Meira af launamun kynjanna

Undanfarna daga hefur nýleg rannsókn á vegum Háskólans í Reykjavík nokkuð verið til umræðu. „Rannsókn á óútskýrðum launamuni kynjanna“ er yfirskrift þessarar rannsóknar en að henni standa starfsmenn, dósent og forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Markmiðið var að kanna viðhorf fólks til sanngjarnra launa ef svo má að orði komast.

Undanfarna daga hefur nýleg rannsókn á vegum Háskólans í Reykjavík nokkuð verið til umræðu. „Rannsókn á óútskýrðum launamuni kynjanna“ er yfirskrift þessarar rannsóknar en að henni standa starfsmenn, dósent og forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík. Markmiðið var að kanna viðhorf fólks til sanngjarnra launa ef svo má að orði komast.

Til samanburðar gáfu Samtök atvinnulífsins, ParX og viðskiptaráðgjafar IBM út skýrslu í júní 2007 um launamun kynjanna. Þar kemur fram að föst mánaðarlaun kvenna voru að meðaltali 18% lægri en karla árið 2006. Þar af verða 8% skýrð með mun á menntun kynjanna, starfi, aldri og starfsaldri. Eftir stendur að föst mánaðarlaun eru að öðru jöfnu 10% lægri hjá konum en körlum.

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með viðbrögðum almennings við rannsókn Háskólans í Reykjavík en svo virðist sem niðurstöðurnar komi fólki nokkuð á óvart. Viðbrögðin hafa að minnsta kosti ekki látið á sér standa.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík að kannað var viðhorf stjórnenda og starfsmanna til þess sem teljast megi sanngjörn laun og athugað hversu kynbundið viðhorfið er. Hér að neðan má sjá helstu niðurstöður:

• Konur bjóða körlum hærri laun en konum, en karlar bjóða kynbræðrum sínum ennþá hærri laun.
• Konur reikna með að konur sætti sig við lægri laun en karlar.
• Bæði konur og karlar gera ráð fyrir að konur sætti sig við mun lægri laun en karlar og er munurinn frá 13 til 19 prósent.
• Konur ráðleggja kynsystrum sínum að biðja um mun lægri laun en þær myndu ráðleggja körlum og er munurinn meiri en 10%. Karlmenn ráðleggja körlum einnig að biðja um hærri laun en þeir ráðleggja konum, en munurinn á ráðleggingum þeirra er minni.
• Konur búast við að konum verði boðin 13 til 15 prósentum lægri laun en karlar. Karlar búast við að munurinn sé minni.
• Konur ráðleggja kynsystrum sínum að sætta sig við 11 til 12 prósentum lægri laun en þær ráðleggja körlum að sætta sig við. Þetta er mun meiri munur en þegar karlar ráðleggja fólki.

Þar sem ég hef sjálf ásamt nokkrum samstarfskonum og vinkonum staðið í launabaráttu undanfarnar vikur og mánuði vakti þessi rannsókn áhuga minn. Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um launamun kynjanna og ekki ósennilegt að margir séu orðnir þreyttir á þeirri umræðu. Það var þó eitthvað við þessa rannsókn sem fékk mig til að skoða þetta betur.

Eins og sumir hafa kosið að orða það þá lítur út fyrir að konur séu konum verstar í þessum efnum. Getur það verið að við konurnar séum í svo mikilli samkeppni við hver aðra að við sættum okkur frekar við að karlmönnum í kringum okkur vegni betur en konum? Eða finnst okkur í raun karlar standa sig betur í vinnunni en við? Að minnsta kosti ættum við konur að taka okkur sjálfar til skoðunar því hugsanlega liggur skýringin á óútskýrðum launamun kynjanna hjá okkur sjálfum.

Ég held að með því að standa saman og veita hver annarri ráðleggingar um okkar eigin reynslu getum við færst nær því jafnrétti sem við leitumst eftir. Sjálf leitaði ég ráða hjá konunum í kringum mig í launabaráttunni sem skilaði sér án efa í launaumslagið.

Latest posts by Sæunn Björk Þorkelsdóttir (see all)