Hlegið í Hvíta húsinu

Líklega er hlegið mikið í Hvíta húsinu þessa dagana. Forseti Bandaríkjanna nýtur reyndar svo frámunalega lítils stuðnings að engin fordæmi eru um. Ætli stuðningur við hann sé ekki farinn að nálgast fylgi Martins Taylor á Highbury eða Halims Al á Íslandi. En samt getur George W. Bush hlegið. Ástæðan er sú staða sem er uppi í Demókrataflokknum.

Ekki er langt síðan flestir hefðu talið nánast öruggt að Demókrataflokkurinn ætti sigurinn vísan í forsestakosningunum í Bandaríkjunuom næsta haust. Þetta er smám saman að breytast. Skoðanakannanir sýna nú að jafnvel þótt John McCain sé enn fyrir neðan bæði Hillary Clinton og Barack Obama þá munar minna en skekkjumörkum. Ástæðan er að líkindum sú að á meðan Repúblikanaflokkurinn safnar vopnum sínum, sameinaður á bak við frambjóðanda sinn, þá standa yfir miskunnarlaus hjaðningavíg milli frambjóðenda demókrata.

Þingfulltrúar á landsfundi demókrata velja frambjóðanda flokksins í næstu forsetakosningum. Stærstur hluti þeirra mætir á svæðið til þess að kjósa í samræmi við niðurstöðu prófkjörs og hafa því ekkert val. Þetta gildir þó ekki um alla því svokallaðir „ofurfulltrúar“ – eins konar fulltrúaráð – getur kosið hvorn sem er og þurfa ekki að standa skil á ákvörðun sinni við nokkurn mann. Þetta fyrirkomulag gerir það að verkum að líkur eru til þess að kosningabaráttunni milli Hillary og Obama ljúki ekki fyrr en í lok ágúst. Fram að þeim tíma munu frambjóðendurnar halda áfram að sjá repúblikönum og John McCain fyrir vopnum fyrir kosningabaráttuna í haust.

Það hefur verið með ólíkindum að fylgjast með hörkunni sem hlaupið hefur í baráttuna, einkum hjá Hillary og stuðningsmönnum hennar. Það er ljóst að á þeim bænum helgar tilgangurinn nánast hvaða meðal sem er. Viðtöl við stuðningsmenn Hillary hafa sýnt að þar hefur enginn í hug að leggja niður vopnin – nokkurn veginn alveg sama hversu mörg prófkjör Barack Obama vinnur. Fulltrúar hennar gefa í skyn að Clinton muni berjast um hvern einasta fulltrúa og herma fjölmiðlar að áherslan í kosningabaráttu hennar hafi í auknum mæli færst yfir í að tryggja sér stuðning ofurfulltrúana, frekar heldur en kjósenda í prófkjörum. Slíkt baktjaldamakk kann á endanum að tryggja henni útnefningu flokksins en ljóst er að aðferðirnar sem hún beitir um þessar mundir eru býsna dapurlegar.

Kosningabarátta Barack Obama hefur leyst úr læðingi mikinn áhuga á stjórnmálum meðal fólks í Bandaríkjunum. Framboð hans og málflutningur virðist einnig hafa gefið mörgum aukna von um að stjórnmálin geti leitt til góðs. Vera má að grundvöllur þessarar vonar sé á tíðum fremur froðukenndur málflutningur og óljósar yfirlýsingar. Á þetta hefur Hillary Clinton bent ítrekað og hefur í auknum mæli beitt fyrir sig háði í árásum sínum á Obama auk þess sem hún skirrist ekki við að gefa til kynna að Obama sé barnalegur og nánast hálfgerð fígúra – maður sem ekki passi í stólinn bak við skrifborðið í Hvíta Húsinu. Hún vill meina að Obama hafi verið skemmtilegur ferskur blær í kosningabaráttuna – svona eins og barn sem spyr einnar gáfulegrar spurningar við matarborðið en hefur ekkert meira fram að færa. Nú sé kominn tími til þess að fullorðna fólkið taki völdin á ný.

Skaðinn sem Hillary Clinton vinnur með hinni miður geðfelldu kosningabaráttu sinni einskorðast ekki aðeins við sigurlíkur demókrata í haust. Aðferðirnar eru einnig til þess fallnar að draga aðra frambjóðendur niður á sama forarplanið og grafa þannig undan þeim jákvæðu og bjartsýnu stoðum sem kosningabarátta Obama hefur hingað til byggst á. Það er mikill þjófnaður ef þeirri von er rænt af Bandaríkjunum og heiminum.

Hillary Clinton gekk svo langt í síðustu viku að gefa ótvírætt til kynna að sér þætti John McCain frambærilegri forseti heldur en mótframbjóðandi hennar innan Demókrataflokksins. Að öðru jöfnu ættu slík ummæli að skrúfa endanlega fyrir allar sigurlíkur hennar. Það er ótrúlegt skemmdarverk að láta slíkt og annað eins út úr sér, jafnvel þótt tekist sé á innan flokks. En á einhvern ótrúlegan hátt virðist hún ætla að komast upp með það.

John McCain er býsna góður kostur til þess að gegna embætti forseta Bandaríkjanna og ef Obama tekst vel upp gæti hann sem forseti haft verulega jákvæð áhrif á viðhorf umheimsins til Bandaríkjanna og það er sannarlega verðugt og mikilvægt viðfangsefni. En eftir kosningabaráttuna verður ekki séð að Hillary Clinton sé sérstaklega vænlegur kostur.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.