslóð virðist þannig vera afsprengi „árangursríkrar“ kúgunar og ofsókna kínversku alræðisstjórnarinnar.

Sá sem þekkir ekki söguna, mun framkvæma sömu mistökin aftur. Þess vegna er engin ástæða til bjartsýni þegar Kína er annars vegar.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.