Jafnrétti næst ekki með kynjakvótum

Á sama tíma og ég tel mjög mikilvægt að jöfn réttindi allra einstaklinga séu tryggð í lögum þá get ég engan veginn verið fylgjandi því misrétti sem felst í jákvæðri mismunun eða það sem í daglegu tali er kallað kynjakvótar.

Barátta kvenna fyrir jöfnum réttindum á við karla hefur gegnið ákaflega vel hér á landi og í nýlegri grein í The Observer Magasin var sú réttindabárátta sögð stærsti einstaki þátturinn í því að Ísland tróni í efsta sætinu á lista Sameinuðu þjóðana yfir þau lönd sem best er að búa í.

Höfundi þeirrar greinar fannst þetta sérstaklega athyglisverð staðreynd í ljósi þess að á Íslandi væri hæsta fæðingartíðni barna í Evrópu, hæsta skilnaðartíðnin og mesta þátttaka kvenna á atvinnumarkaði. Fyrir honum hljómaði þetta eins og dæmigerð uppskrift að aragrúa félagslegra vandamála og þótti því ótrúlegt að Íslendingar eigi svo mikilli velgengi að fagna sem raun ber vitni.

Það er hálfsjokkerandi að hugsa til þess að í dag eru aðeins 93 ár síðan konur fengu fyrst kosningarétt og kjörgengi á Íslandi. Ég er mikill jafnréttissinni í hjarta mínu og finnst ekkert annað koma til greina en að allir einstaklingar sitji við sama borð, hafi sama rétt til orða og athafna á öllum sviðum og að það sé bannað að mismuna fólki vegna kynferðis, kynhneigðar, litarháttar eða trúarskoðana.

Á sama tíma og ég tel mjög mikilvægt að jöfn réttindi allra einstaklinga séu tryggð í lögum þá get ég engan veginn verið fylgjandi því misrétti sem felst í jákvæðri mismunun eða það sem í daglegu tali er kallað kynjakvótar. Undanfarið hafa slíkar hugmyndir verðið æ oftar viðraðar, meira að segja af viðskiptaráðherra núverandi ríkisstjórnar sem ekki getur útlokað að setja lög um hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja. Að mínu mati væri slík ráðagerð skref afturábak í jafnréttisbaráttunni.

Mér finnst konum engum greiði gerður með þvingunaraðgerðum um ákveðið hlutfall kynja í stjórnum fyrirtækja. Mér finnst það hreinlega lítilsvirðing og niðrandi. Einnig hef ég áhyggjur af því að um leið og við hefjum slíka jákvæða mismunum er komið fordæmi fyrir því að beita slíkum aðferðum og ekki ólíklegt að sú aðferðarfræði yrði útvíkkuð á önnur svið eða til að þóknast öðrum hópum sem finnast sín sjónarmið ekki fá jafnan hljómgrunn eða jafnan fjölda fulltrúa í mikilvægar stöður á við aðra hópa þjóðfélagsins.

Mér þykir einnig einkar miður að konur sem hafa ekki getað hugsað sér kynjakvóta fram að þessu virðast vera að gefa talsvert eftir í þessari baráttu. Nú er farið að tala um kynjakvóta sem síðasta úrræðið sem nauðsynlegt er að grípa til ef hlutirnir fari nú ekki að breytast í bráð. Ég hef talsverðar áhyggur af því hvað bráð er langur tími í hugum þessara kvenna. Ég veit þó sem betur fer um fjöldann allan af konum sem kaupa ekki hugmyndirnar um kynjakvóta og nokkrar þeirra hafa ritað frábærar greinar hér á Deigluna þau tíu ár sem þessu vefriti hefur verið haldið úti. Deiglan hefur verið öflugur málsvari jafnréttis allra einsaklinga og hvet ég þig lesandi góður til að kynna þér hið mikla úrval pistla um jafnréttismál sem finna má á Deiglunni.

Úrtak af pistlum um jafnrétti sem birst hafa á Deiglunni

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.