Al Gorgeir

Al Gore hefur hlotið friðarverðlaun Nóbels í ár. Hann var valinn fram yfir fjölda annarra einstaklinga sem gerðu tilkall til verðlaunanna. Valið er mjög umdeilt og í fljótu bragði er ekki hægt að sjá hvað Gore hefur fram yfir aðra sem voru tilnefndir.

Í lok síðustu viku tilkynnti verðlaunanefnd norska Stórþingsins að Al Gore og loftslagsnefnd Sameinuðu Þjóðanna hafi hlotið friðarverðlaun Nóbels í ár. Þau hljóta friðarverðlaunin fyrir að safna saman upplýsingum um lofslagsbreytingar og koma þeim í umræðuna í alþjóðasamfélaginu ásamt því að leggja grundvöll að aðgerðum til að sporna við þróuninni.

Það verður að teljast afar sérkennilegt að Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna hljóti þessi verðlaun. Hann virðist ekki eiga mikið sameiginlegt með fyrri friðarverðlaunahöfum eins og Dalai Lama, Móðir Theresu, Nelson Mandela eða Martin Luther King jr. Þrátt fyrir að val á verðlaunahafa hafi oft verið umdeilt í gegnum tíðina þá virðist sem þetta muni vera eitt hið umdeildasta hingað til.

Al Gore hafði betur en fjöldinn allur af einstaklingum, félögum og samtökum sem hafa unnið að tilstuðlan friðar í heiminum. Þeirra á meðal er Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands en hann hefur lengi verið talinn líklegur til að hljóta friðarverðlaunin. Ahtisaari hefur unnið ötullega að því að koma á friði á átakasvæðum og þá einna helst í Aceh héraði í Indónesíu þar sem nýlega var bundinn endi á ófrið sem hafði geysað í 30 ár. Einnig hefur hann unnið mikið við erindrekstur í Kosovo, þar sem hann hefur lagt fram tillögur um sjálfstæði héraðsins við litla hrifningu Serba.

Annar einstaklingur sem kom til greina sem verðlaunahafi er pólska konan Irena Sendler, en hún er þekkt fyrir að hafa bjargað 2.500 gyðingabörnum í síðari heimstyrjöld. Hún var búsett í Varsjá á stríðstímanum og með pólsku andspyrnuhreyfingunni hjálpaði hún til við að koma gyðingabörnum í burtu úr varsjáska gettóinu. Hún gaf þeim fölsk skilríki og kom þeim fyrir á felsustöðum víðsvegar um Varsjá.

Þriðji aðilinn sem hugsanlega var nefndur sem verðlaunahafi er Lydia Yusupova. Hún er rússneskur lögfræðingur sem hefur helgað sig störfum í þágu mannréttinda. Hún hefur undanfarin ár safnað saman vitnisburðum fórnarlamba mannréttindabrota og talað máli þeirra. Hún bíður fórnarlömbunum lagalega aðstoð og er óhrædd að tala gegn þeim sem fylgja ekki mannréttindum þótt að það séu stofnanir sem eru mjög nærri henni eins og rússneski herinn. Fyrir það hefur hún verið kölluð hugrakkasta kona í heimi af BBC og Amnesty International.

Það var fjöldi annarra sem kom til greina en alls voru 181 einstaklingur, félagasamtök, stofnanir og alþjóðasamtök tilnefnd í ár. Meðal þeirra má nefna; Evrópusambandið fyrir snurðulaust og friðsamlegt sameiningarferli í Evrópu í fimm áratugi, Rebíja Kadeer, sem berst fyrir réttindum Úighúr-þjóðarinnar í Kína og Thich Quang Do búddamunkur frá Víetnam.

Ég tel að allir þeir sem hafa verið nefndir hér hafi átt verðlaunin meira skilið en Al Gore. Vissulega hefur hann skapað umræðu um mögulegar lofslagsbreytingar sem er af hinu góða, en ég tel að verðlaunin eigi að nota sem sýnilega hvatningu fyrir tilstuðlan friðar í heiminum og styrkja aðferðir sem hafa raunveruleg áhrif. Að mínu mati eru ótal aðrar leiðir sem eru áhrifaríkari til að stuðla að friði í heiminum en að einbeita sér að draga úr hugsanlegum loftslagsbreytingum.

Latest posts by Jan Hermann Erlingsson (see all)