Hámarksnýting sumarsins

Sterkustu rökin fyrir því að taka upp árstíðabundinn tímamismun á ný eru e.t.v. þau að menn nái betur að njóta veðurblíðunnar, þegar hún gerir sinn stutta stans, þar sem hápunktur hennar færist nær hættutíma stimpilklukkufólks auk þess sem við nýtum sólarglætuna betur eftir því sem við vöknum fyrr en góðir menn og árrisulir hafa tjáð mér að hún sé aldrei fegurri heldur en klukkan sex á morgnanna.

Ég lifi á ýmsan hátt tvískiptu lífi. Sit í Reykjavík yfir veturinn og reyni að hamra inn í hausinn á mér misgáfulegan fróðleikinn sem sprettur af vörum prófessora við Háskóla Íslands og þeim bókum sem þeir kalla sér til fulltingis.

Sumrunum eyði ég síðan austur á fjörðum þar sem ég kasta af mér öllum áhyggjuhrukkum sem eru verkefnaskilum og guðfræðistúdíu samfara og vinn verkamannavinnu.

Ég er sáttur við þetta hlutskipti og vona að það endist sem lengst enda að mörgu leyti ákaflega gott að venda kvæði sínu í kross reglulega og stússast í nýjum hlutum í nýju umhverfi -þó það sé kannski gamalkunnugt.

Nú hafa nágrannar mínir norður á Seyðisfirði komið fram með tillögu sem myndi fullkomna þessa hólfaskiptingu lífs míns algjörlega en hún gengur út á það að taka upp sumartíma, eða taka upp árstíðabundinn tímamismun á ný öllu heldur, sem fælist í því að flýta klukkunni um klukkustund til viðbótar yfir sumartímann.

Hugmyndin er síður en svo ný og hefur umræðan sprottið upp af og til síðan sumartíminn var festur í sessi árið um kring árið 1968.

Vilhjálmur Egilsson hefur að öðrum ólöstuðum sjálfsagt verið iðnastur við kolann að halda málinu á lofti en hann bar það margsinnis upp á Alþingi þegar hann átti þar sæti á sínum tíma.

Rökin fyrir þessu eru nokkur. Sterkast vega þó e.t.v. þau að menn nái betur að njóta veðurblíðunnar, þegar hún gerir sinn stutta stans, þar sem hápunktur hennar færist nær hættutíma stimpilklukkufólks auk þess sem við nýtum sólarglætuna betur eftir því sem við vöknum fyrr en góðir menn og árrisulir hafa tjáð mér að hún sé aldrei fegurri heldur en klukkan sex á morgnanna.

Seyðfirðingar gengu reyndar á bak þeirri hugmynd sinni að flýta klukkum fjarðarbúa einhliða og án tillits til annarra landsmanna þetta sumarið hið minnsta en umræðan er komin upp einu sinni enn og er vonandi að hún skili sér í gegnum þingsali þetta sinnið taki einhver málið þar upp en slíkt hlýtur einna helst að standa upp á þau Arnbjörgu Sveinsdóttur, Einar Má Sigurðsson og Þórunni Sveinbjarnardóttur sem öll fylgdu Vilhjálmi að málum á sínum tíma.

Það skal fúslega játast að hér er síður en svo um að ræða helsta framfaramál þjóðarinnar sem stendur og velferð hennar og geðheilsa til lengri tíma litið stendur varla og fellur með því.

Það er hins vegar skemmtilegt og hver vill ekki kreista meira út úr þeim fáu góðviðrisstundum sem okkur gefast?