Bandalag lýðræðisríkja?

Sú hugmynd sem John McCain varpaði fram síðastliðið vor, að yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, myndi hann vinna að því að koma á fót bandalagi lýðræðisríkja virðist því miður ekki ætla að daga uppi innan um fjölmargar aðrar slæmar tillögur um utanríkismál sem komið hafa frá repúblikönum undanfarna mánuði. Og er af nægu að taka í þeim efnum.

Sú hugmynd sem John McCain varpaði fram síðastliðið vor, að yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna, myndi hann vinna að því að koma á fót svokölluðu bandalagi lýðræðisríkja (e. league of democracies), virðist því miður ekki ætla að daga uppi innan um fjölmargar aðrar slæmar tillögur um utanríkismál sem komið hafa frá repúblikönum undanfarna mánuði. Og er af nægu að taka í þeim efnum.

Í ræðu sem McCain flutti við Stanford háskóla kom meðal annars fram að slíkt bandalag lýðræðisríkja myndi „í sameiningu geta sett þrýsting á harðstjóra í Búrma og Simbabve, með eða án samþykkis Rússlands og Kína. Það gæti sameinast um að beita klerkastjórnina í Teheran refsiaðgerðum og komið í veg fyrir kjarnorkuáform þarlendra stjórnvalda. Og það gæti aðstoðað við að festa lýðræði í sessi í ríkjum á borð við Serbíu og Úkraínu.“

Rudy Giuliani, sem líkt og McCain er forsetaframbjóðandi í prófkjöri Repúblikanaflokksins, viðrar álíka hugmyndir í grein í nýjasta hefti tímaritsins Foreign Affairs. Fyrir utan eðlislægar efasemdir repúblikana í garð Sameinuðu þjóðanna – Giuliani varar við því að Bandaríkin „eigi ekki að vænta mikils meira af þeim“ – gefur hann í skyn að þörf sé á allsherjar uppstokkun á skipan alþjóðamála: Það eigi að útvíkka NATO „til hvers þess ríkis sem uppfyllir ákveðin grundvallarskilyrði um góða stjórnarhætti, hernaðarviðbúnað og er reiðubúið að gangast undir tilteknar skuldbindingar á alþjóðavettvangi – burt séð frá landfræðilegri legu þess“.

Sá rökstuðningur sem liggur að baki því að mynda slíkt lýðræðisbandalag er í fáum orðum mjög einfaldur: Lýðræðisríki deili með sér fleiri sameiginlegum hagsmunum heldur en með ríkjum sem hafa annars konar stjórnarfar; þau eru betur til þess fallin að kljást við mikilvæg og aðkallandi verkefni á vettvangi alþjóðamála; og jafnframt eru þau reiðubúin til þess að leysa þau einmitt vegna þeirra viðhorfa sem þau hafa almennt til alþjóðastjórnmála. Af þeim sökum telja McCain og Giuliani sér trú um það að sameinist lýðræðisþjóðir heimsins um að bindast formlegum samtökum, gæti slíkt bandalag í kjölfarið gripið til aðgerða – meðal annars í hernaðarlegum tilgangi – þegar önnur ríki reynast ófús.

Þrátt fyrir að bandalag lýðræðisríkja hljómi vafalaust vel í eyrum margra – kannski ekki síst Bandaríkjamanna – er hugmyndin hvoru tveggja byggð á grundvallarmisskilningi á eðli alþjóðastjórnmála og einnig þremur röngum fyrirframgefnum forsendum: Það er ekkert sem rennir stoðum undir það að lýðræðisþjóðum sé það að einhverju marki eðlislægara að vilja grípa til aðgerða í nafni almannahagsmuna; að lýðræðisþjóðir séu sammála um hvaða vandamál á alþjóðavettvangi skuli leysa; og að slíkt bandalag lýðræðisríkja grundvallist á sameiginlegum hugsjónum – en ekki sameiginlegum hagsmunum.

Í fyrsta lagi er engin ástæða til þess að ætla að með myndun bandalags lýðræðisríkja yrði til dæmis í auknum mæli lögð áhersla á að binda endi á þau grimmdarverk sem eiga sér stað í Darfúrhéraði. Það er ekkert um þessar mundir sem hindrar „alþjóðasamfélagið“ – hvorki lýðræðisríki né önnur – til þess að grípa til frekari aðgerða en hefur verið gert til þess koma böndum á ástandið. Ef Bandaríkjastjórn vildi mynda alþjóðlegt bandalag ríkja til þess að ná því markmiði, þá gæti hún gert það. Ástæðan fyrir því að svo er ekki gert – og verður væntanlega ekki í bráð – er fremur að finna í þeirri kaldrifjuðu staðreynd að málefni Darfúrs varða ekki brýna hagsmuni Bandaríkjanna.

Í annan stað fer því fjarri að lýðræðisríki geti komið sér saman um hver séu – og til hvaða ráða eigi að grípa – helstu vandamálin í alþjóðastjórnmálum hverju sinni. Það ríkti til að mynda gjá á milli lýðræðisþjóða heimsins varðandi lögmæti innrásarinnar í Írak og hversu mikil ógn heiminum stafaði af einræðisstjórn Saddam Hussein. Og þegar kemur að alþjóðalögum og kjarnorkuafvopnun útlagaríkja eru Bandaríkin og Bretland oftar en ekki á öndverðum meiði við bandalagsþjóðir sínar á Norðurlöndunum og í Japan, svo dæmi séu tekin. Sameiginlegar lýðræðishugsjónir skipta þar engu máli.

Að bandalög byggist einkum á sameiginlegum hugsjónum er líkast til stærsti misskilningurinn að baki því að rétt sé að mynda bandalag lýðræðisþjóða. Bandalög verða til þegar sameiginlegir hagsmunir ríkja skarast og samvinna á milli þeirra verður raunsærri leið til þess að vinna að framgangi sameiginlegra markmiða. Það er af þeim sökum sem Bandaríkjastjórn á í mun nánari – og jafnframt mikilvægari – samskiptum við einræðisríkið Sádi-Arabíu heldur en til dæmis Belgíu. Til þess að leysa eitt brýnasta málefnið á vettvangi alþjóðamála – kjarnorkuvopnaáform Írana – er nauðsynlegt að Bandaríkin eigi í nánu samstarfi við þjóðir sem seint verða talin hafa lýðræðisleg gildi í hávegum höfð: Kína og Rússland. Samstarf við Norðurlönd og Belgíu mun koma að litlu gagni í því samhengi.

Sú heimsmynd sem blasir við þegar litið er til þróunar alþjóðamála á undanförnum misserum einkennist meðal annars af vaxandi átökum stórveldisríkja yfir eignarhaldi og aðgengi að strategískt mikilvægum orkuauðlindum, og auk þess pólitískum áhrifum á þeim svæðum sem þær er að finna. Og á sama tíma er útbreiðsla kjarnorkuvopna meira vandamál heldur en áður hefur þekkst frá lokum kalda stríðsins. Pólitískur og efnahagslegur máttur Bandaríkjanna og Evrópu fer einnig hlutfallslega minnkandi samhliða auknu vægi og áhrifum Kína og Rússlands í alþjóðakerfinu. Myndun einhvers konar bandalags lýðræðisríkja er ekki gagnleg leið til þess að mæta þeim vandamálum sem munu óhjákvæmilega fylgja í kjölfar slíkrar þróunar. Þvert á móti myndi það gera illt verra og auka á spennu og hugmyndafræðileg átök á meðal öflugustu ríkja heimsins.

Birtist áður í Viðskiptablaðinu.