Keisarans hallir skína

Þátttaka stjórnmálamanna í Ólympíuleikum í Peking er pólitísk. Ef stjórnmálamenn vilja ekki að pólitík og íþróttir blandist saman, en vilja samt mæta á Ólympíuleikana, eiga þeir að gera það sem almennir gestir. Þannig losna þeir við að verða gerðir að leikmunum í pólitískri sýningu kínverskra stjórnvalda.

Björn Bjarnason hittir naglann á höfuðið í dagbókarfærslu sinni á laugardag þar sem hann fjallar um hvort stjórnmálamenn eigi að íhuga að láta sig vanta á helstu opinberu athafnir Ólympíuleikanna í Kína. „Sá munur er á Ólympiuleikum undir forræði einræðisríkja og lýðræðisríkja, að hin fyrrnefndu líta á leikana öðrum þræði sem viðurkenningu á stjórnarháttum sínum, en í hin síðarnefndu láta sér slíkt í léttu rúmi liggja. Einmitt þess vegna er litið öðrum augum á ferð stjórnmálamanna á leikana í einræðisríki – hún er túlkuð sem póltísk viðurkenning ekki síður en stuðningur við íþróttamenn,“ segir í færslu Björns.

Í þessum orðum felst nákvæmlega kjarninn í því af hverju ýmsir, þar á meðal Samband ungra sjálfstæðismanna, vilja ekki að íslenskir stjórnmálamenn taki þátt í opinberum athöfnum á Ólympíuleikunum. Flestir eru nefnilega sammála um að það sé ekki til góðs að blanda saman pólitík og íþróttum – en það er einmitt það sem kínversk stjórnvöld eru líkleg til þess að gera.

Mikil og áberandi fordæmi eru fyrir því að pólitík blandist íþróttum þegar Ólympíuleikar eru annars vegar. Stjórnvöld í 62 ríkjum ákváðu að senda ekki íþróttamenn á Ólympíuleika í Moskvu árið 1980 og mótmæla þannig innrás Sovétríkjanna í Afganistan (þess má geta að Kínverjar voru meðal þeirra þjóða sem sniðgengu leikana). Fjórum árum síðar voru haldnir Ólympíuleikar í Los Angeles og sniðgengu sextán þjóðir þá leika. Þá voru afleiðingar mótmælanna mun meiri heldur en að hafa af stjórnmálamönnum skemmtileg kokteilboð og gistingu á lúxushótelum í fjarlægum löndum.

Fáir hafa lagt til svo umfangsmiklar aðgerðir til þess að mótmæla harðstjórninni í Kína. Það væri sannarlega hræsni ef þjóðir sem leyfa umfangsmikil viðskipti við Kína tækju upp á því að bregða fæti fyrir íþróttamenn. Íþróttafólkið hefur í fæstum tilvikum nokkuð annað markmið í huga heldur en að taka þátt í einstæðum íþróttaviðburði. Það ekki að gera nokkrar siðferðislegar málamiðlanir með þátttöku sinni. Þeir sem stunda viðskipti í Kína þurfa hins vegar margir að horfast í augu við að þar með eru þeir að einhvejru leyti að bindast í hagsmunabandalag með ríkjandi valdhöfum í landi þar sem líf og réttindi einstaklinganna eru virt lítils.

Það er einnig vafalaust rétt hjá Baldri Þórhallssyni sem hann sagði í fréttum RÚV um helgina að leikarnir séu þáttur í þjóðarstolti Kínverja. Leikarnir hafa vafalaust hafa verið tilhlökkunarefni fyrir unga sem aldna Kínverja í mörg ár. Það væri klárlega harðsvírað að eyðileggja fyrir börnum og fullorðnu fólki í Kína þá gleði sem leikarnir munu hafa í för með sér. Slíkt myndi án mikils vafa verða að vopni í höndum þeirra Kínverja sem vilja að almenningur alist upp í fordómum gagnvart Vesturlöndum og útlendingum. En það má hins vegar deila um þá staðhæfingu Baldurs að kínversk stjórnvöld hafi notað leikanna til þess að „opna landið og gera það vestrænna“. Líklegra er að kínversk stjórnvöld hafi hugsað sér gott til glóðarinnar og sýna fram á dýrð sína og mátt með því að gera úr leikunum eina allsherjarveislu fyrir öll skilningarvit, þar sem þúsundir og tugþúsundir munu ganga, dansa og syngja í takt og tónlistin mun harmónera við flugelda og ljósadýrð. Það verður fallegt í Kína og keisarans hallir skína.

Slíkar stórsýningar hafa alltaf verið í miklu uppáhaldi í einræðisríkjum – eins og þau vilji segja: „Þegnar! Það er vegna þess að við kúgum ykkur sem dýrð þjóðarinnar er svo mikil eins og sést á þessari stundu. Vandræðagemlingarnir sem mótmæla okkur vilja hafa af ykkur þá stund gleði og stolts sem þið upplifið nú.“

Sú táknræna aðgerð að mæta ekki í pólitískum erindum á leikana felur því í sér bæði virðingu við leikana og þegnana í Kína. Þar er litlu fórnað nema nokkrum kokteilglösum og góðu sæti úr heiðursstúkunni – en í ofanálag þá er ómögulegt að túlka fjarveruna sem móðgun við kínverskan almenning þótt hún kunni að vera vonbrigði fyrir kínverska ráðamenn. Það er hins vegar ekkert við það að athuga ef íslenskir stjórnmálamenn vilja mæta á leikana og styðja tiltekna íþróttamenn. Best færi þá á því að aftengja pólitíkina alfarið frá leikunum og mæta í gallabuxunum, með fánann málaðan í andlitið og setjast við hliðina á öðrum óbreyttum stuðningsmönnum en standa ekki í jakkafötum eða dragt við hliðina á mönnum sem vilja gefa þjóð sinni þau skilaboð að heimurinn felli sig við þá harðstjórn, ritskoðun og ofbeldi sem þeir ástunda.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.