Rússneskir fjölmiðlar

Rússneskt stjórnmálaumhverfi hefur vakið mikla athygli á Vesturlöndum, allt frá hruni Járntjaldsins og falli kommúnismans. Samkeppni á fjölmiðlamarkaði í landinu, eða skortur á henni, hefur mikil áhrif á sýn fólks á stjórnmál og leiða má líkur að því að niðurstöður kosninga séu mjög litaðar af ríkiseinokun á fjölmiðlum.

Í ágúst árið 1999 skipaði Boris Yeltsín, forseti Rússlands, Vladímír Pútín í stöðu forsætisráðherra. Pútín naut þá stuðnings innan við 1% þjóðarinnar. Átta mánuðum síðar sigraði hann í forsetakosningunum með 52,9% atkvæða. Í þingkosningunum í desember 1999 náði flokkurinn Eining 23,8% atkvæða. Það telst í sjálfu sér ekki markverður árangur, nema fyrir þær sakir að flokkurinn, sem studdi ríkisstjórnina, hafði verið stofnaður innan við tveimur mánuðum fyrir kosningarnar. Góður árangur óþekktra stjórnmálaafla sem eru hliðholl stjórnvöldum er ekki óalgengur í Rússlandi, að stórum hluta þökk sé áróðursherferðum í fjölmiðlum í eigu ríkisins.

Leiða má ýmsar líkur að því af hverju áhrif fjölmiðla á niðurstöður kosninga í Rússlandi eru meiri en í þróaðri lýðræðisríkjum þar sem samkeppni ríkir á fjölmiðlamarkaði eru nokkrar. Í fyrsta lagi höfðu kjósendur litlar sem engar upplýsingar um stjórnmálaflokka og frambjóðendur eftir hrun kommúnismans upp úr 1990. Því verður að teljast líklegt að allar nýjar upplýsingar um stjórnmál í landinu hafi haft veruleg áhrif á skoðanir fólks og þurfti almenningur að treysta á fjölmiðla til að fræða sig um valkostina.

Í öðru lagi snerist málflutningur flokka að miklu leyti um óljósa hugmyndafræði en minna um hörð stefnumál. Þetta gerði það að verkum að lítill munur var oft á frambjóðendum eða flokkum og kosningabaráttan snerist æ meira um persónuleika og siðferði frambjóðenda. Þarna spiluðu fjölmiðlar afar mikilvægt hlutverk við að koma skilaboðum til kjósenda og þar sem ríkið var alls ráðandi á fjölmiðlamarkaði gátu ráðamenn stýrt að miklu leyti þeim skilaboðum sem kjósendum bárust.

Þetta eyðir auðvitað ekki hæfileika fólks til að greina á milli hlutdrægra og hlutlausra fjölmiðla en áhrifa einokunar á fjölmiðlamarkaði gætir engu að síður meðal kjósenda. Ýmsir félagsvísindamenn halda því fram að jafnvel þurfi ekki nema eina sjálfstæða sjónvarpsstöð í andspyrnu til að eyða áhrifum einokunarinnar. Til dæmis voru rússneskir kjósendur 54% líklegri til að kjósa stjórnarandstöðuflokkinn OVR og 48% ólíklegri til að kjósa Einingu í þingkosningunum árið 1999 ef þeir höfðu aðgang að einkareknu sjónvarpsstöðinni NTV.

Fjölmiðlar í Rússlandi hafa jafn mikil áhrif og raun ber vitni af ýmsum ástæðum; óstöðugt flokkakerfi, lítil flokkshollusta, skortur á upplýsingum um frammistöðu sitjandi frambjóðenda, óskýr stefnumál og mikið vægi persónuleika frambjóðenda. Skortur á samkeppni á fjölmiðlamarkaði er þó ein helsta ástæða fyrir því hve mikil þessi áhrif á kosningahegðun eru, sérstaklega meðal óákveðinna kjósenda.

Og ef einhver efast um að samkeppni er lítil meðal rússneskra sjónvarpsstöðva má benda á að engin sjálfstæð sjónvarpsstöð hefur verið rekin á landsvísu í Rússlandi frá árinu 2001 þegar ríkisrekni orkurisinn Gazprom eignaðist NTV.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)