Annað tækifæri sjálfstæðismanna

Öllum að óvörum hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengið nýtt tækifæri til að stjórna borginni. Þrátt fyrir veikan málefnasamning hljóta þeir að stefna að því að nýta það betur en hið fyrra, sem einkenndist af furðulegum upphlaupum, smámunasemi og skorti á framtíðarsýn.
Ljóst er það þeir hafa verk að vinna svo borgarstjórn endurheimti traust og virðingu eftir þann smánarlega hildarleik sem orðið hefur á síðustu mánuðum.

Í annað sinn á þremur mánuðum gerbreytist landslag íslenskra stjórnmála með myndun nýs meirihluta í borginni. Á meðan ríkisstjórnarsamstarfið er á nokkuð öruggri siglingu er hitt helsta vígið í íslenskum stjórnmálum, borgin, púðurtunna og vart er hægt að útiloka að frekari breytingar verði á þessu kjörtímabili.

Frétt Vísis í gærmorgun um að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ólafur F. Magnússon hefðu verið að ræða saman um helgina kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Eftir því sem leið á gærdaginn skýrðust línur og í ljós kom að fréttin átti sér stoð í raunveruleikanum.

Rykið hafði varla sest eftir viðburði októbermánaðar og lítil reynsla var komin á fjögurra flokka meirihlutann. Það kom þó ekki einungis til vegna þess hve stutt hann hafði verið við völd heldur vegna þess hve óburðugur hann reyndist við að leysa úr þeim málum sem upp komu. Framtíð tveggja húskofa við Laugarveg reyndist til dæmis vera svo stór biti að hið viðkvæma samstarf þoldi vart við. Viðbrögðin voru á þá leið að hafa fjórar skoðanir en taka enga ákvörðun. Meirihlutinn dvaldi líka of lengi við í REI-málinu – að skoða það ofan í kjölinn var rétt ákvörðun á sínum tíma en að láta þrjá mánuði líða án þess að nokkuð hreyfðist var ósannfærandi. Málefnasamningur leit ekki dagsins ljós – enda erfitt að samræma fjórar skoðanir í ólíkum málaflokkum. Að sama skapi voru varnir borgarstjórans um að meirihlutinn hygðist einungis stunda „pólitík hins daglega lífs“ samhliða almennu hjali um almannahagsmuni heldur veikbyggðar.

Þrátt fyrir þessa bresti var ekkert í loftinu sem benti til þess að borgarfulltrúi Frjálslynda flokksins myndi yfirgefa skútuna. Hann hafði þvert á móti lagt sig í líma við að hrósa borgarstjóranum fyrir að vera mannasættir og sömuleiðis notað hvert tækifæri til þess að minna á sinn eigin þátt í myndun meirihlutans á sínum tíma. En þrátt fyrir þau orð endurtók leikurinn frá því í október sig. Þá máttu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins híma inn í Höfða á meðan völdin voru reitt af þeim en nú snerist taflið við og oddvitar hinna flokkanna voru í biðstöðu og óvissu í gær.

Það verður að segjast að sú atburðarrás sem borgarbúar, og þjóðin öll hefur horft upp á, er ákaflega dapurlegur vitnisburður um þau öngstræti sem valdabrölt í pólitík getur leitt menn í. Það þarf mikið hugmyndaflug til þess að trúa því að hugsjónir og hugmyndir hafi ráðið miklu um þær fléttur sem settar hafa verið á svið á síðustu mánuðum. Sjálfstæðismenn, sem voru sviknir síðastliðið haust, hafa náð fram hefndum. En hefndin er hvorki gott vegarnesti né góð ástæða til þess að leggja í vegferð. Það er því ákaflega brýnt að hinn nýi meirihluti – þegar gleðivíman er runninn af honum – finni sér brýnna erindi í sínum störfum heldur en að fullnægja hefndarþorsta.

Fráfarandi borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, lýsti því yfir í fréttum Sjónvarps í gær að þeir Ólafur F. hefðu talað saman í síma 6 sinnum yfir daginn og í hvert skipti hefði sá síðarnefndi fullvissað hann um að engra breytinga væri að vænta og þeir jafnvel hlegið saman af hugmyndum Sjálfstæðisflokksins um að gera Ólaf að borgarstjóra. Svona sögur af innviðum borgarmálanna eru klárlega ekki til þess fallnar að auka traust manna á því fólki sem þar starfar. Það er ennfremur mikið umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hinn nýi samstarfsmaður, sem allt veltur á, nýtur ekki stuðnings varamanns síns í borgarstjórn. Það er því ljóst að myndun þessa meirihluta er hættuspil.

Til þess að unnt sé að réttlæta fyrir kjósendum þá ákvörðun Sjálfstæðisflokksins að taka þessa pólitísku áhættu dugir ekki aðeins Þórðargleði yfir óförum andstæðinga flokksins. Slíkar hvatir ættu með réttu að renna hratt af flokksmönnum eftir að helsti hamagangurinn er yfirstaðinn. Það sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf er að sýna og sanna að hann sé verðugur trausti kjósenda, að hann starfi samkvæmt skynsemi og hugsjónum – og láti ekki borgarbúa greiða ofurverð fyrir embætti og titla.

Meirihlutasamningurinn sem kynntur var í gær lofar ekki góðu. Hann var bersýnilega settur saman í flýti og að undanskilinni hækkun á tekjumörkum vegna fasteignaskatta er ekkert málefnalega við þennan meirihluta sem miðar að þeim nauðsynlegu breytingum sem gera þarf í borginni – að draga úr útþenslu borgarkerfisins, lækka álögur á borgarbúa og setja kraft í uppbyggingu borgarinnar. Það litla sem má lesa úr þeim 17 punktum sem taldir eru upp eru íhaldssöm viðhorf, varðveisla gamalla kofa og pattstaða í flugvallarmálinu – einu brýnasta verkefni borgarmálanna.

Frjálslynt fólk getur ekki tekið undir margt af því sem þar kom fram. En gera verður ráð fyrir því að við hann muni ýmis mál bætast þegar fram í sækir. Eðlilegt er að Ólafur F. hafi fengið ýmsu framgengt svo hann gæti réttlætt sinnaskipti sín – en slíkum ráðningarbónus má ekki rugla saman við eðlileg áhrifahlutföll í því samstarfi sem fyrir höndum er.

Þessi meirihlutamyndun gefur borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna hins vegar nýtt líf og nýtt tækifæri til að rétta sig við. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi skorað hátt í könnunum á meðan samstarfinu við Framsóknarflokkinn stóð gætti óánægju meðal flokksmanna um hvernig á málum var haldið í borginni. Margir hafa haft á tilfinningunni að pólitíkin í borginni sé algjörlega prinsipplaus – og ekki skáni mál þegar stjórnun borgarinnar er háð hrossakaupum í samstarfi ólíkra flokka. Sjálfstæðismenn hljóta að spyrja sig þeirrar spurningar, þegar horft er til lengri tíma, hvort það borgi sig yfir höfuð að bjóða upp á þann möguleika að vera í samstarfi við aðra flokka í Reykjavík. Það eru einungis 18 ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn fékk yfir 60% fylgi í Reykjavíkurborg. Vafalaust væri það skárra fyrir borgarbúa að geta valið milli þeirra möguleika í kosningum að kjósa einn flokk til valda – heldur en að horfa upp á þann ömurlega hildarleik sem borgarfulltrúar hafa boðið upp á síðan í haust.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)