Raunir námsmanns

Það er hreint ekki auðvelt að vera námsmaður nú til dags. Næstum ómögulegt er fyrir ungt fólk og þá sérstaklega námsmenn að kaupa sér íbúð, þar sem húsnæðisverð er lygilega hátt. Námslánin mæta ekki raunverulegri framfærsluþörf námsmanna og námsmenn neyðast til að vinna með náminu til að ná endum saman. Hvers eigum við námsmenn eiginlega að gjalda?

Það er hreint ekki auðvelt að vera námsmaður nú til dags. Næstum ómögulegt er fyrir ungt fólk og þá sérstaklega námsmenn að kaupa sér íbúð, þar sem húsnæðisverð er lygilega hátt. Námslánin mæta ekki raunverulegri framfærsluþörf námsmanna og námsmenn neyðast til að vinna með náminu til að ná endum saman. Hvers eigum við námsmenn eiginlega að gjalda?

Stúdentagarðar Háskóla Íslands eru þarfaþing og koma mjög mörgum stúdentum til góða. Því miður er það þannig að miklu færri komast að en vilja og eru biðlistar langir. Því er það næstum ómögulegt fyrir einhleypan og barnlausan einstakling af höfuðborgarsvæðinu, eins og undirritaða, að komast inn á Stúdentagarðana. Nauðsynlegt er að byggja fleiri garða til að anna eftirspurninni sem er mikil. Félagsstofnun stúdenta (FS) hefur hug á að geta boðið 15% nemenda Háskóla Íslands stúdentaíbúðir, en eins og staðan er í dag eru aðeins íbúðir fyrir um 8% nemenda. Vandamálið virðist fyrst og fremst vera lóðaskortur.

Nú í janúar var reyndar undirrituð viljayfirlýsing af hálfu borgarstjóra og þáverandi formanni Stúdentaráðs til að tryggja byggingarlóðir undir Stúdentagarða. Á næstum þremur árum er því stefnt að framtíðaruppbyggingu Stúdentagarða á þremur svæðum í Reykjavík, við Hverfisgötu, Sléttuveg og í Vatnsmýrinni. Undirritun þessi er mikilvægt skref í baráttunni og mikill sigur fyrir stúdenta. Þessi uppbygging er samt fjarlæg þeim sem glíma við húsnæðisvanda í dag og verða hugsanlega útskrifaðir úr skólanum þegar nýju garðarnir líta dagsins ljós.

Það er stór hópur stúdenta sem er á biðlistum eftir stúdentaíbúðum og líklega enn fleiri sem hreinlega sækja ekki um þar sem þeir telja enga von til þess að komast að. Þessum hópi eru ekki margir vegir færir. Einhverjir eiga þess kost að búa í foreldrahúsum, en alls ekki allir. Einn möguleiki fyrir þennan hóp er að leigja íbúðir á almennum markaði, þar sem leigan er að sjálfsögðu miklu hærri en á Stúdentagörðunum.

Margir námsmenn neyðast því til að fara inn á almenna leigumarkaðinn og oft reynir fólk að leigja saman til að lækka kostnaðinn. Einn ljós punktur við leigumarkaðinn er að leigjendur eiga rétt til húsaleigubóta sem kemur sér vel fyrir námsmenn. Þeir stúdentar sem leigja á Stúdentagörðunum fá einnig húsaleigubætur. En í þessum ljósa punkti er falið mikið óréttlæti sem undirrituð lenti í af eigin reynslu á dögunum. Þannig er mál með vexti að þeir sem leigja í tvíbýli á Stúdentagörðunum gera sitt hvorn leigusamninginn og fá því sitthvorar húsaleigubæturnar. En því er ekki fyrir að fara á almennum leigumarkaði. Því samkvæmt lögum um húsaleigubætur, nr.123/1997 , eru húsaleigubætur ekki greiddar nema einstaklingur hafi sérherbergi, sérbaðherbergi og séreldhús. Tveir einstaklingar sem leigja saman þriggja herbergja íbúð (með tveimur svefnherbergjum) eiga því ekki rétt á því að fá sitthvorar húsaleigubæturnar.

Það skýtur því skökku við að námsmenn sem ekki komast að á Stúdentagörðunum og eru á biðlista, neyðast til að leigja á almennum markaði, en fá ekki sitthvorar húsaleigubæturnar eins og íbúar Stúdentagarðanna þrátt fyrir að borga miklu hærri leigu. Nú er það þannig að Stúdentagarðarnir eru undantekning frá lögunum en eðlilegt er að reynt væri að koma til móts við þá námsmenn sem ekki komast að á görðunum með því að láta þá einnig fá sitthvorar húsaleigubæturnar ef þeir sýna fram á að þeir séu í námi og á biðlista á Stúdentagörðunum.

Með því að koma til móts við námsmenn með þessu móti væri að einhverju leyti hægt að brúa bilið þar til væntanlegir Stúdentagarðar rísa.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.