Karfan í kreppu

Körfuknattleikur er ein vinsælasta íþrótt landsins. Þrátt fyrir þetta er hún í nokkrum vanda sem keppnisíþrótt eins og sannaðist nú um daginn þegar Þór frá Akureyri dró sig út úr Íslandsmótinu. Íþróttadeildin fjallar um stöðu körfuboltans á Íslandi.

Körfubolti er ein vinsælasta íþróttagrein landsins og eru margar skýringar fyrir því. Auðvelt er að koma upp aðstöðu og safna liði en það sem skýrir vinsældir greinarinnar öðru fremur er auðvitað það að hún er mjög þróuð og útpæld íþróttagrein. Í körfuboltaheiminum eru menn óhræddir við að breyta reglunum til þess að gera greinina skilvirkari og einfaldari. Körfubolti er sem sagt hröð, auðskilin og skemmtileg íþrótt.

En þrátt fyrir að mikill fjöldi Íslendinga stundi körfubolta sér til heilsubótar á karfan sem keppnisíþrótt verulega undir högg að sækja. Vinsældir hennar hér á landi hafa minnkað talsvert frá því að greinin var hvað vinsælust í NBA-æðinu um miðjan 10. áratug síðustu aldar. Aðsókn á körfuboltaleiki hefur minnkað snarlega á síðustu árum og dregið hefur úr peningaflæði til körfuknattleikshreyfingarinnar. Í fyrra gekk Körfuboltasambandinu til að mynda illa að fá styrktaraðila fyrir úrvalsdeildina.

Nýjustu tíðindi herma að körfuboltalið Þórs á Akureyri hafi dregið sig út úr úrvalsdeildinni nema að til komi styrkur bæjaryfirvalda á Akureyri. Þetta eru voveiflegar fréttir fyrir körfuboltann. Ákvörðun Þórsara byggist á því að liðið ræður ekki lengur við þær fjárhagsskuldbingar sem fylgja rekstri úrvalsdeildarliðs. Benda má á að þetta er í fyrsta skipti sem slíkt hendir körfuboltadeildina en handboltinn hefur orðið fyrir svipuðum áföllum. Stærsti og mesti útgjaldaliðurinn í reksti íslenskra körfuboltaliða hefur náttúrlega verið kostnaður vegna erlendra leikmanna sem fá að jafnaði 2.500-4.000 $ á mánuði eftir því hvað þeir geta. Að mörgu leyti skýra útlendingakaupin þann vanda sem karfann hefur átt við að etja. Erlendu leikmennirnir, sem eru aðallega bandarískir, kosta skildinginn og hafa öðru fremur haft skuldahvetjandi áhrif fyrir félögin. En liðin eru milli steins og sleggju því það lið sem hefur ekki útlending á sínum snærum getur átt á hættu að falla niður í næstu deild auk þess sem áhorfendur mæta betur á leiki þegar góðir útlendingar sýna listir sínar. Sum lið hafa þó tekið á sínum fjármálum með ágætum árangri eins og Keflvíkingar og ekki er vitað betur en að Njarðvíkingar, sem hafa nokkra leikmenn á launaskrá, hafi rekið sína deild af hagsýni í gegnum árin.

Brotthvarf Þórsara þýðir að eftir standa 11 úrvalsdeildarlið og þá eru nokkrir kostir til reiðu. Sá fyrsti er að 11 lið leiki heima og heiman alls 20 leiki yfir veturinn. Annar kosturinn er sá að liðið sem varð í næstsíðasta sæti deildarinnar í fyrra taki sæti í úrvalsdeildinni á ný þannig að 12 lið spili í deildinni. Það myndi vera Skallagrímur. Einnig gæti KFÍ frá Ísafirði, sem endaði í 3. sæti 1. deildar, komið upp.

En hvað er til ráða til að koma körfunni á réttu brautina? Satt að segja eru forsvarsmenn körfuboltans ekki öfundsverðir af þeirri stöðu sem greinin er komin í. Til greina kemur að banna erlenda leikmenn eins og var hér á 9. áratugnum þannig að félögin dragi úr rekstrarkostnaði og reiði sig því á íslenska leikmenn. Þetta úrræði er þó varla eftirsóknarvert. Slík forræðishyggja er vart réttlætanleg og bitnar auðvitað fyrst og fremst á þeim félögum sem sýnt hafa ábyrgð í fjármálum.

Þá gæti einnig komið til greina að endurskoða leikjafyrirkomulagið en margir segja að það sé gengið sér til húðar, þ.e. að leika heima og heiman í nokkra mánuði áður en kemur að úrslitakeppni. Bent hefur verið á að of margir leikir eru spilaðir sem skipta engu máli og vekja lítinn áhuga. Gæti þá gamla riðlafyrirkomulagið hentað betur? Þá lékju úrvalsdeildarliðin í tveimur riðlum allt tímabilið áður en kom að úrslitakeppni. Sömu félögin mættust þá oftar og kannski fengjum við fleiri toppleiki.

Meginatriðið fyrir KKÍ er þó fyrst og fremst að tryggja að grundvöllur sé fyrir því að reka meistaraflokkslið í efstu deild. Félögin verða líka að líta í eigin rann; draga úr kostnaði og sníða sér stakk eftir vexti.

sport@deiglan.com'
Latest posts by Íþróttadeild Deiglunnar (see all)