Óvissunni þarf að eyða

Nú, þegar Sjálftæðisflokkur hefur endurheimt stöðu sína að nýju í borignni, ríkir enn óvissuástand um framtíð oddvita hópsins. Þetta ástand er með öllu óásættanlegt og ljóst að hópurinn þarf að sameinast um góða niðursöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem allra fyrst. Það verður ekki séð að það verði gert nema hlutverkaskipti verði milli borgarfulltrúanna.

Síðustu mánuðir hafa verið tíðindamiklir á vettvangi borgarmála í Reykjavík. Síðasta haust lék allt á reiðiskjálfi vegna vinnubragða þáverandi borgarstjóra í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur og lyktaði þeim átökum með því að Sjálfstæðismenn misstu meirihlutann í borginni. Nú, þegar þeir hafa endurheimt stöðu sína að nýju, ríkir enn óvissuástand um framtíð oddvita hópsins. Þetta ástand er með öllu óásættanlegt og ljóst að hópurinn þarf að sameinast um góða niðursöðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem allra fyrst. Það verður ekki séð að það verði gert nema hlutverkaskipti verði milli borgarfulltrúanna.

Ekki verður hjá því litið að fjölmargir borgarfulltrúar aðrir en Vilhjálmur Þ. eigi sök á því ástandi sem uppi er. Þegar misklíð innan borgarstjórnarflokksins komst í hámæli í byrjun október á síðasta ári gripu margir þeirra á það ráð að reyna að ná sínu fram með því að gerast nafnlausir heimildarmenn í fjölmiðlum. Þetta ástand varð til þess að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík taldi sig hafa nægilega trúverðuga átyllu til þess að slíta samstarfinu. Ætla mætti að sú lexía dygði til þess að tryggja að allir sæju að ávinningur af samstöðu er ætíð umtalsverður umfram hið gagnstæða.

Í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna er margt hæfileikafólk. Atburðir undanfarinna mánuða hafa vitaskuld skilið eftir sig sár og víst er að margir borgarfulltrúanna hafa sýnt af sér dómgreindarleysi í því hvernig tekið hefur verið á þeim erfiðu málum sem upp hafa komið. En staðreyndin er sú að verkefni borgarstjórnarflokksins eru ærin og óþolandi er ef ekki skapast vinnufriður til þess að sinna þeim.

Ákveði Vilhjálmur að víkja sem oddviti borgarstjórnarflokksins kemur til kasta hópsins sjálfs að velja nýjan foringja. Mikilvægt er að ákvörðun um slíkt verði ekki dregin á langinn og að hún verði ekki tilefni til átaka og flokkadrátta. Slíkur hildarleikur gæti valdið borgarstjórnarflokknum illbætanlegu tjóni.

Augljósasta leiðtogaefnið í borgarstjórnarflokknum er Hanna Birna Kristjánsdóttir sem skipaði 2. sæti á framboðslista flokksins í síðustu kosningum. Eins og aðrir borgarfulltrúar ber hún nokkra ábyrgð á því að ekki hafi tekist betur en raun ber vitni við að koma ró á innan borgarstjórnarflokksins. Hins vegar hefur hún sýnt af sér traustvekjandi framkomu og hefur til að bera augljósa leiðtogahæfileika. Þyngst vegur þó á vogarskálarnar að hún hlaut yfirburðastuðning í 2. sæti í síðasta prófkjöri og þar af leiðandi valin af flokksmönnum til að vera staðgengill oddvitans. Þótt hún hafi ekki sóst eftir fyrsta sætinu í síðasta prófkjöri er hún valin í eitt af leiðtogasætunum og hlaut til þess mikinn yfirburðastuðning.

Hver sem niðurstaða Vilhjálms og borgarstjórnarflokksins verður er ljóst að mikilvægast er að svör fáist sem fyrst um hvernig forystu í hópnum er háttað. Raunverulegur vinnufriður kemst ekki á fyrr en úr því verður skorið á endanlegan og afgerandi hátt. Nýr meirihluti verður að láta verkin tala til þess að réttlæta hamaganginn í kringum tilurð hans.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.