Ólympíuleikar handan við hornið

Nú styttist í Ólympíuleikana sem fara fram í Kína dagana 8. til 24. ágúst næstkomandi. Höfundur er einlægur aðdáandi fimleika kvenna og mun fylgjast spennt með framgangi leikanna. Gaman verður að sjá hver mun skara fram úr og verða stjarna leikanna.

Nú styttist í Ólympíuleikana sem fara fram í Kína dagana 8. til 24.ágúst næstkomandi. Höfundur er einlægur aðdáandi fimleika kvenna og mun fylgjast spennt með framgangi leikanna. Gaman verður að sjá hver mun skara fram úr og verða stjarna leikanna.

Á Ólympíuleikunum 1972 var það Olga Korbut, ung stúlka frá Sovétríkjunum, sem fangaði hug og hjörtu áhorfanda. Hún þótti lífleg og skemmtilegur karakter og óhrædd við að sýna tilfinningar sínar og þannig var hún ólík samlöndum sínum sem sjaldan stökk bros á vör. Korbut kom einnig fram með ýmsar nýjar æfingar á leikunum og hafa æfingar verið nefndar eftir henni.

Korbut mætti aftur til leiks 1976 en féll þá í skuggann af 14 ára rúmenskri stúlku, Nadiu Comaneci. Nadia stal senunni á þeim leikum, en hún náði þeim merka árangri að fá einkunnina 10 fyrir æfingar sínar, en það var í fyrsta sinn í sögu fimleikanna sem það gerðist. Nadia var og er ein skærasta stjarna fimleikaíþróttarinnar og hefur meðal annars verið búin til kvikmynd um ævi hennar.

Af nýrri ólympíuleikum voru leikarnir í Atlanta 1996 ógleymanlegir, en þá tókst bandaríska liðinu að sigra í liðakeppninni í fyrsta sinn og það á heimavelli. Bandaríska liðið var kallað “hinar 7 stórkostlegu” (The magnificent seven). Kerri Strug varð á einni nóttu þjóðhetja í heimalandi sínu þegar hún tryggði Bandaríkjunum sigurinn með stökki sínum á hestinum þar sem hún slasaðist illa á ökkla en lauk æfingunni á öðrum fæti. Þetta ótrúlega stökk má sjá hér.

Það var hins vegar ekki fyrir æfingar sínar sem ólympíumeistarinn frá Sydney, 2000, Andrea Raducan, komst í fréttirnar, heldur fyrir lyfjamisferli. Hin rúmenska Raducan féll á lyfjaprófi og var svipt gullinu. Hún hafði tekið inn verkjalyf samkvæmt fyrirmælum lækna og þjálfara sem reyndust ólögleg. En hún var fyrsta rúmenska stúlkan til að sigra einstaklingskeppnina síðan Nadia Comaneci vann árið 1976. En það var landa hennar, Simona Amanar, sem fékk gullið en hún hafði lent í öðru sæti. Þetta var leiðinlegt mál sem setti slæman svip á leikana þannig að íþróttin sjálf féll í skuggann.

Á síðustu leikum, í Aþenu 2004, voru það Rúmenar sem sigruðu í liðakeppninni en bandaríska stúlkan Carly Patterson sigraði einstaklingskeppnina. Það sem stóð sérstaklega upp úr á þeim leikum var að þá keppti hin rússneska Svetlana Khorkina á sínum þriðju ólympíuleikum, en það harla sjaldgæft að stúlkur nái að keppa á tveimur, hvað þá þremur leikum í röð. Khorkina þurfti að sjá á eftir gullinu til áðurnefndrar Patterson og lenti sjálf í öðru sæti. Hún hefur síðar haldið því fram að úrslitin hafi verið fyrirfram ákveðin þar sem einkunn hennar fyrir æfingar á hesti dróst óvenjulega mikið, en hún vill meina að það hafi verið til að sjá hvað Patterson fengi fyrir sínar æfingar.

Forvitnilegt verður að sjá hvaða stúlkur það verða sem munu skína skærast á leikunum. Ólympíuleikarnir eru stærsta uppskeruhátíð fimleikaíþróttarinnar, en aðeins örlítið brot af iðkendum um allan heim fá tækifæri til að láta ljós sitt skína, og fæstir oftar en einu sinni. Lífaldur stúlkna í fimleikum er því miður alltof stuttur en ávallt er gaman að sjá sömu stúlkurnar aftur og sjá stúlkur keppa sem komnar eru yfir tvítugt.

Þrotlausar æfingar og mikil vinna liggur að baki keppni á ólympíuleikum. Það er því eflaust ólýsanlega taugatrekkjandi að allt veltur á því hvernig maður stendur þig nákvæmlega á því augnabliki sem maður framkvæmir sína æfingu. Það er aðeins eitt tækifæri í boði, ekki er hægt að byrja upp á nýtt eða fá að gera aftur. Mistök geta því oft verið ansi dýrkeypt. Keppnin snýst því oftar en ekki um það hver gerir fæstu mistökin enda er munur milli keppenda oft örlítill og ekkert má útaf bregða.

Gera má ráð fyrir að Bandaríkin, Kína, Rúmenía og Rússland muni berjast um efstu sætin á komandi leikum, í liðakeppninni og einstaklingskeppninni. Sérstaklega verður gaman að fylgjast með kínverska liðinu sem hefur verið að byggja upp nýtt lið en kínverjarnir ætla sér stóra hluti og stefna að sjálfsögðu að sigri á heimavelli.

Að lokum skal svo bent á það, að mjög hefur skort upp á að sýnt hafi verið almennilega frá keppni í fimleikum í Ríkissjónvarpinu og bindur höfundur vonir við að RÚV muni tryggja okkur góða umfjöllun um fimleikana á leikunum enda stórkostleg íþróttaveisla þar á ferð.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.