Mál Þorfinns Ómarssonar

Mál Þorfinns Ómarssonar hefur verið í brennidepli upp á síðkastið í kjölfar álits nefndar sem fjallaði um réttmæti timabundinnar lausnar hans frá störfum. Deiglan fer ítarlega í gegnum álitið og gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð og niðurstöður nefndarinnar.

Nú liggur fyrir álit nefndar sem telur að menntamálaráðuneytinu hafi ekki verið rétt að veita Þorfinni Ómarssyni lausn um stundarsakir frá embætti sem framkvæmdarstjóri Kvikmyndasjóðs Íslands þann 23. júlí 2002.

Þrátt fyrir að hlutverk nefndarinnar sé að reyna að komast til botns í svona málum þá er ekki laust við að álitið búi til mun fleiri spurningar heldur en svör.

Í fyrsta lagi kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið nógu mikil óreiða á fjármálum Þorfinns til að það réttlætti að honum væri vikið frá um stundarsakir. Þorfinni var vikið frá í krafti 26. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna en hún er svohljóðandi:

„Nú hefur embættismaður fjárreiður eða bókhald með höndum og má þá veita honum lausn um stundarsakir ef ætla má eða víst þykir að óreiða sé á bókhaldi eða fjárreiðum, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann leitar nauðasamninga.“

Við lestur greinarinnar sést að ekkert lágmark er sett á meinta fjármálaóreiðu og reyndar er meira að segja gert ráð fyrir því að utanaðkomandi fjárhagserfiðleikar embættismanns geti leitt til lausnar um stundarsakir. Það er enda hættulegt að binda slík skilyrði við eitthvað lágmark. Það er ekki óeðlileg krafa að þeir sem bera þá ábyrgð að fara með skattfé almennings geti gert grein fyrir nýtingu þess á óaðfinnanlegan hátt. Öll frávik ættu í raun að vera refsiverð. Það er hættulegt fordæmi að gefa forráðamönnum ríkisstofnanna einhvers konar svigrúm hvað fjármálaóreiðu varðar. Hér þarf að vera dregin skýr lína.

Nefndin kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að misfellur hafi verið á vörslu bókhaldsgagna og uppgjöri ferðareikninga hjá Kvikmyndasjóði Íslands á árunum 2000 og 2001. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu og skýrt rúmt orðalag lagagreinarinnar ákveður nefndin að fara í efnislegt mat á umfangi fjármálaóreiðunnar hjá Þorfinni Ómarssyni!

Öllu alvarlegri gagnrýni hefur komið á þetta útspil nefndarinnar frá Páli Hreinssyni, sérfræðingi í stjórnsýslurétti. Hann hefur gagnrýnt álitið á þeim forsendum að í sambærilegu máli, máli forstöðumanns Landmælinga, hafi ekki á nokkurn hátt verið tekin afstaða til stigs fjármálaóreiðu. Nefndin er því ekki samkvæm sjálfri sér í úrlausnum mála.

Í öðru lagi kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að andmælaréttur hafi verið brotinn á Þorfinni Ómarssyni. Nefndin viðurkennir reyndar að ofangreind 26. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sé sérregla sem víki frá 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt. Einnig kemur fram að nefndin hefur í tvígang staðfest að í sambærilegum málum hafi verið nægilegt að starfsmaður komi sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina í stað andmæla á fyrri stigum. Þess ber að geta að í dómi Hæstiréttar nr. 132/1999, í máli forstöðumanns Landmælinga, staðfestir dómurinn þá niðurstöðu. Hins vegar telur nefndin að mál Þorfinns skeri sig frá fyrri fordæmum nefndarinnar og Hæstaréttar. Er að sjá að helsta ástæðan fyrir frávikinu sé að nefndin telji að engin brýn þörf hafi verið á því að taka ákvörðun um lausn hans svo skjótt sem raun bar vitni þar sem úrbætur höfðu þegar verið gerðar. Nefndin sér því ástæðu til að víkja frá fyrri fordæmum og skýrri sérreglu laganna þar sem búið var að gera úrbætur án þess að koma með nokkur lögfræðileg rök fyrir máli sínu.

Nefndin gagnrýnir það á fleiri stöðum í álitinu að gripið hafi verið til þessara ráðstafanna þar sem búið var að gera úrbætur. Þetta er furðulegt viðhorf þar sem það er ekki viðurkennd regla í íslenskum rétti að úrbætur eftirá hreinsi menn undan ábyrgð á verkum sínum. Páll Hreinsson, sérfræðingur í stjórnsýslurétti, hefur einnig gert athugasemd við þetta atriði.

Í þriðja lagi telur nefndin að menntamálaráðuneytið hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni. Nefndin kemur með mjög áhugaverðan rökstuðning fyrir máli sínu en í álitinu segir:

„Nefndin hefur lýst því yfir í fyrri álitum sínum, sbr. mál nr. 2/1998 og 4/2002, að Ríkisendurskoðun hafi víðtækar rannsóknarheimildir samkvæmt lögum nr. 86/1997 og búi yfir sérþekkingu á sviði fjársýslu ríkisstofnana og þurfi ekki að rannsaka frekar niðurstöður hennar á því sviði. Nefndin telur hins vegar að nokkuð skorti á að ráðuneytið hafi mótað sér sjálfstæða skoðun á þeim athugasemdum sem fram komu í niðurstöðu Ríkisendurskoðunar þannig að fullnægt hafi verið skilyrðum 10. gr. stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu.“

Nefndin er þarna í fullkominni þversögn í máli sínu. Fyrst fullyrðir hún með vísan í eigin úrskurði að ekki þurfi að rannsaka frekar niðurstöður Ríkisendurskoðunar en í næstu setningu á eftir heldur hún því fram að ráðuneytið hafi brotið rannsóknarregluna!

Af þessu sést að álit nefndarinnar skilur eftir sig mun fleiri spurningar heldur en svör. Það er hins vegar gegnumgangandi allan rökstuðning hennar að hún víkur ítrekað frá eigin fordæmum. Með því er nefndin sjálf að brjóta eina mikilvægustu reglu stjórnsýsluréttar sem er jafnræðisreglan. Samkvæmt henni skulu stjórnvöld, við úrlausn mála, gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Á sama hátt virðist nefndin brjóta meginreglu íslensks réttarfars um það að um sambærileg mál skuli fara með sambærilegum hætti.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.