R-orðið ógnvænlega

„Fram þjáðir menn í þúsund löndum,“ er það fyrsta sem kemur í hugann þegar skrifa á um nýjasta uppátæki breskra stjórnvalda; þjóðnýtingu Northern Rock.

Í gær játaði breska ríkisstjórnin sig sigraða gagnvart hruni bankans Northern Rock með því að þjóðnýta hann, og endurvakti þannig drauga „Old Labour“ frá tímum þegar ríkisvæðing gekk svo langt að aðgerðir Margaret Thatcher í kjölfarið litu vel út í augum almennings í nokkur ár. Þetta er fyrsta þjóðnýtingin í Bretlandi síðan á áttunda áratug síðustu aldar og nú keppast breskir fréttaskýrendur við að rökræða hvort þetta beri vott um algjöra vanhæfni Verkamannaflokksins við að stýra bresku efnahagsskútunni. Það finnst Íhaldsflokknum, að minnsta kosti, og þeir hafa nokkuð til síns máls.

Saga hruns Northern Rock er í stuttu máli sú að í ágúst á síðasta ári fékk Englandsbanki tilkynningu um að eitthvað alvarlegt væri á seyði í bankanum. Fjármálaeftirlitið virðist hafa brugðist skyldu sinni og Northern Rock þurfti að leita á náðir Englandsbanka til að halda sér á floti. Þegar fréttirnar fóru á flug byrjaði fólk að flykkjast í útibú og taka sparifé sitt út, sem olli gríðarlegu falli á gengi bréfa í bankanum. Ríkisstjórnin gekk í ábyrgð fyrir Northern Rock til að reyna að takmarka skaðann, en án árangurs og í janúar réði Alistair Darling, fjármálaráðherra, frægan kraftaverkamann til að koma böndum á reksturinn. Ekkert hefur gengið og nú er svo komið að 100 milljarða sterlingspunda skuld bankans skrifast á ríkissjóð og bankinn verður þjóðnýttur við opnun þingsala í dag með neyðarlögum.

Málið er sérstaklega viðkvæmt fyrir Gordon Brown, forsætisráðherra, af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi gefur þetta andstæðingum hans höggstað á honum fyrir reglugerðir sem hann mótaði fyrir áratug þegar hann var fjármálaráðherra og virðast hafa brugðist nú, og renna þannig frekari stoðum undir þann málflutning að Verkamannaflokknum sé ekki treystandi í efnahagsmálum; Í öðru lagi eru þingumræður um fjárlögin á næsta leyti og David Cameron, leiðtogi Íhaldsmanna, mætir í þær betur vopnaður gagnvart Brown en nokkur forvera hans var gagnvart Tony Blair. Þar sem kosningar verða haldnar í síðasta lagi árið 2010 gefur þetta hinum vinsæla Cameron vind í seglinn á hárréttum tímapunkti og gæti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir Verkamannaflokkinn.

Hvernig sem litið er á málið er það óumdeilanlegt að þróun Northern Rock-málsins er mikið áfall fyrir Brown, Darling og ríkisstjórnina alla, sem hafnaði tveimur tilboðum úr einkageiranum áður en ákvörðunin um þjóðnýtingu var tekin. Darling bar hagsmuni breskra skattborgara fyrir sig til að réttlæta ákvörðunina, á þeim forsendum að það væri vænlegra að bíða eftir að markaðir réttu sig við áður en bankinn yrði látinn í hendurnar á einkaaðilum. Þó eru að minnsta kosti 144 þúsund smærri hluthafar í bankanum sem eru fjúkandi reiðir yfir þessari ákvörðun og munu sækja rétt sinn til dómstóla ef þeir telja þær skaðabætur sem opinber nefnd úthlutar þeim ekki ásættanlegar.

Gordon Brown þarf að vera býsna sannfærandi á blaðamannafundi sínum um málið sem boðað hefur verið til í dag kl. 11 svo ríkisstjórn hans bíði ekki verulegan og varanlegan skaða af þessari ákvörðun, því ríkisvæðing hefur nánast verið bannorð í hinum vestræna heimi í mjög langan tíma, og ekki að ástæðulausu. Þeir eru ekki margir, hagfræðingarrnir sem verja aukin umsvif ríkisins á samkeppnismarkaði, og dæmin um vel heppnaða einkavæðingu fjármálastofnana eru allt of mörg til að hægt sé að líta fram hjá þeim. Hins vegar er starfsumhverfi fjármálastofnana ekki með besta móti þessa mánuðina og því hætt við að fleiri ríki taki sér Bretland til fyrirmyndar og bjargi hinum veikari með því að koma ríkisvæðingu aftur í tísku. Við bíðum bara og vonum ekki.

Heimildir:
www.telegraph.co.uk
uk.reuters.com
news.bbc.co.uk

Athugasemd höfundar: Frá fyrstu útgáfu pistilsins hefur hugtakaþýðingum verið breytt þar sem við á, og „þjóðnýting“ notað í stað „ríkisvæðingar“ í auknu mæli. Inntak pistilsins stendur óhaggað, en hafa skal það sem réttara reynist.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)