Heillum horfinn af hendingum

Það eru að koma áramót og þig langar að kaupa hlutabréf. Hvort ættir þú að lesa Völvu Vikunnar eða Frjálsa Verslun? Samkvæmt höfundi bókarinnar Fooled by Randomness, Nicholas Nassim Taleb, þá skiptir það engu máli hvort þú velur.

Fooled by Randomness fjallar um það hvernig fólk ofmetur hlutverk orsakatengsla í kringum sig. Þegar fólk upplifir tvo algerlega sjálfstæða atburði (nálægt hvort öðrum í tíma), þykist það iðulega sjá eitthvað orsakasamhengi eða fylgni á milli þeirra þó slíkt samband sé hvergi nærri.

Hjátrú er gott dæmi um tengingu milli óskyldra hluta. Föstudaginn 13. sprakk dekk (sem hefur nær örugglega einnig gerst á öðrum ómerkilegri dögum), einhver sá svartan kött og snéri sig í kjölfarið á ökkla (líklegast vegna þess að hann horfði á svarta köttinn en ekki fram fyrir sig) og Liverpool vinnur alltaf þegar Gunni situr í hægri stólnum, með happasólgleraugun, í grænu treyjunni (nema í síðustu viku en það var útileikur).

Frægustu hjátrúrnar eru vel þekktar og menn taka (vonandi) almennt lítið mark á þeim. Hinsvegar bendir Taleb á þá staðreynd að í raun eru hjátrúrnar miklu fleiri í lífi okkar en við gerum okkur grein fyrir fæstum þeirra. Okkur hættir þannig til þess að sjá heiminn sem miklu skýrari og skiljanlegra fyrirbæri heldur en hann er í raun og veru: gríðarlega tilviljanakenndur!

Taleb sakar fjölmiðla um að rækta þennan falska skilningi á heiminum með því að oftúlka atburði gærdagsins án nægilegra upplýsinga og fullnægjandi tímaramma til þess að ná utan um atburðina. Það er einungis síðar, eftir að atburðir og tengingar þeirra á milli eru orðin skýrari, að með sagnfræðilegu hugarfari sé hægt er að sjá almennilega hvað átti sér stað.

Þau eru óteljandi, fyrirbærin sem við teljum okkur skilja, þegar í raun og veru er um hendingar að ræða. Það þykir hreinlega ekki fínt að segja “ég veit það ekki” og “þetta var bara tilviljun”. Taleb tekur fram að hann sé alveg jafn mikið ginningarfífl fyrir blekkingum hversdagsins og aðrir, hann segist hinsvegar gera sér grein fyrir þessu og reynir markvisst að hundsa upplýsingaflæðið í kringum sig til þess að hreinlega hugsa skýrar.

Taleb stingur upp á því að offlæði upplýsinga (frétta) í heiminum í dag sé meira til skaða en bóta. Í raun kallar hann eftir nýrri tegund þjóðfélags þar sem menn geti haldið í læknisfræðilega þróun undanfarinna 150 ára en haldið aftur í þann tíma sem fólk lét sér nægja fréttir hálfsmánaðarlega og gaf sér meiri tíma til þess að hugsa um heimspeki og bókmenntir á kostnað þess að spá í það af hverju Nasdaq vísitalan hækkaði um 0,25% í fyrradag.

Hugmynd?

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.