Lögmæt friðsamleg mótmæli

Undanfarna daga hafa atvinnubílstjórar átt flestar fyrirsagnir fjölmiðlanna enda hafa þeir staðið fyrir einum mestu mótmælum seinni ára. Í fyrstu var umfjöllun fjölmiðla á jákvæðum nótum en nú kveður hins vegar við annan tón. Fjölmiðlar benda nú á að bílstjórar séu að teppa mikilvægar sjúkraflutningsleiðir og í viðtölum við lögregluna hafa verið tínd til ýmis konar smávægileg brot á lögum sem bílstjórarnir hafi gerst brotlegir við. Þetta er ekki að ástæðulausu og skal nú litið til heimilda lögreglu til að stöðva slík mótmæli.

Undanfarna daga hafa atvinnubílstjórar átt flestar fyrirsagnir fjölmiðlanna enda hafa þeir staðið fyrir einum mestu mótmælum seinni ára. Í fyrstu var umfjöllun fjölmiðla á jákvæðum nótum, bílstjórum hrósað fyrir að láta loks í sér heyra og láta okurverð á olíu ekki yfir sig ganga. Nú kveður hins vegar við annan tón. Fjölmiðlar benda nú á að bílstjórar séu að teppa mikilvægar sjúkraflutningsleiðir og í viðtölum við lögregluna hafa verið tínd til ýmis konar smávægileg brot á lögum sem bílstjórarnir hafi gerst brotlegir við. Þetta er ekki að ástæðulausu og skal nú litið til heimilda lögreglu til að stöðva slík mótmæli.

Heimildir lögreglu til handtöku í slíkum mótmælum er að finna í lögum um meðferð opinberra mála og lögreglulögum. Í fyrstu málsgrein 97. gr. laga um meðferð opinnberra mála er að finna heimild lögreglu til að handtaka mann fyrir brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtakan nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, tryggja návist og öryggi eða koma í veg fyrir að maður spilli sönnunargögnum. Þá er heimild í þriðju málsgrein 97. gr., þar sem segir að heimilt sé að handtaka mann „ef uppþot verður sem hefur í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignaspjöll, svo og þegar margir menn hafa tekið þátt í óeirðum, sem leitt hafa til manntjóns eða meiriháttar líkamsmeiðinga, og ekki verður með vissu bent á hinn seka eða hina seku er lögreglunni heimilt að handtaka hvern þann sem nærstaddur er og ástæða er til að gruna um refsiverða þátttöku í brotinu.“ Loks er í 16. gr. lögreglulaga heimild til að handtaka mann í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, koma í veg fyrir að maður ærist á almannafæri eða hættu á óspektum.

Lítið hefur reynt á þessar heimildir lögreglu fyrir dómi. Tvo dóma má þó nefna til skýringar ákvæðunum.

Annars vegar má nefna dóm Hæstaréttar árið 1974, bls. 413 þar sem mótmælt var þátttöku Bandaríkjamanna í stríðsátökum í Víetnam. Sá sem handtekinn var ætlaði að ganga í átt að Austurvelli þar sem blysför átti að fara fram. Kom til orðaskipta milli hins handtekna og lögreglumanna og mun hinn handtekni þá hafa kallað einn lögreglumannanna „kraftidíot“. Var hann í kjölfarið færður til fangageymslna.

Niðurstaða Hæstaréttar er afar athyglisverð. Í dómnum var handtaka mannsins metin heimil, „enda vildi hann ekki hlíta lögmætu umferðarbanni lögreglu, en hafði uppi svigurmæli við nafngreindan lögreglumann, sem var að skyldustörfum á vettvangi, þar sem uggvænt var um upphlaup“. Ljóst er að Hæstiréttur lítur á ummæli hins handtekna sem refsiverða háttsemi, móðgun í garð opinbers starfsmanns, og á þeim grundvelli fellur hegðun hans ágætlega undir 1. mgr. 97. gr. Reyndar verður að geta þess að margt hefur breyst í íslensku réttarfari frá því að þessi dómur féll og réttindum borgaranna gagnvart ríkisvaldinu verið veitt aukið vægi t.d. með nýjum mannréttindakafla stjórnarskrár og lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu.

Hins vegar má nefna dóm Hæstaréttar frá árinu 1999 bls. 3386. Þá voru mótmælendur handteknir er þeir hugðust hafa uppi mótmæli við útsendingu sjónvarpsþáttarins Good Morning America. Lögreglan hélt því fram að hún væri að koma í veg fyrir smánun á öðru ríki og væri því um refsivert brot að ræða. Hæstiréttur féllst ekki á það og taldi að ástæður handtökunnar væru aðrar og ekki hefði verið um neina refsiverða háttsemi að ræða. Þá var ekki fallist á það að háttsemin fæli í sér brot á 16. gr. lögreglulaga, enda fæli háttsemin ekki í sér hegðun sem leitt gæti til óspekta. Hæstiréttur mat það því svo að heimild til handtöku hafi brostið.

Af þessum dómum sést að fyrst og fremst er litið til þess hvort skilyrði 1. mgr. 97. gr. séu uppfyllt þegar lögmæti handtöku eru skoðuð. Þar fer mest fyrir skilyrðum um hvort um sé að ræða brot sem sætt geti ákæru, sem leiði svo af sér aukaskilyrði um nauðsyn, stöðvun áframhaldandi brota, tryggingu á návist og öryggi eða koma í veg fyrir spillingu sönnunargagna. 3. mgr. 97. gr. virðist þannig fyrst og fremst eiga við meiriháttar uppþot og hefur ekki reynt nægilega á 16. gr. lögreglulaga til að hægt sé að afmarka hvenær hún veiti lögmæta heimild til handtöku í slíkum aðstæðum.

Samkoma atvinnubílstjóra í gær var með friðsamlegasta móti. Þeir komu saman við Fífuna Kópavogi og grilluðu pylsur og voru með ís og sælgæti í boði fyrir börnin. Þeir lofuðu því hins vegar að mótmælin héldu áfram í dag að fullum krafti. Rétt er að benda þeim á að fara að lögum, fremja ekki brot sem sætt gætu ákæru, stofna til óeirða sem valdið geta líkamsmeiðingum eða valda óspektum. Brot á umferðarlögum geta hæglega fallið þarna undir og skal því atvinnubílstjórum bent á að halda sig réttu megin við lögin, sjái þeir sig knúna til að halda áfram mótmælum sínum.