Opinber ævintýramennska

Það er gaman að fylgjast með íslenskum athafnamönnum um þessar mundir. Þeir eru út um allt. Öllum steinum er velt til að finna tækifæri til fjárfestinga og eru margir undrandi, ekki síst sérfræðingar erlendis, á því hversu hugaðir og framsæknir landar okkar eru.

Það er gaman að fylgjast með íslenskum athafnamönnum um þessar mundir. Þeir eru út um allt. Öllum steinum er velt til að finna tækifæri til fjárfestinga og eru margir undrandi, ekki síst sérfræðingar erlendis, á því hversu hugaðir og framsæknir landar okkar eru.

Þó að það sé til of mikils að ætlast að allar þessar fjárfestingar gangi upp, verður að viðurkennast að sumar þeirra glæða upp í gamla þjóðarstoltinu, því oftar en ekki eru íslensku fjárfestarnir að spila inn þekkingu sem innlendir sérfræðingar hafa byggt upp í gegn um tíðina eða selja íslenskar vörur, s.s. skyr og íslenskt vatn.

Margir vilja meina að lausn á orkuvanda heimsins sé eitt af brýnustu verkefnum 21. aldarinnar og er sjálfsagt að Íslendingar nýti bæði sérþekkingu og fjármuni og leggi sín lóð á vogarskálarnar til að bregðast við því. Nýting jarðvarma í þeim tilgangi virðist vera skynsöm leið og með ágætis rökum er hægt að halda því fram að slíkar fjárfestingar geti skila nokkuð góðri ávöxtun á því áhættufjármagni sem í þær er lagt. Það hefur líka komið á daginn að einstaklingar og fyrirtæki, bæði innlend og erlend, eru tilbúin að taka slaginn.

Því hefði maður haldið að skynsamlegast væri fyrir stjórnendur ríkissins eða sveitarfélaganna að halda sig til hliðar og trufla ekki einkaframtakið og nýsköpunina með þeim fjármunum sem þeim hefur tímabundið verið treyst fyrir.

Ekki voru allir sáttir við fjárfestingu bandaríska bankans Goldman Sachs í Geysi Green Energy á þeim forsendum að þeir væru að kaupa í íslensku veitufyrirtæki sem sæi skattgreiðendum fyrir vatni og rafmagni. Sagði iðnaðarráðherra meðal annars í kvöldfréttum að tryggja þyrfti að slíkar fjárfestingar leiddu ekki til þess að gjöld fyrir þjónustuna hækkuðu.

Ef íslenskir stjórnmálamenn eru svo áhyggjufullir af hærra orkuverði fyrir neytendur á Íslandi ættu þeir að skoða eigendahóp hins nýja fjárfestingafélags, Reykjavik Energy Invest, en opinbera fyrirtækið Orkuveita Reykjavíkur er kjölfestufjárfestir í því félagi með 40% hlut.

Auðvitað býr Orkuveitan yfir mikilli reynslu á sviði jarðvarma og byggingu jarðhitavera sem gæti nýst slíkum fjárfestingum. En hjá því verður ekki litið að um áhættufjárfestingar eru að ræða og verið er að spila með almannafé enn og aftur í þeim tilgangi. Engin þörf virðist vera á því að Orkuveitan sé að vasast í slíkum verkefnum. Nýlega hafa álíka fjárfestingafélög verið stofnuð í svipuðum tilgangi þar sem ríki eða sveitarfélög koma hvergi nærri.

Svo virðist sem í Orkuveitu Reykjavíkur séu allir sjóðir fullir og sífellt virðist verið að reyna að koma peningunum í not.

Það er kominn tími til að skilgreina hlutverk Orkuveitunnar og markmið upp á nýtt. Ef hún á að vera opinbert þjónustufyrirtæki á hún að sjálfsögðu að leitast við að veita eigendum sínum sem besta þjónustu á sem lægstu verði í stað þess að setja upp hvert gæluverkefnið á fætur öðru. Í því sambandi er vert að minna á fjárfestingar í Línu.net og risarækju sem virðast gleymast í umræðu um öll þau frábæru tækifæri sem felast nú í jarðvarma.

Það er jafnframt kominn tími til að forsvarsmenn Orkuveitu Reykjavíkur greiði rentur af þeim fjárfestingum sem þeir hafi lagt í fyrir Reykvíkinga. Ef þær eru farnar að borga sig og þeir eru í vandræðum með að nýta þá peninga sem virðast safnast í sjóðum fyrirtækisins á auðvitað að lækka orkukostnað heimilanna. Þetta er fyrirtæki Reykvíkinga og það er ekki í þeirra hag að það þenjist út og keppi við fyrirtæki á almennum markaði.

Slík þróun er skref aftur á við í átt að þeim tímum þegar ríkisrekstur kæfði framtak íslenskra athafnamanna.

Latest posts by Brynjólfur Stefánsson (see all)

Brynjólfur Stefánsson skrifar

Brynjólfur hóf að skrifa á Deigluna í mars 2003.