Íslendingar – skrítinn þjóðflokkur í augum útlendinga

Eftirfarandi pistill er skrifaður eftir viðtal við þýska ferðamanninn Herr Heinz-Badenhoff sem kom til Íslands síðasta sumar til að kynnast landi og þjóð. Herr Heinz-Badenhoff hafði þetta að segja um ferðina: “Stórbrotið og fallegt land – en snargeggjað og stórskrítið fólk!”

Topp fimm ástæður þess að Herr Heinz-Badenhoff telur íslendinga vera skrítinn þjóðflokk….

5: How do you like Iceland? “ Hvað er málið – af hverju spurði hver einasti íslendingur sem ég talaði við, þessarar spurningar?”

4: Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. “Þarf ég að segja meira? Samansafn mestu furðufugla sem ég hef hitt – og þeir sem voru eðlilegir við komuna til eyja drukku bara þangað til þeir urðu jafn skrítnir!”

3: Hákarl og hrútspungar. “Fyrsta kvöldið mitt á Íslandi var mér boðið til veislu. Íslendingar buðu mér upp á mat og drykk, sleiktu út um og voru afar stoltir af veigunum. Mmmmm. Súr og úldinn matur, kindahöfuð, hrútspungar, hákarl og fleira ómeti. Ég skil vel að íslendingar hafi þurft að borða þetta á miðöldum til að lifa af, en af hverju í ósköpunum hættu þeir því ekki um leið og nútíma geymsluaðferðir á matvælum komu fram á sjónarsviðið?”

2: Lokað vegna veðurs. “Ég átti erindi í fyrirtæki eitt í Reykjavík einn daginn. Það vildi ekki betur til en að ég kom að harðlæstum dyrum. Á hurðinn var lítill miði sem á stóð: Lokað vegna veðurs!. Íslendingar hljóta að vera eina þjóðin í heiminum sem dettur í hug að pakka bara saman, loka fyrirtækjum og fara út í sólbað þegar úti er rétt rúmlega 15 gráðu hiti og léttskýjað!”

1: Yltröndin í Nauthólsvík. “Á Íslandi er bara ein baðströnd sem kölluð er Nauthólsvík. Magnað fyrirbæri. Íslendingar dóu sko ekki ráðalausir þó ekki hafi verið nein almennileg baðströnd í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Þeir bjuggu hana bara til sjálfir – og það skipti litlu að sjórinn væri ísjökulkaldur. Afraksturinn: Eina þjóðin í heiminum sem dælir heitu vatni út í sjóinn, til að hægt sé að baða sig!”

Það skal síðan ekki nokkrum manni detta í hug að Herr Heinz-Badenhoff skuli að einhverju leiti vera hugarburður pistlahöfunds. Niðurstöður pistilsins eru studdar óyggjandi vísindalegum rökum.

Íslendingar eru skrítinn þjóðflokkur.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)