Fjármagnstekjuskattur til sveitarfélaganna – ekki rétta leiðin

Undanfarin misseri hafa heyrst háværar kröfur frá fulltrúum sveitarfélaganna um auknar greiðslur úr ríkissjóði og nú hafa ýmsir þeirra sett fram kröfu um hlutdeild sveitarfélaganna í fjármagnstekjuskatti.

Ríkissjóður var rekinn með 82 milljarða afgangi síðastliðið ár, það er gott til þess að vita að ríkisstjórnin lítur ekki svo á að þeir fjármunir sem aflað er í gegnum skatta séu til þess eins að eyða þeim, en skattkerfið er ekkert annað en tekjuöflunarkerfi hins opinbera. Tekjur ríkissjóðs á síðasta ári námu 422 milljörðum, en gjöld voru alls 340 milljarðar.

Í ljósi góðrar stöðu ríkissjóðs er mikilvægt að tekjuafganginum verði vel varið. Um er að ræða tæplega fjórðung heildartekna ríkissjóðs. Undanfarin ár hefur ríkissjóði verið skilað með afgangi og hefur afgangurinn m.a. verið nýttur til þess að greiða niður erlendar skuldir ríkissjóðs, lækka skatta og leggja þá af, ásamt því að hækka persónuafslátt svo eitthvað sé nefnt. Lykilatriði er að haldið verði áfram á þessari sömu farsælu braut.

Undanfarin misseri hafa heyrst háværar kröfur frá fulltrúum sveitarfélaganna um auknar greiðslur úr ríkissjóði og nú hafa ýmsir þeirra sett fram kröfu um hlutdeild sveitarfélaganna í fjármagnstekjuskatti. Að vissu leiti er það skiljanlegt að sveitarfélögin horfi í fjármagnstekjuskattinn þar sem eignarhaldsfélögum hefur fjölgað mikið á síðust árum á kostnað þeirra sem greiða tekjuskatt og á móti hefur þeim einstaklingum fjölgað sem greiða eingöngu fjármagnstekjuskatt. Þessi aðferð, að sveitarfélögin fái ákveðna hlutdeild í fjármagnstekjuskatti, gæti leyst tímabundin vandamál hjá örfáum sveitarfélögum. Skatturinn dreifist hins vegar mjög misjafnlega á sveitarfélögin og að öllum líkindum myndi tekjudreifingin verða mun ójafnari en hún er í dag.

Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er ekki umdeild. Mörg þeirra eiga í verulegum fjárhagsvandræðum eins og sjá má á því að 37 sveitarfélög hafa fengið bréf frá eftirlitsnefnd sveitarfélaga á síðustu þremur árum. Þetta, ásamt stóraukinni skuldasöfnun, eru hættumerki. Að einhverju leyti er um lögbundnar skuldbindingar að ræða t.d. yfirfærslu grunnskólanna og kostnað sem tengdist einsetningu þeirra, auknum kröfum varða frárennslismál osfrv. Hins vegar eru alltof mörg sveitarfélög sem hafa farið út í kostnaðarsamar fjárfestingar og framkvæmdir sem ekki hefur verið innistæða fyrir. Tekjustofnar sveitarfélaganna eru útsvar, fasteignaskattur, greiðslur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna og þjónustutekjur. Samkvæmt yfirliti yfir afkomu sveitarfélaganna í árbók þeirra frá 2006 hafa tekjur sveitarfélaganna ekki staðið í stað heldur hafa þær aukist jafnt og þétt. Á árunum 1997-2005 hefur útsvar og fasteignaskattur aukist að raungildi um tæp 70% og tekjur frá Jöfnunarsjóði um 240%.

Útsvarið er staðbundin skattheimta sem sveitarfélögin innheimta, en það er fjármagnstekjuskattur ekki. Fulltrúar sveitarfélaganna hafa fært ýmis rök fyrir því að þeir eigi kröfu í hlutdeild fjármagnstekjuskatts, en það er í raun hægt að færa sambærileg rök um alla aðra skattheimtu. Er vilji hjá fulltrúum sveitarfélaganna að taka upp staðbundinn virðisaukaskatt? Þ.e. sveitarfélagið fái hlutdeild í vsk sem innheimtur er í því svæði.

Það er auðvitað réttlætismál að einstaklingar sem hafa lögheimili og búsetu í sveitarfélagi leggi til kostnaðar við þá þjónustu sem þeir njóta góðs af. Það er hagsmunamála okkar allra að sveitarfélögin séu öflug og staða þeirra tryggð. Þar fer saman ábyrgð kjörinna fulltrúa, að þeir hagi sér af skynsemi og láti fleira en atkvæðaveiðar stjórna gerðum sínum, og þess að íbúarnir taki sanngjarnan þátt í kostnaði við reksturinn. Mikilvægt er að í landinu haldist byggð og að fólk hafi frelsi til að velja sér búsetu. Ein forsenda þess er að sveitarfélögin séu nægilega stór og öflug til þess að standa undir þeirri þjónustu sem þeim er skylt að veita. Líta þarf gagnrýnum augum á það kerfi sem nú er við lýði, bæði hvað varðar tekjuöflun sveitarfélaga – en ekki síður þær heimildir sem sveitarstjórnir hafa til þess að stofna til útgjalda á kostnað skattgreiðenda.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.