Af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Flestir sem hafa stofnað til bankaviðskipta undanfarna mánuði hafa orðið varir við að reglur sem ætlað er að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafa tekið gildi. Saklausar ömmur sem ætla að stofna bankareikning fyrir óskýrð barnabörn eru spurð um uppruna fjármagns og menn þurfa að sýna vegabréf sitt oftar í bönkum en á flugvelli. Hvers vegna er notast við sömu aðferðir við að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Flestir sem hafa stofnað til bankaviðskipta undanfarna mánuði hafa orðið varir við að reglur sem ætlað er að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hafa tekið gildi. Saklausar Ömmur sem ætla að stofna bankareikning fyrir óskýrð ömmubörn eru spurð um uppruna fjármagns og menn þurfa að sýna vegabréf sitt oftar í bönkum en á flugvelli. Hvers vegna er notast við sömu aðferðir við að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka?

Í 3. gr. laga nr. 64/2006 segir efnislega að peningaþvætti sé að koma fjárhagslegum ávinningi alvarlegra brota í hendur aðila, hvort sem er afbrotamanni eða öðrum. Fjármögnun hryðjuverka er skv. sömu grein öflun fjár í þeim tilgangi eða með vitneskju um að nota eigi það til að fremja hryðjuverk. Eðlilegt er að berjast gegn ólögmætum hagnaði og þar með peningaþvætti og allir vel þenkjandi menn vilja losa veröldina undan ánauð og ógn hryðjuverka. Hins vegar er ekkert sem segir að þetta þurfi endilega að vera gert á sama vettvangi.

Eins og sjá má af skilgreiningu laganna er um að ræða efnislega ólík brot. Peningaþvætti kemur aðeins til ef fyrir hendi er brot sem ávinningur var af. Vissulega geta aðilar sem aðstoða við peningaþvætti haft ávinning af því en illa fengið fé sem þarf að þvætta er alltaf fengið af þegar frömdu broti. Því má segja að með því að hindra peningaþvætti sé verið að vinna að því markmiði að menn hagnist ekki á brotum sínum. Með því að gera hagnaðarmöguleika minni er verið að draga úr brotum þar sem ábati er helsti hvati margra brota. Að því gefnu að lögin nái markmiði sínu hafa þau jákvæð ytri áhrif, það er að þau draga úr öðrum brotum. Jafnframt hefur tilgangur slíkra laga verið að gera það erfiðara að fara huldu höfði með illa fengið fé og að safna gögnum um slíkt fé í þágu máls sem rekið verður síðar gegn afbrotamönnum og þeim sem aðstoða þá við peningaþvætti.

Þegar rætt er um fjármögnun hryðjuverka er brotið yfirleitt ekki þegar framið. Hryðjuverk eru yfirleitt pólitísk, en ekki framin í hagnaðarskyni – þó svo að dæmi séu um að menn hafi tekið skortstöðu fyrir 11. september 2001 og hagnast verulega. Eftir árásirnar voru markaðir lokaðir í eina viku. Þann 17. september fyrsta dag eftir opnun varð stærsta fall á einum degi í sögunni, eða um 684 stig sem jafnaði til 7,1% á þeim tíma. Verði ávinningur af hryðjuverki sem þarf að þvætta kemur hugtakið peningaþvætti til sögunnar. Að öðru leyti er ekki hægt að sjá hvernig þessir glæpir tengjast nema að því leiti sem þeir eru settir saman í löggjöf.

Fjármögnun hryðjuverka og peningaþvætti eru einnig mjög ólík að umfangi og aðferðum. Fjármagnið sem fer í fjármögnun hryðjuverka er fjarri því allt fengið með ólöglegum aðferðum, oftar en ekki er féð fengið hjá auðugu fólki og ríkisstjórnum sem styðja hryðjuverk. Til dæmis voru margir Bandaríkjamenn fjárhagslegir bakjarlar IRA. Almennt má telja að fjármögnun hryðjuverka komi frá þróunarlöndum inn í hin auðugu iðnvæddu ríki, öfugt við þegar verið er að þvætta peninga þá flæði fjármagnið úr efnahagsstórveldunum yfir í annað erlent ríki. Þar að auki er almennt talið að umfang peningaþvættis jafnist á við 2 til 5 prósent af umfangi heimsframleiðslunnar. Árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 kostuðu hryðjuverkamennina um 400.000 – 500.000 Bandaríkjadali og aðrar minni hryðjuverkaárásir eins og í Madrid 10.000 dali.

Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar með opnum hug hljóta menn að spyrja sig hvers vegna peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru tengd svo náið í lögunum. Er það til að skapa pólitískan vilja til að fara bakdyraleið að rannsóknum á öðrum glæpum? Fólk víða á Vesturlöndum var tilbúið að fórna persónufrelsi fyrir öryggi eftir hryðjuverkaárásinar 11. september. Bandaríkin gátu í krafti yfirburðastöðu sinnar sem viðskiptaveldi krafið önnur ríki um að fylgja fordæmi sínu. Með auknum aðgangi að bankafærslum fólks er hið opinbera búið að leggja þungt lóð á sínar vogaskálar. Það má efast stórlega að hvítflibbaglæpamenn sem þurfa að þvætta peninga á Vesturlöndum séu mikið að fjármagna alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi. Allir skynsamir menn hljóta líka að sjá að ef hægt er að nota 10.000 dali til að fremja hryðjuverk, líkt og þau í Madrid, er ekki nokkur tilgangur í að rannsaka slíka fjármögnun samhliða rannsóknum á peningaþvætti. Slík upphæð getur ekki talist mikil í samanburði við veltu í bankakerfinu, enda aðeins sæmilegar mánaðartekjur íslensks plebba. Varla telur nokkur maður að ekki megi fela þá upphæð auðveldlega ef fjármagna á hryðjuverk – jafnvel í rassvasanum. Hver er fælingarmáttur þessara reglna þegar menn ætla að fremja hryðjuverk? Vilja menn t.d. að 10.000 dala færslur hringi bjöllum hjá yfirvöldum?

Það þarf vart að taka það fram að undirritaður er hlynntur því að unnið sé gegn fjármögnun hryðjuverka og peningaþvætti. Hins vegar er hættan sú að verið sé að fórna of miklum borgaralegum réttindum fyrir of lítinn árangur. Með því að hafa sem yfirlýst markmið laga að þau berjist gegn fjármögnun hryðjuverka er nokkuð líklegt að menn hafi farið of geyst og veitt yfirvöldum of ríkar heimildir í lögunum. Enginn vill sjá fleiri hryðjuverk – en fáir vilja skipta á bankaleynd fyrir örlítið færri hasshausa vopnaða reiðufé, þvættandi afrakstur á bútasölu. Það er líka óæskilegt að setja starfsfólk banka í þá stöðu að þurfa meta hvort viðskiptavinur sé hryðjuverkamaður. Eftir 11. september voru dæmi um að bankar lokuðu á viðskipti fólks frá Miðausturlöndum.

Betri árangri mætti ná með því að reyna meðal annars að ná til þeirra sem setja upp styrktarsjóði sem skálkaskjól og jafnvel kveða á um að þeir sjóðir sem vilji starfa í landinu þurfi að vera gagnsæir. Í kjölfarið væri hægt að breyta lögum um peningaþvætti á þá vegu að fjármálastofnanir yrðu fyrir meiri fjárhagslegum skaða ef þær tæku þátt í peningaþvætti. Núverandi skipulag er of dýrt, of ólíklegt til árangurs og veitir hinu opinbera of ríkar heimildir til að fylgjast með persónulegum málefnum þeirra. Það er gömul, klén og góð tugga að frelsið glatast sjaldnast allt í einu.

Latest posts by Ásgeir H. Reykfjörð (see all)