Barnabörn Evrópusambandsins

Á síðustu áratugum hefur ríkið smám saman tekið að sér freklegra hlutverk við að ráða ýmsu í lífi þegnanna og skipt sér af ótrúlegustu hlutum í hegðun þeirra og lífsmynstri. Og yfirþjóðlegar stofnanir auka vald sitt gagnvart ríkjunum sjálfum. Og sumum finnst sem þetta sé eftirsóknarvert – fjöllin blá og mennirnir miklir í útlöndum. Þannig verða þegnarnir smám saman að börnum í augum ríkisins – sem á móti eru eins og börn í augum yfirþjóðlegra stofnana.

Íslenskur sjómaður snéri heim frá Bretlandi og var margs vísari. Þegar hann hitti minna siglda félaga sína gat hann sagt þeim frá fjölmörgum undrum og stórmerkjum sem hann hafði augum litið í siglingu sinni og vakti það allt mikla lukku. Stærsta undrið fannst honum þó ensku börnin. Þau tóku hinum íslensku bersýnilega fram á flestum sviðum. Gáfnafar þeirra var án vafa langt umfram þau íslensku og þurfti það engra annarra sannana við heldur en að þau voru orðin altalandi á ensku löngu áður en þau byrjuðu í skóla.

Margir helstu talsmenn Evrópusambandsins í íslenskum stjórnmálum virðast stundum álíka hlessa yfir allri snilldinni sem heimsborgararnir í Evrópu hafa umfram okkur smáborgarana á Íslandi. Þar hefur með gáfum og skipulagshæfni tekist að jafna út flestar þær misfellur á mannlegri hegðun sem geta orðið metnaðarfullum stjórnvöldum til trafala – og þar er unnið að því að útrýma allri óþægilegri sérvisku í mönnum og samfélögum sem tefja fyrir óhjákvæmilegri sigurgöngu hins samræmda og staðlaða þar sem allar klær passa í allar innstungur, allur bjór er jafnsterkur, sömu lög gilda um allt. En þar sem umburðarlyndið er samt sem áður ein leiðarstjarnan þá er hægt að veita einstaka eftirlegukindum sérstakar undanþágur frá því að raðast möglunarlaust á stöðlunarbásana.

Hinu svokallað fóstruríki hefur á örfáum áratugum miðað vel áfram við að skapa menningu þar sem einstaklingar og fjölskyldur eru settar undir ákvörðunarvald stjórnmálamanna og sérfræðinga um ótrúlegustu mál sem fólk hafði sjálfu tekist að ráða fram úr svo öldum skipti. Brennuhald í Reykjavík var eitt tilvikið þar sem reglugerðir frá Evrópu þóttust vita betur heldur en brennukóngar til margra áratuga. Og nú er annað dæmi hvíldartími bílstjóra sem er svo fast njörvaður niður að þeir munu stundum þurfa að stöðva bíla sína í nokkurra kílómetra fjarlægð frá heimilum sínum til þess að mælitækin í ökutækjum þeirra sendi ekki boð á miðtölvuna um að sekta þá.

Samkvæmt nýjustu rannsókn var mannkynið nálægt því að deyja út fyrir 70 þúsund árum. Þá voru aðeins 2.000 einstaklingar eftir í gjörvallri veröldinni af tegundinni Homo sapiens sapiens. Líklega hefur það hjálpað að smám saman fékk hún vit á því að eldur væri hættulegur og að hæfileg hvíld sé okkur nauðsynleg til að takast á við krefjandi verkefni. Þessi vitneskja hefur svo borist mann fram af manni og lítil hætta verið á því að hún félli í gleymsku – jafnvel þótt ekki nyti tilskipanna eða ábendinga stjórnvalda við. Og líklega dytti fáum í hug, fyrr en núna, að eðlilegt væri að láta einhvern annan bera ábyrgð á slíkum hlutum fyrir sig.

En fóstruríkið treystir ekki fólki fyllilega til þess að leggja mat á slíkt í daglegu lífi sínu. Og smám saman er tekið meira fram fyrir hendurnar á fullorðnu fólki og þau skilaboð hljóma hátt og snjallt að rétt eins og foreldarar bera ábyrgð á börnum sínum – og geti þar með tekið flestar ákvarðanir fyrir þau – þá sé hægt að ætlast til hins sama af ríkinu. En afsal á ábyrgð felur auðvitað líka í sér afsal á frelsi. Þegar frelsi og ábyrgð er fórnað þá fylgir að hluta til mannleg reisn. Menn sem sætta sig við að fjarlægt yfirvald taki ákvarðanir um lifnaðarhætti sína eiga það á hættu að breytast í börn sem hafa hvorki sjálfstraust né gagnrýna hugsun til þess að takast á við þau verkefni og þá valkosti sem lífið krefst.

Og á sama hátt og ríkið með sérfræðinga sína tekur vit og vald af fólki, þá taka yfirþjóðlegar stofnanir, með sína ennþá meiri sérfræðinga, valdið af kjörnum stjórnmálamönnum. Það má reyndar vel vera að það sé fleira gáfað fólk í Brussel heldur en í Reykjavík. Og það má vera að einhverjir Íslendingar finni hjá sér sömu kenndirnar gagnvart fínu búrókrasíunni þar eins og sjómaðurinn fann gagnvart smábörnunum sem töluðu enskuna reiprennandi. Þeim finnst kannski merkilegra að vera tekið sem jafningja í Brussel heldur en sem höfðingja á Bifröst. En slík minnimáttarkennd er auðvitað með öllu óþörf og gagnslaus.

Umræða um Evrópusambandið verður meðal annars að fela í sér hvort sú stjórnmálamenning sem þróast hefur í stjórnsýslu þess sé í takt við það sem Íslendingar telji að henti best. Sú frumkvöðla- og jafningjamenning sem er svo rík á Íslandi er öðru fremur grundvöllur af velgengni okkar og lífsgæðum. Á endanum er það alltaf fólk af holdi og blóði sem ber ábyrgð á því hvernig mál þróast. Það er vilji á bak við allt sem mennirnir gera og jafnvel þótt ríki og ríkjasambönd séu óhugnanlega stór í samanburði við einstaklinginn þá eru það nú samt venjulegir menn sem taka ákvarðanir þar – og þeir eru margir hverjir jafnmiklir sauðir og sumir þeir sem taka ákvarðanirnar fyrir okkur á Alþingi og í sveitarstjórnum. En munurinn á vitleysunni sem kemur frá yfirþjóðlegri stofnun og vitleysunni sem kemur frá Austurvelli er sá að það er miklum mun auðveldara að stöðva eða breyta þeirri síðarnefndu.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.