Pólitísk innistæða á þrotum

Í ólgusjó síðustu missera hefur gengið hratt á pólitíska innstæðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Þeir sem eiga mikla pólitíska innistæðu geta e.t.v. leyft sér að gera mistök en hinir sem eru með yfirdráttinn í botni geta einfaldlega ekki farið fram yfir.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu eftir að hafa notið mikilla vinsælda sem borgarstjóri Reykvíkinga fyrstu sextán mánuði kjörtímabilsins. Hann bar ábyrgð á þeim mistökum sem gerð voru í títtnefndu REI-máli, mistök sem hann hefur viðurkennt, mistök sem kostuðu hann borgarstjórastólinn. Fleiri en Vilhjálmur gerðu mistök í því máli en sem forystumaður þurfti hann að axla þyngsta ábyrgð.

Staða Vilhjálms var ekki sterk í kjölfar þess að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks féll í október síðastliðnum. Sama má segja um stöðu borgarstjórnarflokksins sem var í flestu tilliti afleit. Trúnaðarbrestur var innan hópsins og verulega skorti á að þeir sem valdir höfðu verið af flokksmönnum til starfa sem einn hópur í borgarstjórn gengju í takt. Eins og gefur að skilja áttu almennir flokksmenn og trúnaðarmenn hans í Reykjavík erfitt með að sætta sig við framgöngu borgarfulltrúa og að flokkurinn skyldi á ný vera kominn í minnihluta eftir að hafa beðið svo lengi eftir tækifæri til að koma stefnumálum sínum til framkvæmda í borginni.

Á næstu vikum og mánuðum tókst borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að finna taktinn á nýjan leik. Á sama tíma var ljóst að meirihluti Vinstrigrænna, Samfylkingar, Framsóknarflokks og Margrétar Sverrisdóttur var fullkomlega ófær um að stjórna borginni; á hundrað dögum voru engar ákvarðanir teknar og engin stefna mótuð, hvað þá sett fram. Sá meirihluti var aldrei annað en samstaða um að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum í borginni. Eftir á að hyggja hefði það ekki verið óskynsamlegt af hálfu sjálfstæðismanna að halda að sér höndum og bíða næstu kosninga. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins stóðu hins vegar allir að ákvörðun um nýjan meirihluta og verða að standa við þá skuldbindingu sína.

Þegar tilkynnt var um nýjan meirihluta sjálfstæðismanna og Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn mánudaginn 21. janúar hafði Vilhjálmi tekist það sem engum sjálfstæðismanni hefur áður tekist, að mynda meirihluta með öðrum flokki tvisvar á sama kjörtímabilinu. Ekki er hægt að kalla þetta annað en pólitískt afrek hjá manni sem þremur mánuðum áður hafði misst meirihlutann úr höndunum á sér og fáir huguðu pólitískt líf.

Vilhjálmur var nú orðinn formaður borgarráðs, staðgengill borgarstjóra og með sameinaðan hóp borgarfulltrúa að baki sér, sem var reynslunni ríkari eftir ófarirnar nokkrum mánuðum áður. Það sem Vilhjálmur átti hins vegar ekki á þessum tíma var pólitísk innistæða. Hann mátti því ekki við neinum skakkaföllum þegar hann var sestur við stjórnvölinn á nýjan leik. Þeir sem eiga mikla pólitíska innistæðu geta leyft sér að gera mistök en hinir sem eru með yfirdráttinn í botni geta einfaldlega ekki farið fram yfir – án þess að það hafi einhverjar afleiðingar í för með sér.

Á því leikur enginn vafi að Vilhjálmur hefur í mörgu tilliti sætt ósanngjarnri meðferð fjölmiðla og pólitískra andstæðinga sinna. Þá mátti hann sæta því á tímabili að eiga ekki trúnað þeirra sem stóðu að baki honum í borgarstjórnarflokknum. Í þessum ólgusjó gekk hratt á pólitískt eigið fé Vilhjálms og því var ljóst að ekki þurfti mikið til að hann færi fram yfir á reikningnum. Það gerðist einmitt í Kastljósi síðastliðinn fimmtudag þegar hann fór rangt með að hafa rætt við borgarlögmann. Því verður ekki trúað að hann hafi vísvitandi farið með rangt mál en þannig mismæli og klúður verður einfaldlega að síðasta gjaldfallna víxilnum sem ekki reynist innstæða fyrir, þótt upphæðin kunni í sjálfu sér ekki að vera há.

Yfirlýsing Vilhjálms á blaðamannafundi í gær um að hann hygðist ætla að taka sér tíma til að hugsa um hvort hann gæti áfram gegnt forystuhlutverki fyrir sjálfstæðismenn í Reykjavík í ljósi veikrar stöðu sinnar, er auðvitað yfirlýsing um pólitíska greiðslustöðvun. Því lengur sem þessi pólitíska greiðslustöðvun varir því meiri skaða mun þetta mál valda Sjálstæðisflokknum í Reykjavík. Í því efni skiptir litlu af hverju þessi staða er komin upp eða hvort hún er sanngjörn eða ósanngjörn. Hinn pólitíski veruleiki byggir ekki á staðreyndum eða vísindalegum niðurstöðum – en hann er engu að síður áþreifanlegur fyrir þá sem á þessum vettvangi starfa.

Vilhjálmur ann Sjálfstæðisflokknum, stefnu hans og gengi, meira en sínum eigin frama. Það hefur hann sýnt með dugmikilli og óeigingjarnri framgöngu sinni fyrir hönd flokksins á vettvangi borgarstjórnar í meira en aldarfjórðung. Hart hefur verið sótt að Vilhjálmi á síðustu misserum og þegar frá líður munu háværustu gagnrýnisraddirnar hljóðna og verk hans í þágu borgarbúa verða metin af þeirri sanngirni sem hann á skilið. Enginn vafi er á því að Vilhjálmur mun taka sína ákvörðun með hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og borgarbúa að leiðarljósi.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)