Út skal lágmarksútsvar

Athyglisvert þingmál leit dagsins ljós um daginn þegar einn nýjasti þingmaður Sjálfstæðisflokkins, Deiglupenninn Erla Ósk Ásgeirsdóttir, lagði til afnám lágmarksútsvars sveitafélaga.

Sveitafélögum er þröngur stakkur búinn af Alþingi hvað varðar tekjuöflun í gegnum laun almennings. Útsvar sveitafélaga verður samkvæmt lögum að liggja á bilinu 11,24% til 13,03%. Því miður er það þannig að flest sveitafélög heimta hámarksútsvar án þess að yfirleitt íhuga hvort einhverjar lækkanir séu mögulegar. Þó eru til nokkur sveitafélög sem taka slaginn fyrir skattborgarana og innheimta minna en lágmarksútsvar og reyna að hagræða annarsstaðar á móti.

Upplýsingar um útsvar einstakra sveitafélaga má finna á heimasíðu Sambands sveitafélaganna (www.samband.is) og þegar tíu fjölmennustu sveitafélögin eru borin saman kemur í ljós að þau innheimta nær öll hámarksútsvar sem er 13,03%.

Taflan hér fyrir neðan sýnir 10 stærstu sveitafélögin, íbúafjölda 1. október 2006 (samkv. hagstofunni), útsvar 2007 og hvaða flokkar mynda sveitastjórnina. Af tíu fjölmennustu sveitafélögunum eru það einungis Reykjanesbær, Garðabær og Mosfellsbær sem innheimta ekki 13,03% útsvar. 12 stærsta sveitafélagið, Seltjarnanes innheimtir einnig ekki lágmarksútsvar (12,35%) Það er rétt að taka fram í framhjáhlaupi að Sjálfstæðisflokkurinn er með hreinan meirihluta í Reykjanesbæ, Seltjarnanesi og Garðabæ og starfar með vinstri grænum í Mosfellsbæ. Það er að segja: álögur lækka einungis með Sjálfstæðisflokkinn í stjórn.

Það eru einungis nokkrir smáhreppir sem geta boðið íbúum sínum upp á lágmarksútsvar en þeir eru:

– Skorradalshreppur
– Helgafellssveit
– Ásahreppur

Hvalfjarðarhreppur innheimtir rétt yfir lágmarksútsvari eða 11,60%

Það er því ljóst að afnám lágmarksútsvars mun því ekki hafa nein stórvægileg áhrif. Þetta er hinsvegar spurning um það hvort það sé rétt af Alþingi að ákveða fyrir hönd sveitafélaga að þau megi ekki innheimta minna en 11,24% af tekjum íbúa sinna.

Það er einfaldlega ekki hlutverk Alþingis að setja sveitastjórnum reglur um lágmarksinnheimtu. Sveitastjórnarmenn sitja nær kjósendum og eru betur hæfir til þess að meta hvort hægt sé að lækka álögur ef aðstæður bjóða upp á það.

Sveitafélög eiga að njóta frelsis til þess að keppa sín á milli um íbúa með því að bjóða þeim valkosti hvað varðar þjónustu og skattlagningu. Afnám lágmarksútsvars er mikilvægt skref í þá átt.

Hlekkur: lagafrumvarp Erlu Óskar

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.