Vaxtahækkun í raun?

Gagnrýnendum peningastefnu Seðlabanka Íslands fjölgar þessa dagana. Sú ákvörðun bankans að halda stýrivöxtum óbreyttum þann 14.febrúar reyndist atvinnulífinu mikil vonbrigði, og vert að spyrja þeirrar spurningar hvað þurfi eiginlega að gerast til að vaxtalækkun sé tímabær að mati bankastjórnar?

Svo virðist vera sem sífellt fleiri séu farnir að efast um peningastefnu Seðlabankans. Sagt hefur verið að peningamálastjórn eigi að minnsta kosti eitt sammerkt með guðfræði – það sé trúin skipti öllu máli. Síðustu ákvarðanir Seðlabankans voru án efa teknar með það að augnamiði að halda trúverðugleika og samkvæmni peningastefnunnar. Þó virðist vera sem andstæðingar núverandi peningastefnu finni skoðun sinni hljómgrunn æ víðar.

Sá er þetta ritar hefur áður komið Seðlabankanum til varnar hér á Deiglunni. Þær varnir standa svo sem ennþá fyrir sínu – jafn langt og þær ná. Seðlabankinn starfar eftir þeim reglum og markmiðum sem honum eru settar og notar til þess þau vopn sem hann býr yfir. Stýrivextir virðast þó hafa verið afar deigt járn, þar sem verðbólga hefur verið yfir markmiði langstærstan hluta tímabilsins frá því það verðbólgumarkmiðsfyrirkomulag var tekið upp, og utan þolmarka stóran hluta þess. Sérfræðingar hafa horft til þess að fasteignamarkaðurinn muni veita hækkun á neysluverðsvísitölu viðnám með áframhaldandi kólnun, en gengislækkun íslensku krónunnar og aukning einkaneyslu á síðasta fjórðungi virðist hafa komið í veg fyrir að bankastjórn sæji sér kleift að lækka vexti nú.

Vaxtamunur við útlönd hefur aukist á síðustu vikum samfara lækkandi stýrivöxtum erlendis. Englandsbanki hefur lækkaði stýri vexti um 0,25% fyrir nokkrum vikum, Seðlabanki Bandaríkjanna hefur lækkað vexti um 1,25% á undanförnum mánuðum, Seðlabanki Evrópu hefur haldið þeim óbreyttum í 4% en ýjað að vaxtalækkun. Það er því ljóst að ákvarðanir Seðlabankans eru að skjön við það sem er að gerast erlendis, og á meðan vaxtastig erlendis lækkar en það helst óbreytt á Íslandi eykst vaxtamunurinn – sem má túlka sem vaxtahækkun í raun.

Í rökstuðningi bankastjórnar við vaxtaákvörðun þann 14.febrúar síðastliðinn: „Á hinn bóginn hafa fjármálaskilyrði versnað enn frá síðustu vaxtaákvörðun, bæði á alþjóðlegum markaði og innanlands. Dregið hefur úr framboði lánsfjár til heimila og fyrirtækja og lánskjör hafa versnað. Þá hefur hlutabréfaverð lækkað verulega það sem af er ári sem eykur fjármagnskostnað og veikir efnahagsreikning fyrirtækja og heimila. Líklegt er að verðlag fasteigna muni lækka á komandi tíð.“

Í þessi orð má ráða að bankastjórnin geri sér grein fyrir að efnahagslífið muni að öllum líkindum sýna merki samdráttar á næstu misserum. Að sama skapi er stjórninni fullkomlega ljóst að fjármálastofnanir eru nánast búnar að loka á öll meiriháttar útlán. Er Seðlabankinn bara framsýnn þegar kemur að verðbólguspám? Þurfa að koma fram óyggjandi, ógnvænlegar hagvísaupplýsingar um liðna til þess að bankastjórn láti til leiðast og lækki stýrivexti um 0,25% eða 0,5%?

Haft hefur verið á orði að ríkisstjórnin geti skorið Seðlabankann úr sjálfheldu peningastefnunnar með því að breyta lögum um verðbólgumarkmið. Eins og málin horfa við núna virðist Seðlabankinn vera að bíða eftir þeim aðstæðum þar sem hann getur skorið almenning og fyrirtæki úr snörunni með vaxtalækkun sem kemur allt of seint.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)