Hinir nýju Kínamúrar

Vonin um að Internetið myndi færa Kínverjum aukið frelsi og kalla á breytingar á stjórnarfari þar í landi hefur líklega aldrei verið jafn fjarlægur draumur og nú. Með hjálp vestrænna fyrirtækja á borð við Microsoft, Google og Yahoo hefur Kínverjum tekist að koma á fót háþróuðustu internetsíu í heiminum og séð til þess að Kínverjar fá eingöngu þær fréttir sem eru Kínversku ríkisstjórninni hliðhollar.

Þó mótmælin vegna Ólympíuleikanna í Kína hafi heldur hljóðnað upp á síðkastið og fallið í skugga annarra frétta er næsta víst að allir sem eitthvað fylgjast með á Vesturlöndunum og víða annars staðar í heiminum hafi ekki farið varhluta af þeim undanfarna mánuði. Fréttir af mótmælum gegn harðstjórninni í Kína og kúgun þeirra á Tíbetum hafa náð inn í alla fjölmiðla og Internetið hefur sannað sig sem frétta- og samskiptamiðil fólksins sem flytur ógrynni af lifandi fréttum um atburðarásina, frásögnum af óréttlæti og hörmungum þeim sem Tíbetar hafa þurft að ganga í gegnum vegna þess sem byrjaði sem friðsamleg mótmæli nokkurra munka.

Þó að almenningur á Vesturlöndum hafi tekið fljótt við sér og staðið fyrir mótmælum víða um heim til stuðnings Tíbetum og viljað opna augu Kínverja fyrir þeim mannréttindabrotum sem eiga sér stað daglega í Kína þá hafa Kínverjar sjálfir fengið allt aðra mynd af atburðarrásinni.

Ritskoðun harðstjórnarinnar í Kína hefur séð til þess að Kínverjar fá eingöngu fréttir þar sem mótmælendur eru harðlega gagnrýndir fyrir framgöngu sína og virðingarleysi við Kínverja. Þetta hefur orðið til þess að þjappa Kínverjum saman og auka þjóðerniskenndina og stuðning við Kínversku ríkisstjórnina. Netheimar Kínverjar eru rauðglóandi af hneykslan á stuðningi Vesturlanda við Tíbet og því hvernig mótmælin hafa spillt fyrir för Ólympíueldsins t.d. í London og París.

Vonin um að Internetið myndi færa Kínverjum aukið frelsi og kalla á breytingar á stjórnarfari þar í landi hefur líklega aldrei verið jafn fjarlægur draumur og nú. Enginn trúði því árið 1994 þegar opnað var fyrir Internetið í Kína að nokkurt land gæti nokkurn tímann stjórnað Internetinu. Netvæðing Kína væri af hinu góða og tímaspursmál væri hvenær Kínverjar myndu öðlast samskiptaleið við umheiminn, læra sannleikann um harðstjórnina og krefjast breytinga.

Ásetningur kínversku ríkiststjórnarinnar til að hafa fulla stjórn á upplýsingum á Internetinu var stórlega vanmetinn. Frá upphafi hafa Kínverjar unnið hörðum höndum að því að styrkja innviði samskipta- og öryggiskerfa í Kína með aðkomu margra af stærstu hugbúnaðarframleiðendum heims.

Kínverska ríkisstjórnin eyðir milljörðum dollara á ári hverju í að stýra aðgangi venjulegra Kínverja að upplýsingum á Netinu. Internetsía Kínverja er sú háþróaðasta í heiminum og felur í sér margar stofnanir, starfsfólk, lagabálka og tækniumhverfi sem ekki á sér neina hliðstæðu í heiminum. Eldveggirnir sem notaðir eru til að halda upplýsingum frá kínverskum almenningi eru hinir nýju Kínamúrar, þó ekki jafn áþreifanlegur og sá sem sést ef horft er á jörðina úr geimnum, en tilgangur þeirra í raun mun harðneskulegri.

Árið 2006 birti Amnesty International skýrslu um þátt Microsoft, Google og Yahoo í ritskoðunarmaskínu kínversku ríkisstjórnarinnar. Þáttur þeirra er eins og gefur að skilja mjög umdeilanlegur en fyrirtækin bera það fyrir sig að ritskoðun ætti sér stað í Kína með eða án þeirra og að tilvera þeirra sé frekar til þess fallin að stuðla að opnum samskiptum Kínverja.

Það er náttúrulega óþolandi að fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að hafa motto-ið “Don’t be evil” stuðli með beinum hætti að skerðingu sjálfsagðra mannréttinda fjölmennustu þjóðar heimsins. Enn verra er að Yahoo hefur orðið uppvísa með að afhenda kínverskum yfirvöldum upplýsingar um kínverska viðskiptavini sína sem hafa orðið til þess að a.m.k. tveir þeirra hafa hlotið langa fangelsisdóma. Slíkt brot á viðskiptasambandi varðar við Bandarísk lög og nú þegar hefur eitt mál verið útkjáð utan dómsstóla fyrir ótilgreinda upphæð.

Það er mjög alvarlegt þegar fyrirtæki ákveða að ganga gegn alþjóðlega viðurkenndum mannréttindanormum og samþykktum. Æskilegast væri að þessi fyrirtæki tækju harða afstöðu með grundvallarmannréttindum og veittu ekki ógnarstjórnum á borð við Kínverku ríkiststjórninni verkfæri til að brjóta mannréttindi á almenningi. Ef fyrirtæki á borð við Microsoft, Google og Yahoo geta ekki séð af gróðanum af starfseminni í Kína þá væri það lágmark að starfsemi þeirra væri gegnsærri, það ljóst væri hvaða niðurstöður eða leitarorð eru síuð út úr niðurstöðunum og að almenningur gerði sér grein fyrir því að þeir væru aðeins að fá hálfan sannleikann.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.