Welch lækkar ellilífeyrinn

Eftir hrun á mörkuðum í Bandaríkjunum, og uppljóstrana um frumlegar bókhaldsvenjur ýmissa fyrirtækja, hefur trúverðugleiki hlutabréfamarkaða rýrnað. Nú beinist kastljósið að þóknunum stjórnenda sem eru víða ævintýralegar. Stemmningin á markaðinum er fremur grá – en naflaskoðun markaðarins í Bandaríkjunum gæti verið að skila árangri.

Fáir hafa farið varhluta af þeirri naflaskoðun sem bandarískt efnahagslíf er að fara í gegnum um þessar mundir. Hrunið á Wall Street, sérstaklega í tæknigeiranum, frá mars 2001 er ævintýralegt og endurskoðunarskandalar hafa bætt gráu ofan á svart. Fjármálaspekúlantar sem eitt sinn virtust ganga á skýjum í uppstreymi eru nú meira eins og heimilislausir fátæklingar leitandi í sorptunnum verðbréfamarkaðanna að bréfum og peningum sem ekki hafa brunnið til ösku. Meira að segja fréttamennirnir á MSNBC virðast vera hættir að strauja skyrturnar sínar og líta út eins og maður getur ímyndað sér að Reynir Karlsson, þáverandi landsliðsþjálfari Íslands, leit út að kvöldi 23. ágúst 1967 eftir 14-2 tap Íslands gegn Danmörku í Kaupmannahöfn.

Meðal þess sem grafið hefur undan trausti fjárfesta eru óhóflegar launagreiðslur til stjórnenda og þær aðferðir sem fyrirtæki hafa beitt til þess að fela greiðslurnar. Launagreiðslur til stjórnenda hafa hækkað stórfenglega á undanförnum áratugum og á meðan hluthafar virtust ætla að græða endalaust á vísidóm þeirra þá var flestum sama en nú hefur kastljósið beinst mjög að þessum uppsprengdu launagreiðslum og þóknunum.

Fyrir skömmu komu fram upplýsingar um eftirlaunagreiðslur og hlunnindi Jack Welch, einhvers virtasta stjórnanda í bandarísku atvinnulífi. Welch stjórnaði General Electric frá 1981 til 2001 og hefur auk stjórnunarstarfa sína verið mikilvirkur á ritvellinum og er gjarnan tekin til fyrirmyndar þegar benda skal á árangursríkar stjórnunaraðferðir. Eftirlaunagreiðslur Welch komust í sviðsljósið í skilnaðarmáli hans og ollu töluverðri furðu. Auk þess að fá mjög ríflega summu árlega í eftirlaun skyldi Welch fá afnot af einkaþotum GE, íbúð á Manhattan, Mercedes bifreið, aðgang að fjölmörgum golfvöllum og sveitaklúbbum auk frímiða á íþrótta- og menningarviðburði.

Welch ákvað að endurgjalda GE öll þau hlunnindi sem hann hafði aðgang að til þess að draga úr þeirri neikvæðu umræðu sem skapaðist vegna málsins. Hins vegar lét bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) ekki nægja og mun hefja formlega rannsókn á starfslokasamningi forstjórans fyrrverandi.

Ákvörðun Welch hefur hins vegar haft mjög jákvæð áhrif í Bandaríkjunum og telja margir að hún valdi því að stjórnir fyrirtækja forðist það eftirleiðis að gera leynisamninga við stjórnendur um launakjör. Hingað til hafa beinar launagreiðslur undantekningarlaust verið hluti af upplýsingum sem sendar eru til hluthafa en til þess að forðast hneykslun hafa stjórnir bætt ýmsum sporslum inn í samningana sem ekki hafa verið gerðar opinberar og þannig falið hluta af raunverulegri þóknun stjórnendanna. Þar sem sú skylda hvílir á bandarískum almenningshlutafélögum að gefa upplýsingar um þóknun helstu stjórnenda þá eru það bein svik við hluthafa að fara í kringum reglurnar með slíkum aðferðum.

Hæfni stjórnenda getur haft mikil áhrif á gengi fyrirtækja og ábyrgð þeirra er mikil. Það er því eðlilegt að þeir hafi bæði há laun og beinan hag af því að taka ákvarðanir sem samræmast hagsmunum hluthafanna. Það er hins vegar nauðsynlegt að stjórnir fyrirtækja geti réttlætt launakjörin fyrir hluthöfum. Þær stjórnir, sem ekki hafa launagreiðslur stjórnenda uppi á borðinu, treysta sér greinilega ekki til þess að verja ákvörðun sína og vekur því spurningar um hvort ákvarðarnir hafi verið réttmætar til að byrja með.

Þótt allt virðist vera að fara í kaldakol og allir séu spilltir og græðgin óseðjandi þá er mikla naflaskoðun sem bandarískur markaður er að ganga í gegnum er ágæt sönnun þess hversu vel frjáls og opinn markaður starfar í raun. Enginn kemst upp með svindl til lengdar og þótt miklir fjármunir tapist stundum þá eru „villurnar“ leiðréttar og fólk getur aftur fengið trú á markaðnum. Og þá geta þulirnir á MSNBC farið að strauja skyrturnar sínar á ný.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.