Skuld(binding) við Sjálfstæðisstefnuna

Á einu mesta góðæristímabili Íslendinga er afar vinsælt að endurtaka fyrir almenningi afburða fjárhagsstöðu ríkisins og hve vel hefur tekist með niðurgreiðslu skulda þess. Þeirri staðreynd erum við öll sammála, skuldir ríkissins hafa verið greiddar niður á undanförum árum og er nú svo komið að HREINAR skuldir ríkissjóðs eru nú engar. Þennan mikla árangur ber að lofa. Í pistli mínum í dag mun ég þó útskýra af hverju ég er ekki fyllilega sáttur við umræðuna um skuldastöðu ríkissjóðs.

Á einu mesta góðæristímabili Íslendinga er afar vinsælt að endurtaka fyrir almenningi afburða fjárhagsstöðu ríkisins og hve vel hefur tekist með niðurgreiðslu skulda þess. Þeirri staðreynd erum við öll sammála, skuldir ríkissins hafa verið greiddar niður á undanförum árum og er nú svo komið að HREINAR skuldir ríkissjóðs eru nú engar. Þennan mikla árangur ber að lofa. Í pistli mínum í dag mun ég þó útskýra af hverju ég er ekki fyllilega sáttur við umræðuna um skuldastöðu ríkissjóðs.

Samkvæmt endurskoðuðum ríkisreikningi 2006 var heildarstaða langtímaskulda og skuldbindinga ríkissjóðs 495.000.000.000 íslenskar krónur í árslok 2006, eða 495 milljarðar króna. Þetta er 33% aukning frá árinu 2005. Það skal tekið fram að efnahagsstaða ríkisins er ekki verri þrátt fyrir þessa hækkun, vegna þeirrar einföldu ástæðu að ríkið á peningalegar eignir sem koma á móti þessu, sem leyfir okkur að segja að HREINAR skuldir ríkisins (ÁN lífeyrisskyldbindinga) séu engar.

Sumir stjórnmálamenn og ýmsir opinberir starfsmenn virðast hins vegar ekki skilja samhengi eftirfarandi hugtaka; skuldir, hreinar skuldir og skuldbindingar. Í umræðum um skuldastöðu ríkissjóðs er því þráfaldlega haldið fram að skuldirnar séu horfnar, búið sé að greiða þær upp. Það er þó klárlega rangt eins og fram kemur í endurskoðuðum ríkisreikningi fyrir árið 2006. Þegar fullyrt er að skuldir ríkissjóðs séu uppgreiddar gleymist veigamikill liður en það eru lífeyrisskuldbindingar vegna opinberra starfsmanna. Ég tel afar varhugavert að horfa framhjá svo stórum lið þegar skuldamál ríkissjóðs eru til umræðu. Samkvæmt endurskoðuðum ríkisreikningi 2006 námu óuppgerðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs í árslok 2006 samtals 210 milljörðum króna, það munar um minna. Þetta er einn stærsti liðurinn í umfjöllun endurskoðun ríkisreiknings 2006 í kaflanum “Langtímaskuldir ríkissjóðs”, sbr. bls. 28 í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2006:

Erum á réttri leið
Þótt mikilvægt sé að sýna fram á það að efnahagsstjórn Sjálfstæðismanna á undanförnum árum hafi skilað ótrúlega góðum árangri óska ég samt sem áður eftir því að umræðan fari fram á grundvelli staðreynda en ekki óskhyggju. Það er fráleitt að byggja opna umræðu um skuldastöðu ríkissjóðs á því að láta eins og lífeyrisskuldbindingar séu ekki til. Þessar skuldbindingar eru upp á samtals 210 milljarða af þeim 495 milljarða heildarskuldum ríkissjóð í árslok 2006. Hvernig stendur eiginlega á því að í opinberri umfjöllun um skuldastöðu sé nánast alltaf horft framhjá þessum bagga sem hvílir sannanlega á okkur skattgreiðendum?

Umræðan verður að lýsa staðreyndum eins og þær eru. Við megum ekki búa til óraunhæfa glansmynd sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Núverandi ríkisstjórn og aðrir talsmenn þeirra verða að tala hreint út og hætta að horfa framhjá þessum stóra skuldalið sem lífeyrisskuldbindingarnar eru þegar mat er lagt á fjárhagsstöðu ríkissjóðs.

Talað er um að skuldir ríkisins hafa verið greiddar upp. Tökum einfalt dæmi:

Þú skuldar 10 milljónir í fasteign, en á móti átt þú verðbréf og sparifé sem eru nú samtals 10 milljónir. Ef þú ert spurður: „hvað skuldar þú mikið?” Er svar þitt þá: „ég skulda ekki neitt”? Með þeim rökum að eignir í verðbréfum og sparifé að verðmæti 10 milljóna gangi upp á móti? Er ekki líklegra að þú segir: „Ég skulda 10 milljónir”. Í þessari stöðu getur þú hins vegar lýst því að þínar hreinu skuldir séu nánast engar vegna þess sparifjár sem kemur upp á móti. Fjárhagsstaða þín er sem sagt ágæt. Það breytir þó ekki því að þú skuldar 10 milljónir króna.

Rök Sjálfstæðismanna notuð gegn þeim sjálfum?
Ég óttast þær hugmyndir sem sumt Samfylkingarfólk ber í brjósti um hlutverk ríkisins. Ég er samt sem áður nokkuð viss um að núverandi ríkisstjórn mun láta margt gott af sér leiða og að ekki verði vikið frá þeirri stefnu að lækka áfram skatta á launþegum. Sagan sýnir hins vegar að sú hætta er fyrir hendi að vinstri menn og þar með Samfylkingin vilji nýta sér bætta fjárhagsstöðu ríkissjóðs til að stórauka útgjöld. Hvað gerði ekki R-listinn þegar hann tók við nánast skuldalausri Borg á árinu 1994. Við tók tími stórfelldrar skuldasöfnunar til að standa undir stöðugum hallarekstri borgarinnar á mesta góðæristímbili í sögu þjóðarinnar. Samt sem áður færði R- listinn allar álögur upp í leyfileg hámörk. Það væri hræðilegt að eftir tímabil afburðaárangurs við stjórn ríkisfjármála á sama tímabili og mikilli niðurgreiðslu skulda komi leiðtogar R-listans til leiks og endurtaki sögu R- listans, nú með aðild að ríkisstjórn.

Rök Samfylkingarmanna um aukin útgjöld ríkisins verða: „Þetta getum við gert vegna frábærrar stöðu ríkissjóðs, við höfum vel efni á þessu” og „þar sem ríkissjóður skuldar nú ekki neitt”. Slík rök eru ekki óeðlileg en geta varla talist ásættanleg. Við verðum að fara varlega og byggja á öllum þekktum staðreyndum, m.a. um raunverulega skuldastöðu, – og ekki láta eins og 210 milljarða króna óuppgerðar lífeyrisskuldbindingar opinberra starfsmanna séu ekki til. Það er mikilvægt að áfram verði haldið á sömu braut við rekstur ríkissjóðs og sjálfstæðismenn hafa gert á umliðnum árum. Í því felst að skattar hafa markvisst verið lækkaðir á fyrirtækjum og einstaklingum og skuldir verið greiddar niður.

Sjálfstæðisstefnan
Það hlýtur að vera eitt meginviðfangsefni þeirra Sjálfstæðismanna sem nú sitja í ríkisstjórn eða sveitarstjórnum að stuðla að ráðdeild í rekstri og halda álögum í lágmarki. Með því að nýta góðærið til að styrkja fjárhagsstöðu hins opinbera höfum við meiri burði til að aðstoða þá sem þurfa á aðstoð að halda í okkar velferðarsamfélagi, sem þó er eitt það besta í heimi.

Búum ekki til neinar óraunhæfar glansmyndir, heldur leggjum öll spilin á borðið og tryggjum enn frekar trausta fjárhagsstöðu ríkisins.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)