Nauðganir ekki liðnar

Karlahópur Femínistafélags Íslands á hrós skilið fyrir að hafa staðið vaktina á þjóðhátíð í Eyjum um helgina þar sem þeir kynntu átakið Karlmenn segja NEI við nauðgunum. Engin nauðgun hefur verið tilkynnt i tengslum við útihátíðar nýliðinnar verslunarmannahelgar enn sem komið er.

Engin nauðgun hefur verið tilkynnt í tengslum við útihátíðar helgarinnar núna tveimur dögum eftir að verslunarmannahelginni lauk. En of snemmt er að segja til um hvort að engin nauðgun hafi verið framin um helgina þar sem það getur tekið fólk sem verður fyrir nauðgunum daga, mánuði eða jafnvel ár að koma fram og tilkynna nauðganir. Og eflaust eru dæmi um nauðganir sem eru aldrei tilkynntar.

Eftir verslunarmannahelgina fyrir sex árum síðan, árið 2001, bárust tilkynningar um 22 nauðganir sem tengdust beint útihátíðum. Síðan þá hafa tvö til þrjú nauðgunarmál komið upp tengd útihátíðum um verslunarmannahelgar ár hvert. Þá eru ótalin mál sem koma upp þessa helgi í heimahúsum m.a., ótengd útihátíðum.

Tveimur árum eftir þessa svörtu helgi var nýstofnaður karlahópur Femínistafélagsins með átak gegn nauðgunum fyrir verslunarmannahelgina í fyrsta sinn og hefur gert það hvert ár síðan. Fyrsta árið var slagorð átaksins Nauðgar vinur þinn? og síðan var slagorðinu breytt í Karlmenn segja NEI við nauðgunum. Á heimasíðu átaksins segir að hópurinn hafi ákveðið að fara fram með þetta átak vegna þess að þeir hafi verið þreyttir á að ábyrgðinni væri alltaf varpað yfir á þá sem verða fyrir nauðgunum. „Við vorum orðnir ansi þreyttir á orðræðunni hér um að stelpur ættu að passa sig og upp á hvora aðra, passa hvernig þær klæða sig, hve mikið þær drekka, hvernig þær umgangast karla, horfa á karla o.s.frv. Sem sé þreyttir á því að ábyrgðinni á nauðgunum er allt of oft komið yfir á konurnar og fórnarlömbin.“

V-dagssamtökin hafa einnig beitt sér fyrir aukinni umræðu um nauðganir í samfélaginu og fyrir verslunarmannahelgina mátti sjá í fjölmiðlum auglýsingar samtakanna sem beindu athygli að gerandanum. Í þeim stóð: Nauðgari – sumt þværðu ekki af þér.

Nokkrir meðlimir úr karlahópi Femínistafélags Íslands voru á þjóðhátíð í Eyjum þar sem þeir voru að kynna átakið Karlmenn segja NEI við nauðgunum fyrir fólki. Ótrúleg frétt barst um að einn þeirra hefði fengið kjaftshögg upp úr þurru frá ókunnugum manni þar sem hann stóð að spjalla við fólk um átakið. Fréttin varð til að rifja upp gagnrýni sem undirrituð hefur orðið vör við í kringum þetta átak. Sumir karlmenn – afar fáir þó örugglega – virðast telja svona átak einhvers konar áfellisdóm yfir karlmönnum þar sem verið sé að gefa í skyn að þeir séu allir mögulegir nauðgarar. En nauðganir eru ekki einkamál þeirra sem að fremja nauðgun og þeirra sem verða fyrir árásinni. Það hlýtur að vera best að sem flestir séu meðvitaðir um hversu mikill glæpur nauðganir eru og um afleiðingar þeirra á þá sem er nauðgað.

Stígamót og kvennaathvarf veita veigamikla þjónustu til þeirra sem verða fyrir nauðgunum auk neyðarmóttöku og heilbrigðisstofnana. En karlahópur Femínistafélags Íslands og V-dagssamtökin eiga einnig mikið hrós skilið fyrir forvarnarstarf sitt og framlag til að stuðla að umræðu um nauðganir. Og með því að fara á staðinn, ræða við fólk og virkja það með sér næst enn betri árangur heldur en myndi nást með umræðunni einni sér þó hún sé allra góðra gjalda verð.

Þó að ekki hafi enn verið tilkynnt um nauðganir tengdar útihátíðum eftir helgina hafa þegar borist tilkynningar um nauðganir í heimahúsum eins og verða því miður næstum hverja helgi. Og framundan er nótt þar sem algengt er að nauðgunarmál komi upp – menningarnótt. Mikilvægt er að halda umræðunni í gangi og að fólk taki sig saman um að gera það viðhorf öllum ljóst að nauðganir séu ekki liðnar í þjóðfélaginu.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.