Tilboðsdögum lokið

Gengi íslensku krónunnar hefur veikst um tæpan þriðjung frá áramótum gagnvart helstu gjaldmiðlum. Þrátt fyrir að snarpt gengisfall skili sér í verðbólguskoti sökum dýrari innflutnings í krónum mælt, lá fullkomlega ljóst fyrir að gengi íslensku krónunnar var of sterkt um langa hríð.

Gengi íslensku krónunnar hefur veikst um tæpan þriðjung frá áramótum gagnvart helstu gjaldmiðlum. Þrátt fyrir að snarpt gengisfall skili sér í verðbólguskoti sökum dýrari innflutnings í krónum mælt, lá fullkomlega ljóst fyrir að gengi íslensku krónunnar var of sterkt um langa hríð.

Frásagnir af dauða íslensku krónunnar eru stórlega ýktar. Heyrst hefur að um ónothæfan eða ónýtan gjaldmiðil sé að ræða. Þó þarf ekki að bregða sér lengra en út í næstu kjörbúð, verslanamiðstöð eða söluturn og komast að því að hægt er að koma höndum yfir margvíslegar vörur og þjónustu – í skiptum fyrir íslenskar krónur.

Þó er sjaldnast þægilegt fyrir launamenn og atvinnulífið að lenda í viðlíka gengisfalli og átti sér stað yfir páskana. Allir bjuggust við að krónan myndi veikjast að endingu eftir gríðarlegt uppgangsskeið og innflæði fjármagns í landið á síðustu árum. Fæstir bjuggust við að gengið myndi hrapa um fjórðung á örfáum dögum, eins og gerðist síðustu páska. Gengisfallið er engu að síður staðreynd, og þau vandamál sem því fylgja verða ekki leyst með inngöngu í myntbandalög eða ríkjasambönd. Sama hvað líður langtímaáætlunum í efnahagsmálum, verður núverandi vandi ekki leystur nema með þeim tækjum og tólum sem við búum yfir núna.

Nefnt hefur verið að yfirlýsing um áætlanir þess efnis að sótt verði um inngöngu Evrópusambandið myndu koma á auknum stöðugleika hér samstundis. Af hverju ættu yfirlýsingar um langtímaskipan mála hér að „róa“ markaði og fjárfesta? Þessi röksemd ætti frekar að nota um ríki sem ætti við pólitískan óstöðugleika að etja og hygðist ganga í Evrópusambandið til að bæta út því. Í það minnsta eru fæstir skortsalar að fara að loka stöðum sínum í krónunni þó svo að því verði lýst yfir að á næstu árum verði sótt um inngöngu. Á meðan við erum ekki í neinu formlegu myntsamstarfi sem gæti mögulega haft áhrif á, til dæmis, vaxtamyndun ríkisskuldabréfa í aðdraganda inngöngu í Evrópusambandið munu slíkar yfirlýsingar lítið gagnast til að takast á við yfirstandandi efnahagsvanda.

Miklu betra er að láta verkin tala. Það hafa einir af helstu framvörðum íslensks atvinnulífs, bankarnir, gert á undanförnum vikum. Þó því sé ekki að neita að nokkuð stóran hluta hagnaðar þeirra megi rekja til gengisfalls krónunnar með tilheyrandi hækkun verðbóta og hagnaðar af eiginfjárvörnum, þá kom árangur þeirra að mörgu leyti á óvart. Kostnaður stóð í stað hjá sumum þeirra eða hækkaði lítillega, en túlka má það sem raunverulega lækkun þar sem stór hluti kostnaðar þeirra er einmitt í erlendum gjaldmiðlum. Talsverðar innlánaukningar gætti hjá einhverjum þeirra, sem er afar athyglisvert og ánægjulegt í ljósi þeirrar umræðu sem ríkt hefur um meint vantraust á þá.

Kjaraskerðing er óumflýjanleg. Hins vegar er ekki fráleitt að líta á síðustu ár sem nokkurs konar tilboðstímabil á erlendum vörum fyrir íslenska neytendur. Sökum (of) sterks gengis krónunnar hafa innfluttar vörur verið afar ódýrar og íslenskir neytendur nýtt sér það óspart, og hugsanlega fóru þeir of geyst. Núna er krónan hins vegar nær jafnvægisgengi sínu, og erlendar vörur á eðlilegra verði. Hvort er eðlilegra að miða kjör íslenskra neytenda við hvað þeir gætu keypt mikið í Frakklandi fyrir launin sín eða á Íslandi?

Verra var að krónan féll svo snarpt á stuttum tíma, en stundum hefur þó verið sagt að þægilegra sé að rífa plásturinn snöggt af heldur en hægt og rólega.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)