Kaupin á eyrinni

Enn berast nýjar fréttir af samskiptum REI og Orkuveitunnar. Ljóst er að málið er flókið, einhverjir hafa gert mistök, og marga grunar að einhverjir hafi sótt óhæfilega harkalega í eignir Orkuveitunnar. En þetta er ekki eina óheppilega fyrirtækjasala undanfarinna ára.

Enn berast nýjar fréttir af samskiptum REI og Orkuveitunnar. Málið er flókið, því fyrirtækin eru í senn samstarfsaðilar í stórum verkefnum erlendis og mótaðilar í viðamiklum samningum um það hvaða aðgang REI á að hafa að óefnislegum eignum Orkuveitunnar.

Við samningaborðið sitja annarsvegar einstaklingar sem hafa það verkefni að verja hagsmuni eigendahóps sem ekki á þess kost að mæta sjálfur til fundar – nefnilega borgarbúa. Hins vegar sitja fulltrúar einkafyrirtækis sem er í samþjappaðri eigu, og lykilstarfsmenn eru sjálfir stórir eigendur. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til láta sér detta í hug að slíkir samningar gætu endað illa ef ekki er rétt að málum staðið.

Þegar við bætast hugmyndir um að starfsmenn Orkuveitunnar eignist beina hlutdeild í hagnaði REI, með rétti til hlutabréfakaupa, er skiljanlegt að ýmsir hafi áhyggjur. Að svo miklu leyti sem hagsmunir fyrirtækjanna eru þeir sömu er að sjálfsögðu gott að starfsmenn OR njóti góðs af góðri afkomu REI, en þar sem hagsmunir fyrirtækjanna fara ekki saman skapast óheppilegir hvatar fyrir starfsmenn OR sem jafnframt væru eigendur í REI. Það á við um rétt almennra starfsmanna, en sérstaklega þær hugmyndir sem virðast hafa verið um að lykilstarfsmenn fengju að kaupa umtalsverðar upphæðir í REI.

Eins og fram hefur komið hér á Deiglunni er talsvert hætt við að hagsmunaárekstrar á borð við þá sem Orkuveitan stendur frammi fyrir skapist hjá opinberum fyrirtækjum. Af þeirri ástæðu – og ýmsum öðrum – er rekstur af því tagi sem REI mun stunda best kominn hjá einkaaðilum.

En einkarekstur er ekki töfralausn á hagsmunaárekstrum. Grundvallarvandi Orkuveitunnar í samningunum við REI er ekki að Orkuveitan sé í eigu hins opinbera, heldur að eigendurnir hafa engan kost á að verja hagsmuni fyrirtækisins. Það fellur því í hlut stjórnenda fyrirtækisins, sem kunna að sjá hag sínum borgið í öðru en að gæta hagsmuna eigendanna. Nákvæmlega sama vandamál er fyrir hendi í almenningshlutafélögum í dreifðri eignaraðild.

Vandinn er heldur ekki séríslenskur. Hvar sem einstaklingar fara með umboð til að gæta hagsmuna annarra en sinna eigin skapast umboðsvandi af þessu tagi. Engu að síður virðast fréttir af slíkum vandamálum vera ótrúlega algengar á Íslandi. Baugsmálið er margfrægt, en hluti þess snerist einmitt um svipað mál, þar sem hagsmunir lítilla eigenda áttu ekki endilega samleið með hagsmunum stjórnenda: Stjórnendur Baugs, sem var almenningshlutafélag í dreifðri eignaraðild, voru nefnilega líka eigendur Gaums, sem var hlutafélag í mjög þröngri eignaraðild. Þegar Baugur keypti 10-11 var fyrirtækið fyrst selt Gaumi og eigendur Gaums högnuðust vel á því að selja stjórnendum Baugs það svo aftur.

Stundum heyrist meira af slíkum málum, og stundum minna. Þegar Burðarás keypti Kaldbak var fyrirtækið á mjög svipaðan hátt selt með millilendingu í Samson, í stað þess að Burðarás keypti fyrirtækið beint. Eigendur Samson högnuðust ágætlega á að selja stjórnendum Burðaráss fyrirtækið aftur, en þetta var að þónokkru leyti sami hópurinn.

Þegar hefur verið úrskurðað um að salan á 10-11 var lögleg, og varla á annað við um söluna á Kaldbaki. Sumir vilja kalla slíka gjörninga siðlausa og að mati undirritaðs eru þeir í það minnsta óheppilegir, en hvort sem mönnum líkar betur eða verr er það svona sem kaupin gerast á eyrinni.

Skammir og uppnám í fjölmiðlum kann að letja einhverja frá því að hugsa um eigið skinn frekar en hagsmuni þeirra fyrirtækja sem þeir starfa hjá, en það er nokkuð brothætt lausn að reiða sig á samvisku fólks til að komast hjá slíkum umboðsvanda. Í íslenskum lögum eru til úrræði til að bregðast við slíku, meðal annars lög um umboðssvik. Gallinn við lög um umboðssvik er að þau gera einungis kleift að bregðast við gjörningum eftir á, og þar sem erfitt og dýrt getur reynst að sanna slíkt er líklegt að flest brot séu látin óáreitt.

Mun heppilegra væri að styrkja reglur sem draga úr líkum á að stjórnendur komi sér í aðstöðu þar sem þeir standa frammi fyrir slíkum freistingum. Slíkar reglur þurfa að vera vel ígrundaðar, en gætu til dæmis falist í takmörkunum á heimild stjórnenda almenningshlutafélaga til að reka samtímis einkahlutafélög sem stunda viðskipti á sama markaði og almenningshlutafélagið, eða í aukinni upplýsingaskyldu stjórnenda og stórra eigenda. Það er heldur ekki nóg að hafa reglur, heldur þarf líka að tryggja að eftirlitsaðilar hafi bolmagn og heimildir til að fylgja málum eftir jafnóðum, frekar en að grípa þurfi til viðamikilla rannsókna eftirá.

Það er ekki vanþörf á að skoða vel hvað má betur fara í því umhverfi sem fyrirtæki dreifðri og opinberri eignaraðild starfa í. Í slíkri naflaskoðun væri eðlilegt að líta til annarra landa, enda eru hlutabréfamarkaðir beggja vegna Atlandshafsins sem eiga sér mun lengri sögu en sá íslenski, og þar hefur verið tekist á við ýmis umboðsvandamál í gegnum tíðina.

Það regluverk sem snýr að stjórnun íslenskra fyrirtækja er í mörgum atriðum gott, en lengi má gott bæta. Ef öll sú orka sem fór í Baugsmálið – og sú orka sem virðist ætla að fara í REI-málið – hefði verið nýtt í skoðun á regluverkinu frekar en í endalausa leit að sökudólgum, er ekki ólíklegt að sú vinna hefði skilað meiru en mun standa eftir þegar Orkuveitustorminn lægir.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)