Samkeppni milli þjóða

Þá hefur það loksins fengist staðfest sem við Íslendingar höfum talið okkur vita um margra ára skeið.Rannsóknir utan úr hinum stóra heimi hafa sýnt fram á að hvergi var betri að búa á árinu 2005 en hér á landi.

Þá hefur það loksins fengist staðfest sem við Íslendingar höfum talið okkur vita um margra ára skeið. Rannsóknir utan úr hinum stóra heimi hafa sýnt fram á að hvergi var betri að búa á árinu 2005 en hér á landi. Lífsgæðalisti SÞ er virtasti samræmdi mælikvarði á lífskjör þjóða sem birtur er á ári hverju og þetta árið veltum við frændum okkar Norðmönnum úr sessi sem höfðu setið makindalega í efsta sæti listans frá árinu 2001. Niðurstaðan að vísu hárfínt jafntefli – en þar sem lífslíkur eru hærri hér fellur fyrsta sætið okkur í skaut. Þetta er Norðmönnum að sögn mikið áfall en auðvitað er dramb falli næst í þessum efnum eins og áður og hafi menn verið á gangi á Karl Johans gate eftir myrkur er ljóst að ekki er allt eins slétt og fellt eins og af er látið í fyrrum besta ríki heims.

Listi SÞ mælir fyrst og fremst menntunarstig, heilbrigði, lífslíkur og landsframleiðslu en á vef Þróunarstofnunarinnar má sjá umfangsmikla tölfræði SÞ um íslensku þjóðina í samanburði við önnur lönd. Listinn hefur verið birtur árlega frá árinu 1990 og höfum við Íslendingar fikrað okkur ofar á listanum með árunum og uppskerum nú efsta sætið. Nú er greinarhöfundur mikill áhugamaður um lista, alla flokkun og telur ekkert hlutrænum mælikvörðum óviðkomandi. Þannig sést að Frakkar og Spánverjar eru hástökkvarar listans á meðal þeirra ríkja sem við helst berum okkur saman við. Báðar skjóta þær okkar fornu herraþjóð Dönum fyrir aftan sig sem geta vart unað sáttir við sitt í 14.sæti. Og fer nú sögum að því að íslenskir hafnarstúdentar séu svo illa haldnir í gömlu höfuðborginni að þeir hafi hreinlega ekki ráð á að flytja aftur í dýrtíðina til gamla landsins. Hér þarf Hallgrímur að drepa niður penna. Einna athygliverðast var að sjá að sú þjóð sem sígur mest eru Lúxemborgarar en þeir falla niður í það 18 en tekjur eru hvergi hærri en þar. Það er algengur misskilningur að Bandaríkjamenn séu ríkastir en engin þjóð hefur hærri meðaltekjur á mann en Lúxemborg.

Samkeppni milli þjóða er eitthvað sem öðlast hefur nýtt vægi á tímum hnattvæðingar, frjálsra fólksflutninga og flæði fjármagns. Nú er listi sem þessi ekki gallalaus og margir aðrir listar koma til álita þegar mæld er samkeppnishæfni þjóða. En engu að síður gefur hann athyglisverðar vísbendingar og er til marks um hvað hefur áunnist á undanförnum árum. ,,Ég vil að við séum númer eitt á þessum lista”, sagði Geir Haarde einhverju sinni í kosningabaráttunni í vor.

Niðurstaðan er fyrst og fremst sú að við Íslendingar eru ákaflega lánsöm þjóð. Frá manni til manns er sennilega afstætt hvort við mælumst númer 1, 2 eða 3 en okkar góðu lífskjör og stöðugu framfarir eru lykilatriði. Þannig höfum við orðið öðrum þjóðum fyrirmynd. Þjóðarímynd er nokkuð sem álitið er í dag nokkur vísindi. Dæmin geta verið nærtæk. Félagi minn er nýkomin heim úr langri dvöl frá Argentínu. Svona sem búast mátti vissu menn ekki mikið um Ísland en allir virtust vita að þar byggi hamingjusamasta þjóð í heimi en frétt þess efnis var birt í útbreiddasta dagblaði Argentínu. Þetta reyndist að vísu þegar leið á nokkur þungur kross að bera enda alltaf búist við flugeldasýningu þegar okkar maður mætti á svæðið.

Latest posts by Jóhann Alfreð Kristinsson (see all)